Fréttir

Fréttablaðið - Frumættleiðingum fækkar en stjúpættleiðingum fjölgar

Fréttablaðið/Heiða
Fréttablaðið/Heiða

Formaður Íslenskrar ættleiðingar segir að ættleiðingum hafi fækkað mikið í heiminum undanfarin ár, meðal annars þar sem nokkur lönd hafa lokað fyrir umsóknir og fólk fer í auknum mæli í tæknifrjóvganir.

Frumættleiðingum að utan hefur fækkað mikið á undanförnum árum, og eru þær nú fjórar til fimm á ári. Frá aldamótum til 2015 voru þær yfirleitt í kringum 20 árlega og árið 2005 voru þær 41. Elísabet Hrund Salvarsdóttir, formaður Íslenskrar ættleiðingar, segir þetta alþjóðlega tilhneigingu.

„Ættleiðingum hefur fækkað mikið í heiminum undanfarin ár, sum lönd sem voru stór eins og Kína lokuðu fyrir almennar umsóknir vegna breytinga í þjóðfélaginu. Lokað hefur verið á nokkur lönd þar sem komst upp um mansal, til dæmis Kongó og Eþíópíu,“ segir hún. „Við höfum sem betur fer sloppið við þannig mál.“ Það sem af er ári hafa fimm börn komið til Íslands, fjögur frá Tékklandi og eitt frá Tógó.

Elísabet segir einnig fleiri orsakir fyrir fækkuninni. Fólk fari í auknum mæli í tæknifrjóvganir erlendis, svo sem til Grikklands, Tékklands eða Spánar, og að sýslumannsembættið hér á landi, sem gefur út forsamþykki, vinni hægar en áður. Forsamþykki taki nú 12 mánuði og biðtími í upprunalöndunum er misjafn. Í Tékklandi er meðalbiðtíminn tvö ár. „Við höfum ítrekað talað við dómsmálaráðuneytið um að þessi málaflokkur eigi ekki heima hjá sýslumanni þar sem eingöngu lögfræðingar starfa,“ segir Elísabet.

Ólíkt þessu hafa stjúpættleiðingar rokið upp. Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru þær 41 á síðasta ári, sem er með því mesta sem mælst hefur. Undanfarin ár hafa stjúpættleiðingar verið á annan eða þriðja tug.

Líkt og í frumættleiðingu eru tengsl við kynforeldri rofin og ný lagaleg tengsl myndast á milli barnsins og þess sem ættleiðir. Gerð er krafa um fimm ára samfellda sambúð við foreldri og sams konar kröfur gilda um heilsu og efnahag. Í flestum tilfellum er það faðir sem stjúpættleiðir.

Fréttablaðið - Frumættleiðingum fækkar en stjúpættleiðingum fjölgar


Svæði