Fréttir

Frá kínverskum stjórnvöldum

Í vikunni barst ÍÆ bréf með staðfestingu á því að kínverska ættleiðingarmiðstöðin, CCAA, hafi skoðað starfshætti okkar og samþykkt áframhaldandi samstarf CCAA og ÍÆ.
Vegna smæðar félagsins höfum við ekki möguleika á að senda fulltrúa til funda með erlendu samstarfsaðilunum eins oft og ákjósanlegt væri. Því er ágætt að fá fréttir frá norrænum kollegum okkar um skoðanskipti þeirra og yfirvalda í upprunalöndum barnanna. Eftirfarandi upplýsingar eru þýddar og endursagðar úr fréttabréfi BV í Svíþjóð.

Í nóvember sl. fóru fulltrúar allra sænsku félaganna sem ættleiða frá Kína og sænskra stjórnvalda (NIA) til Kína til viðræðna við þarlend yfirvöld og til að kynna sér kínversk barnaheimili og fylgjast með ættleiðingu nokkurra sænskra fjölskyldna í Yunnan héraði og í Chongqing.

Á barnaheimili í Kunming eru 500 börn og eru 300 þeirra hjá fósturfjölskyldum á vegum barnaheimilisins. Þarna eru mörg börn með sérþarfir, deild fyrir mikið fötluð börn, önnur fyrir fyrirbura og einnig deild fyrir börn sem þurfa sérstaka örvun. Starfsmenn barnaheimilisins eru um 180 og þar af eru 30 læknar. Þetta heimili hefur starfað í 10 ár og er rekið af Kunming borg en fær einnig erlenda styrki. Sænsku sendinefndinni leist mjög vel á barnaheimilið og starfið þar.

Sendinefndin heimsótti kínversku ættleiðingarmiðstöðina tvisvar, í fyrra skiptið voru hinar ýmsu deildir skoðaðar og spjallað við starfsfólkið. Það er tiltölulega fátt starfsfólk sem fjallar um allar umsóknirnar, miðað við hinn mikla fjölda umsókna sem berst í hverjum mánuði. Mest er notast við tölvur frá því umsóknin berst og er skönnuð inn og þangað til valin er fjölskylda fyrir hvert barn.
Seinni heimsóknin var fundur sænsku sendinefndarinnar og fulltrúa sænska sendiráðsins með yfirmönnum ættleiðingarmiðstöðvarinnar. Svíarnir fengu tækifæri til að spyrja spurninga og fengu svör við flestu:

• Spurt var hvort senda mætti myndavélar til barnaheimilanna, eins og áður hefði veið gert. Svarið var nei, þetta tæki of mikinn tíma og betra væri að starfsfólk notaði allan sinn tíma til að sinna börnunum. Aðalforstjóri CCAA benti á að mikilvægast væri að börnin fengju sem besta umönnun og hann vonaði að Svíar væru sama sinnis.
• Kvóti fyrir einhleypa heldur áfram.
• CCAA hefur verkefni sem kallast Tomorrow plan og felst í að aðstoða þau börn á barnaheimilum sem eru með lýti eða fatlanir sem hægt er að ráða bót á. Með því að gera aðgerðir á börnunum fá þau betra líf og aðstæður. Um er að ræða t.d. að laga hjartagalla, skarð í vör eða klofinn góm og fleira af þeim toga. Eftir aðgerðir teljast börnin frísk og fara í hóp þeirra barna sem hægt er að ættleiða.
• Börnin sem eru ættleid frá Kína eru velkomin í heimsókn til landsins og þeirra héraða sem þau koma frá. En kínversk stjórnvöld geta ekki aðstoðað þau við að finna upprunafjölskyldur sínar því upplýsingar um þær eru ekki tiltækar. Það er bannað að yfirgefa barnið sitt í Kína og þess vegna er aldrei vitað hverjir kynforeldrar eru og þeir spyrja ekki eftir börnum sínum.

Sænsku fulltrúunum fannst ferðin vera ákaflega gagnleg á allan hátt. Það var gaman að taka þátt í fyrstu kynnum fjölskyldna og barnanna þeirra. Að hitta fulltrúa stjórnvalda er alltaf áhugavert og mikilvægt fyrir áframhaldandi samstarf.
Tilfinning þeirra er sú að stjórnvöld geri sitt ýtrasta til að hjálpa börnunum með því að finna heppilegar fjölskyldur fyrir þau.

Stundum verður misskilningur milli aðila en á þessum fundi var hægt að spyrja spurninga og fá svör jafnóðum. Skoðanir og menning eru að hluta ólík en óskin um að gera það besta fyrir börnin er sú sama. Miðlun ættleiðinga byggist alltaf á því að leita að fjölskyldu fyrir barn en ekki að finna barn fyrir umsækjendur.


Svæði