Fréttir

Kolkata í mars 2005

Í mars fóru Lísa Yoder, formaður ÍÆ, og Guðrún til Kolkata til fundar við Anju, forstöðukonu barnaheimilisins sem ÍÆ hefur verið í samstarfi við síðan 1987.

Tímasetning réðist af því að lítil stúlka var tilbúin til heimferðar en foreldrar hennar treystu sér ekki til að sækja hana sjálfir og var hún því samferða Lísu og Guðrúnu heim til Íslands.

Helstu fréttir frá barnaheimilinu eru þær að stofnunin var að kaupa húsnæði sem skrifstofa þess flutti í nokkrum dögum áður en við Lísa komum út. Áætlað er að skrifstofan verði þarna til að byrja með en síðan gæti farið svo að barnaheimilið flytji þangað, því þetta húsnæði hentar ágætlega fyrir það. Sérinngangur er inn í gott anddyri og síðan er stigi upp á aðra hæð þar sem er stór móttaka, mjög stórt fundarherbergi og a.m.k. tvö minni herbergi, eldhús og þrjár snyrtingar. Mjóar svalir eru meðfram húshliðunum þar sem hægt er að þurrka þvott eða njóta andvarans og er þetta húsnæði mikið fínna en skrifstofan hefur áður verið í. Stutt er á milli skrifstofunnar og núverandi barnaheimilis sem flestir foreldrar hafa heimsótt síðustu árin og getur starfsfólk gengið á milli. Barnaheimilið er í leiguhúsnæði en hluti starfseminnar hefur verið á öðrum stað sem kjörforeldrar hafa ekki fengið að heimsækja en nú stendur til að selja það húsnæði enda óheppilegt að hafa starfsemi á þrem stöðum í borginni.

Á barnaheimilinu voru tæplega 20 börn í mars, nokkur fötluð börn sem fjölskyldur hafa ekki fundist fyrir, fáein sem biðu þess að verða sótt og svo nokkur lítil kríli sem voru nýkomin inn og þurfa að bíða í u.þ.b. 5-8 mánuði eftir að hægt verði að finna nýja fjölskyldu fyrir þau skv indverskum reglum. Íslensk fjölskylda bíður eftir að sækja eitt barn og styttist vonandi í það að litli drengurinn verði tilbúinn til heimferðar.

Einnig má geta þess að í mars rann starfsleyfi barnaheimilisins út og er nú beðið eftir endurnýjun. Síðast var leyfi gefið út til þriggja ára og reynslan sýnir að alltaf eru tafir við endurnýjun, ekki bara í Kolkata heldur alls staðar á Indlandi. Fyrst þurfa stjórnvöld svæðisins að kanna starfsemina, gera skýrslur og gefa grænt ljós og síðan eru miklir skjalabunkar, bókhald, skýrslur o.fl. sendir til Delhi, til CARA sem er miðstýringarskrifstofa fyrir allar ættleiðingar frá Indlandi. Enn er það stefna stjórnvalda að fækka ættleiðingum úr landi, því miður, en á indverskum barnaheimilum er mikill fjöldi barna sem þyrftu að eignast nýja fjölskyldu. Þetta er óskiljanlegt því þótt ættleiðingum innanlands hafi fjölgað eru hlutfallslega ekki margar indverskar fjölskyldur sem vilja ættleiða börn. Indverska ættleiðingarkerfið er mjög flókið og er fjallað um hverja umsókn á a.m.k. 3 skrifstofum áður en þær eru sendar til dómstóls sem úrskurðar og síðan þarf að fá vegabréf fyrir börnin áður en þau teljast ferðbúin. Allt er þetta tafsamt og erfitt og hefur versnað til muna á síðustu 10 árum.

Ennþá er stofnunin í samstarfi við ættleiðingarfélög í 3 löndum, þ.e. bandarískt félag sem er mjög duglegt að finna heimili fyrir veik og fötluð börn, sænskt félag og loks ÍÆ. Einstöku sinnum fara börn frá þessu heimili til annarra landa, sérstaklega ef þar eru umsækjendur af indverskum uppruna búsettir erlendis en þeir hafa forgang á aðra útlendinga. Indverjar eru þó númer eitt á forgangslista hjá CARA og fá alltaf afgreiðslu á undan útlendingum.

Ferðin var ánægjuleg, það er alltaf gaman að hitta Anju og sjá litlu angana á barnaheimilinu.
Margt hefur breyst í Kolkataborg frá fyrstu ferð minni þangað fyrir 17 árum, nú hefur tæknin aldeilis tekið yfir og eru tölvur á flestum skrifstofum, farsímar hringja á hverju strái og allt yfirbragð miklu alþjóðlegra en var. Fyrir 17 árum voru bílar fáir, nema afgamlir strætisvagnar, og voru allir af gamalli enskri gerð sem hvergi var framleidd lengur nema í Indlandi. Núna er bílaflotinn alþjóðlegur og nokkuð um stóra jeppa og önnur tæki sem eiga ekki erindi á göturnar þarna.
Við fórum í bátsferð á Ganges og sáum borgina frá nýjum vinkli og alltaf er gaman að ganga um Kolkata og skoða mannlífið. En þótt margt hafi breyst frá fyrstu heimsókn er fátæktin ennþá til og alltaf erfitt að sætta sig við hana.


Svæði