Fréttir

Kynning á rannsókn

Fyrirhuguð rannsókn á ættleiddum börnum á Íslandi og fjölskyldum þeirra

Á næstu mánuðum hyggjast tveir kennarar og rannsakendur við Kennaraháskóla Íslands, þau Baldur Kristjánsson dósent í uppeldis- og þroskasálfræði og Hanna Ragnarsdóttir lektor í mannfræði, fara af stað með rannsókn á ættleiddum börnum á Íslandi og fjölskyldum þeirra. Komutími helmings barnanna til landsins var árið 2002 og helmings á þessu ári.

Rannsóknin mun hefjast á næsta ári með því að viðtöl verða höfð við foreldra þessara barna, alls um 20 talsins.

Meðal þeirra spurninga sem við, Baldur og Hanna, hyggjumst leita svara við eru:

Hverjar eru væntingar og upplifanir kjörforeldra af börnunum sínum og af foreldrahlutverkinu, og hvernig breytast þær með tímanum og í ljósi fenginnar reynslu?

Hvernig er, að mati foreldranna, tekið á móti börnunum við komuna hingað - af heilsugæslunni, leikskólanum og skólanum, af öðrum stofnunum og einstaklingum?

Hvernig gengur, að mati foreldranna, aðlögun barnanna að jafnaldrahópnum, að staðfélaginu og að íslensku samfélagi?

Hvaða stoðnet hafa börnin og fjölskyldur þeirra, formlegt eða óformlegt?

Hvernig gengur fjölskyldunni sjálfri að aðlagast þeim breyttu aðstæðum sem felast í að nýr einstaklingur hefur bæst við fjölskylduna?

Um rannsakendurna
Baldur hélt erindi á 1. málþingi Íslenskrar ættleiðingar um geðtengslamyndun ungra barna, sem haldið var í apríl 2003.

Baldur er doktor í uppeldis- og þroskasálfræði. Rannsóknir hans hafa einkum beinst að ýmsu sem snýr að uppvaxtarskilyrðum barna í ljósi samfélagsþróunar og breyttra aðstæðna barnafjölskyldna á Íslandi og í Skandinavíu.

Baldur hefur kennt uppeldis- og þroskasálfræði við Kennaraháskóla Íslands frá 1999. Síðustu þrjú árin hefur hann haft yfirumsjón með sálfræðinámskeiðum á sviði yngri barna kennslu bæði í grunndeild og framhaldsdeild KHÍ.

Hanna er mannfræðingur að mennt (frá Háskóla Íslands og London School of Economics and Political Science). Sérstakt áhugasvið hennar er nám, kennsla og samskipti í fjölmenningarlegu samfélagi.

Hanna hefur kennt námskeið um fjölmenningarlegt samfélag og fjölmenningarlega kennslu, barn og fjölskyldu frá ýmsum sjónarhornum, íslenska félagssögu, grenndarkennslu og nýjar leiðir í kennslu á nýrri öld. Hún starfar bæði í grunndeild, þar sem hún kennir í námskeiðum á leikskóla-, grunnskóla- og tómstundabraut og í framhaldsdeild, þar sem hún er forstöðumaður námsbrautarinnar Fjölmenning og hefur umsjón með þremur námskeiðum á þeirri braut. Fyrri rannsóknir Hönnu beinast einkum að stöðu barna af erlendum uppruna í skólum á Íslandi og stöðu fjölskyldna þeirra.

Um rannsóknina
Faglegt og fræðilegt gildi rannsóknar sem þessarar felst m.a. í því að, ef frá eru taldar athuganir Gests Pálssonar barnalæknis, hefur staða kjörbarna og fjölskyldna þeirra hér á landi lítið sem ekkert verið rannsökuð. Vitað er að við komuna hingað geta börnin verið misjafnlega á sig komin, andlega og líkamlega; allt frá því að teljast vera fullkomlega heilbrigð til þess að eiga við langvinna sjúkdóma að stríða. Þó hefur, skv. Gesti Pálssyni orðið mikil breyting til hins betra síðari árin (Gestur Pálsson, á 1. málþingi Íslenskrar ættleiðingar í apríl 2003). Reynslan frá öðrum löndum sýnir að sum þessara barna eiga við mismiklar geðtengslaraskanir að stríða (sjá t.d. Chisholm, 1998), sem krefjast þekkingar og færni þeirra aðila, kennara og uppalenda, sem hafa með þau að gera. Af norrænum vettvangi má nefna rannsóknir Sætersdal & Dalen (1999) þar sem m.a. kemur fram að á unglingsárunum eiga mörg kjörbörn í erfiðleikum með sjálfsmynd sína og með að samsama sig við menningu þess lands sem þau alast upp í.

Af ofangreindu er ljóst að brýnt er, af fræðilegum, faglegum og lýðheilsufarslegum ástæðum, að afla þekkingar um kjörbörn á Íslandi, sem ætti að vera hægt að miðla til allra þeirra sem að börnunum standa.

Áætlað er að rannsóknin standi yfir í þrjú ár, hið minnsta. Rannsóknin felst fyrst og fremst í árlegum viðtölum við foreldra barnsins, við einn aðila í leikskóla þess, og í fyllingu tímans einnig við grunnskólakennara þess. Eins og áður er fram komið er áætlað að velja út foreldra og börn frá Asíu, samtals 20, sem dreifast þannig að 10 barnanna komu til landsins á þessu ári, 2004, og jafnmörg asísk börn frá 2002.

Hægt verður að fylgjast með ferli rannsóknarinnar á slóðinni
http://fagrad.khi.is/fjolmenning/rannsoknarhopur.htm.


Svæði