Fréttir

Íslensk ættleiðing á afmæli í dag

Síðdegis þann 15. Janúar árið 1978 kom nokkur hópur fólks saman í Norræna húsinu í þeim tilgangi að stofna ættleiðingafélag. Félagið hlaut nafnið Ísland Kórea og var síðar sameinað félagi sem stofnað var nokkru síðar. Hið sameinaða félag hlaut nafnið Íslensk ættleiðing og er því 34 ára í dag.

Fyrir tveimur árum síðan, á 32 ára afmæli félagsins, birtum við stofnfundargerð félagsins á vefnum okkar. Hún er hér ennþá. En það er líka athyglisvert að velta fyrir sér umhverfinu sem Íslensk ættleiðing var stofnuð í, við kíktum í blöð dagsins 15. janúar 1978.

Í Þjóðviljanum skrifaði Lúðvík Jósepsson um vandamál landbúnaðar og var hampað á forsíðu ásamt grein Magnúsar Kjartanssonar um tungutak og stafsetningu. Á blaðsíðu tvö var uppdráttur og umfjöllun um anorakk og bakpoka úr vindþéttri bómull og nokkru síðar var viðtal við Soffíu Túvínu áttræðan Íslending um bernskuár í rússnesku gyðingaþorpi.

Tíminn greinir frá því á forsíðu að hið umdeilda loðnubræðsluskip Norglóbal komi að austurströnd landsins þann dag. Á forsíðu er líka vakin athygli á grein í blaðinu um þá spurningu hvort endurholdgun eigi sér stað og hvort maðurinn hafi mörg líf. Þá er einnig hampað viðtali við Gissur Gissurarson bónda og hreppstjóra í Selkoti undir Eyjafjöllum undir fyrirsögninni “Allt mitt ráð við búskap binda”

Í Morgunblaðinu eru erlendar fréttir á forsíða að venju ritstjórnar þess á þeim árum. Þar er sagt frá því að Cyrus Vance utanríkisráðherra Bandaríkjanna hvetji Ísraela og Egypta til að finna lausn á vanda Palestínumanna, sagt er frá jarðskjálftum í Japan sem mældust 6,4 stig og vitað sé að átta manns hafi týnt lífi. Aðalfyrirsögnin er um að Rauðu khmerarnir séu í sókn í landamæraátökum við Víetnam.

Á baksíðu sem flytur helstu íslensku fréttirnar að mati Mogga er sagt frá að 25 smiðir og tæknimenn séu á leið til Nígeríu að vinna við byggingu íbúðarhúsa á vegum Scanhouse, færð á vegum er sögð erfið víða og flóð í Norðurárdal en viðgerð lokið í Kelduhverfi. Þá er frétt um þá hugmynd að stofna samtök um íslenskt tilboð í að halda heimsmeistaraeinvígi í skák og loks er frétt um að þrjátíu manna hópur Íslendinga sé á leið til Filippseyja að hitta töfralækninn Aqpaoa sem víðfrægur er fyrir skurðaðgerðir sínar og miðilshæfileika. Það var ferðaskrifstofan Sunna sem skipulagði þessa ferð.

Alþýðublaðið kom næstum ekki út þennan sunnudag fyrir 34 árum. Blaðið var ein opna en ekkert fréttatengt efni var í blaðinu og ein ljósmynd prýddi alla forsíðu blaðsins enda var vinsæll auglýsingafrasi frá Gillette rakvélaframleiðandanum gjarnan hafður á orði um blaðið:
“Ekki bara eitt blað -heldur tvö blöð” Alþýðublaðið.

Í laugardagsútgáfunni voru fréttamenn Alþýðublaðsins hins vegar í fullu fjöri og þar segir frá því undir breiðletraðri fyrirsögn að loðnuflotinn fari til veiða í dag “Í trausti loforða forsætisráðherra” en þess verði jafnframt krafizt að verðákvarðanir verði endurskoðaðar. Svo segir frá því að vöruskiptajöfnuður hafi verið neikvæður um 11 milljarða árið áður, tvö framboð hafi komið fram til stjórnar Dagsbrúnar og að flugfargjöld hækki um 10%. Alþýðublaðið sagði einnig frá því á forsíðu að Jafnréttisráð hafi skammað Yfirnefnd um verð á landbúnaðarafurðum fyrir að ganga út frá því sem algildri reglu að vinna karla á sveitabýlum sé verðmeiri en vinna kvenna.

Þetta var helst í fréttum sunnudaginn 15. Janúar 1978, þegar stofnfundur Íslenskrar ættleiðingar var haldinn.


Svæði