Fréttir

Meira fyrir minna

Gjald fyrir aðild að félaginu okkar hefur ekki hækkað í takt við almenna verðlagsþróun á undanförnum árum. Eins og meðfylgjandi auglýsing úr fréttariti ættleiðingarfélagsins frá 1997 ber með sér var félagsgjaldið þá fjögur þúsund krónur.

Frá 1997 hefur gjaldið fyrir félagsaðild hækkað um 36% en verðbólga hefur verið ríflega 100%. Hefði félagsgjaldið þróast á föstu verðlagi væri það núna um 8500 krónur en er einungis 5500 krónur.

Þrátt fyrir að félagsgjaldið sé nú svo lágt er það einn mikilvægasti tekjustofn félagsins og því er ánægjulegt að greina frá því að félagsmönnum hefur fjölgað nokkuð á undanförnum tveimur árum. En betur má ef duga skal. Verkefni félagsins eru fjölmörg og framlag ríkisins dugir ekki til að sinna vel þeim verkum sem stjórnvöld fela okkur.

Engu að síður eru engin áform um að hækka félagsgjaldið því aðalfundur hefur undanfarin ár komist að þeirri niðurstöðu að það skiptir máli að félagsgjald sé ekki hærra en svo að þeim sem ekki sækja lengur þjónustu félagsins vaxi ekki í augum að greiða það. Meira máli skiptir að félagaskrá vaxi og eflist og styrkur félagsins aukist í réttu hlutfalli við fjölgun félaga.


Svæði