Fréttir

Biðlisti eftir börnum með skilgreindar þarfir klárast aftur

Fyrir tveimur mánuðum sögðum við frá góðum árangri varðandi biðlista eftir börnum með skilgreindar sérþarfir. Okkar fólk hafði þá staðið vaktina að nóttu til og tókst læsa upplýsingum um börn fyrir alla sem voru á listanum. Listinn Kláraðist.

Nú getum við sagt nánast alveg sömu sögu. Í seinustu viku bárust okkur upplýsingar um að von væri á nýjum listum og því gátu tveir félagsmenn á vegum stjórnar Í.Æ. þau Ágúst Guðmundsson stjórnarmaður og Kristín Sval Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur setið vaktina aðfarnótt þriðjudagsins. Árangurinn var gleðilegur.

Biðlistinn okkar eftir börnum með skilgreindar sérþarfir var að vísu ekki langur en nú er enginn á biðlistanum því það tókst læsa upplýsingum um börn fyrir alla sem voru á listanum. Fljótlega fara því tvenn hjón til viðbótar til Kína að sækja nýjustu fjölskyldumeðlimina sína. Við óskum þessum verðandi foreldrum innilega til hamingju.

Þessi árangur okkar er gleðilegur fyrir margra hluta sakir.

  • Í fyrsta lagi eru núna vísbendirngar um að ættleiðingum til landsins muni fjölga á þessu ári um allt að 40%.
  • Í öðru lagi dregur mjög úr biðtíma fyrir fólk sem fer þessa leið í ættleiðingarferlinu en þess má geta að önnur hjónin sem nú fengu upplýsingar um barn lögðu inn umsókn á þessu ári.
  • Í þriðja lagi - og þriðja lagið er auðvitað mikilvægast - þá er það nú tryggt að fleiri börn fá tækifæri til að ná fullum þroska sem heilsteyptar persónur með því að vaxa úr grasi innan fjölskyldu og við hamingju, ástúð og skilning foreldra sem fulltrúar Íslenska ríkisins hafa komist að niðurstöðu um að séu hæfir og til þess fallnir að ættleiða og hafi fengið alla nauðsynlega ráðgjöf. Það er gleðilegt.

Svæði