Fréttir

ÍÆ gengur á varasjóð

Stjórn Íslenskrar ættleiðingar hefur sent Innanríkisræaðuneytinu tilkynningu um að ganga þurfi á varasjóð félagsins.

Þær ráðstafanir kunna að hafa í för með sér að þegar félagið verður lagt niður verða ekki öruggar rekstrarforsendur til að ljúka málum er kunna að vera til meðferðar á vegum félagsins á þeim tíma.

Þetta táknar að Islensk ættleiðing er enn í þeim samdráttar og frágangsferli sem hófst fyrir tveimur mánuðum þegar aðalfundi félagsins var frestar vegna óvissu um gerð þjónustusamnings við Innanríkisráðuneytið.

Þann 11. apríl sagði ættleiðingarfélagið sig frá nauðsynlegu námskeiðshaldi fyrir verðandi kjörforeldra. Engin námskeið eru nú haldin og er langur biðlisti fólks eftir þessum námskeiðum. Þeir sem ekki hafa lokið undirbúningsnámskeiði fá ekki heimild til að ættleiða barn erlendis frá.

Ekkert hefur komið fram undanfarna tvo mánuði sem upplýsir Íslenska ættleiðingu um vilja stjórnvalda til að tryggja félaginu fjárframlag sem stendur undir þeim verkefnum sem lögð eru á herðar félagsins með lögum og reglugerðum.

Í tilkynningu til ráðuneytsins segir m.a:
“3. mgr. 21. gr. reglugerðar um ættleiðingarfélög er samhljóða samþykktum Íslenskrar ættleiðingar en þar segir, Haga skal rekstri félagsins með þeim hætti að öruggt sé að unnt verði að ljúka ættleiðingarmálum, er kunna að vera til meðferðar á vegum þess, ef það verður lagt niður… …Í áranna rás hefur Íslensk ættleiðing ekki fengið nægjanlegt framlag í fjárlögum íslenska ríkisins. Engu að síður hefur núverandi stjórn gætt þess að halda til hliðar litlum varasjóði til að geta mætt ákvæðum 21. greinar reglugerðar um ættleiðingarfélög og 19. grein samþykkta félagsins.”

Í erindinu segir jafnframt:
“Aðstæður ættleiðingarfélagsins eru nú þannig að ganga verður á þann litla varasjóð sem til er svo hægt sé að stuðla að því að að unnt verði að ljúka ættleiðingarmálum, sem eru til meðferðar á vegum félagsins. Þær ráðstafanir kunna að hafa í för með sér að þegar félagið verður lagt niður verða ekki öruggar rekstrarforsendur til að ljúka málum er kunna að vera til meðferðar á vegum félagsins á þeim tíma.”

 

Tilkynninguna til Innanríkisráðuneytisins má sækja í heild sinni á þessa sóð.


Svæði