Fréttir

Hugleiðing frá kjörföður

Skrifstofunni barst áhugaverð hugleiðing frá kjörföður einum vegna nýafstaðinnar fjölskylduhátíðar.

Börnin og við

Um nýliðna helgi héldum við mjög vel heppnaða fjölskylduhátíð Íslenskrar ættleiðingar í Ráðhúsinu í Reykjavík. Boðið var upp á metnaðarfulla dagskrá í tali og tónum og frábæra sýningu með munum og myndum frá þeim löndum sem félagar okkar hafa ættleitt börnin sín frá. Allt var þetta með miklum sóma gert, vinátta og hlýhugur ríktu meðal þátttakenda og skemmtinefndin á mesta hrós skilið. Samt varð ég hugsi vegna ræðu forsetans. Börnum okkar líkti hann við þá nýbúa sem hingað hafa komið á undanförnum árum og auðgað menningu landsmanna ómælt með siðum og venjum frá sínum heimaslóðum. Þessi líking varð til þess að í Ráðhúsinu fór ég að horfa á fötin sem sum barnanna voru í og síðan á alla sýninguna sem kynningu á menningu barnanna okkar. Og ég staldraði við spurningarnar: Gat það verið að við tengdum erfðafræðilegan uppruna einstaklinga svona við menningu? Gat það verið að okkur fyndist það breyta “menningu okkar Íslendinga” að fá fólk af ólíkum erfðafræðilegum uppruna til landsins?

Ég sá ekki betur en að hérna hefði óafvitandi slegið saman mjög ólíkum hugmyndakerfum. Enda þótt við værum öll vel meinandi gæti verið að aðrir fengju þá hugmynd að hátíðin byggðist á þeirri forsendu að eðli fólks réðist af húðlit þess og útliti. Það er eitt að taka fagnandi á móti fólki sem hingað leitar úr öðrum löndum, vill setjast að og um leið halda siðum sínum og venjum eftir því sem aðstæður leyfa hér við ysta haf – rétt eins og við og “okkar” fólk gerum hvar sem við þvælumst um veröldina. Sú fjölbreytni sem við það skapast hefur auðgað samfélagið á Íslandi og er af hinu góða.

En það gegnir allt öðru máli um ættleiddu börnin okkar. Menning, siðir og venjur í mat og drykk og klæðaburði, hanga ekki á neinum þeim genum sem Kári Stefánsson getur rannsakað. Börnin okkar koma ekki með neina framandi siði og menningu með sér. Nema kannski nafnið sitt sem var það eina sem dætur mínar frá Kolkata áttu þegar við hjónin fengum þær í hendur – fyrir utan bleyjuna, kjólinn og samfelluna sem þær voru í. Börnin okkar koma hingað og vita aldrei af sér öðru vísi en í okkar fjölskyldum þar sem við borðum steikt lambalæri, soðna ýsu, pizzu og pasta og klæðum þau í föt úr Kringlunni og Smáralind – og náttúrlega úr Englabörnum. Indverskur matur og kínversk föt eru þeim alveg jafn framandi og okkur. Það er hins vegar eðlilegt að við, foreldrar ættleiddra barna frá útlöndum, fáum áhuga á þeim löndum sem við höfum heimsótt og orðið fyrir djúpri reynslu í með börnunum okkar. Og það er eðlilegt að við viljum vita meira um þau lönd og miðla þekkingu á þeim til barnanna okkar eftir því sem þau hafa áhuga og þroska til. En við getum ekki gert það á þeirri forsendu að við séum að ala þau upp í “þeirra” menningu. Þau alast upp hér og eru hluti af þeirri menningu og siðum sem hér tíðkast. Fæðingarlönd þeirra eru þeim framandi. Það er ekki einu sinni sjálfsagt að þau fái mikinn áhuga á menningu í fæðingarlandi sínu (og hvaða “menning” ætti það líka að vera með tilliti til landsvæðis, stéttar, kyns og tímabils?). En það er ekki ólíklegt að þau fái slíkan áhuga og vilji jafnvel fara með okkur foreldrum sínum í ferðalag til fæðingarlandsins.

Í ljósi ræðu forsetans þurfum við að gæta vandlega að því í félaginu okkar á hvaða forsendu við kynnum menningu þeirra landa sem við höfum heimsótt í tengslum við ættleiðingar. Það er greinilega þörf á að koma í veg fyrir að fólk falli – í bestu meiningu – í þá gryfju að tengja genetískan uppruna einstaklinga við menningu þeirra. Það er eðlilegt að við höfum áhuga á þeim ólíku löndum sem við höfum farið til og á okkur hvílir sú skylda að ræða erfðafræðilegan bakgrunn barnanna við þau – bæði að fyrra bragði og síðan eins og þroski þeirra og áhugi kalla á. Í því efni er vert að gæta þess að ganga ekki útfrá þeirri forsendu að þau hafi sjálfkrafa áhuga á þeirri takmörkuðu menningarsýn á fæðingarland sitt sem við getum hugsanlega miðlað þeim. Það er hluti af ímyndarsköpun félagsins að gera okkur og öðrum grein fyrir því að áhugi félagsmanna á menningu framandi þjóða byggist ekki á þeirri forsendu að útlit og húðlitur fólks hafi meira um einstaklinginn að segja og bakgrunn hans en það uppeldi, atlæti og umhverfi sem hann eða hún elst upp í. Börnin okkar eru alin upp hér á landi og sjá heiminn sömu augum og við. Þau eru ekki menningarlegir sendiherrar fæðingarlanda sinna.

Gísli Sigurðsson


Svæði