Fréttir

Tengslaröskun, viðurkennd greining?

Erindið fjallar um greininguna Tengslaröskun, sem er þýðing á greiningarhugtakinu Attachment disorder (F94.1 og F94.2) úr ICD-10 sjúkdómsgreiningar-kerfinu.  Verður farið yfir einkennamynd röskunarinnar og hvenær röskun, sem er varanleg og hamlandi, er til staðar og hvenær ekki.  Rætt verður um hugtakið tengslavanda, sem er vægari mynd af sama fyrirbæri.  Einnig verður farið yfir taugafræðileg fyrirbæri eins og heilaþroska útfrá aldri og fyrri sögu, nýjustu þekkingu á taugaþroska og hvenær „vandi“ verður að „röskun“.  Fjallað verður um hvernig er best að nálgast og umgangast þau börn sem sýna einkenni tengslavanda og hvernig er best að vinna með umhverfi þeirra einnig.  Rætt verður um tilgang greininga á börnum almennt útfrá því fyrir hvern þær eru settar og til hvers.

Guðlaug er félagsráðgjafi MA, með sérfræðingsleyfi frá Landlækni á sviði félagsráðgjafar á heilbrigðissviði ásamt því að vera fjölskyldumeðferðarfræðingur.  Hún hefur starfað víðs vegar á sviði barna, unglinga og fjölskyldna en lengst hefur hún starfað á Barna-og unglingageðdeild Landspítala (BUGL), þar sem hún starfaði í 13 ár, ásamt því að hafa unnið sem skólafélagsráðgjafi og fyrir Íslenska ættleiðingu, bæði til skamms tíma á skrifstofunni og einnig í eftirfylgniskýrslugerð til margra ára.  Í dag býr hún ásamt sinni fjölskyldu á Ísafirði og starfar þar sem deildarstjóri í barnavernd hjá Fjölskyldusviði Ísafjarðarbæjar.

Erindið fer fram í húsnæði Framvegis, Skeifunni 11b, Reykjavík, 3.hæð, kl 17:30 -19.00 þriðjudaginn 14.11 2017.

Boðið verður upp á barnapössun á meðan á erindinu stendur.  Vinsamlegast skráið barn/börn.
Þeim sem eiga ekki heimangengt er boðið upp á erindið á netinu.
Ókeypis er fyrir félagsmenn en kostar kr.1000 fyrir utanfélagsmenn. 


Svæði