Fréttir

Morgunblaðið - Opnir fyrirlestrar

AÐALFUNDUR Samtaka norrænu ættleiðingarfélaganna (NAC) hefst í dag í Reykjavík og stendur til laugardags. Þar verður m.a. kynnt ný íslensk rannsókn og í tengslum við fundinn verður opin dagskrá á morgun og laugardag fyrir fagfólk, kjörforeldra og aðra áhugasama um ættleiðingar þar sem boðið verður upp á fróðlega fyrirlestra, erindi og umræður.
  Aðalfundurinn, sem verður á Grand hóteli, er haldinn annað hvert ár og fer nú fram í annað skipti á Íslandi. Íslensk ættleiðing er gestgjafi að þessu sinni.

Ættleidd börn frá Kína
Fyrirlestrar á föstudaginn verða um mikilvægi stuðnings eftir ættleiðingu, danskt þróunarverkefni sem leitast við að veita ókeypis ráðgjöf og þjónustu til danskra kjörfjölskyldna, rannsóknarverkefni m.a. um líkamlegt og andlegt heilsufar allra erlendra kjörbarna í Finnlandi og síðast, en ekki síst, kynnir Jórunn Elídóttir, dósent við Háskólann á Akureyri, nýja íslenska rannsókn um börn ættleidd frá Kína.
  Á laugardaginn verður fjallað um ýmsa þætti sem þykja mikilvægir fyrir kjörforeldra, fyrir löggiltu ættleiðingafélögin og fyrir fagfólkið sem fylgir kjörforeldrum í ættleiðingarferlinu og góða starfshætti þeirra sem koma að ættleiðingarferlinu.
  Opnar umræður verða með fulltrúum norrænna stjórnvalda og fundargestum, m.a. um reglur um vistun ættleiðingarskjala, um samanburð milli norrænna undirbúningsnámskeiða, um samanburð milli lagaumhverfis ESB-ríkja og leiðbeiningar um löggildingu ættleiðingafélaga.

Morgunblaðið - Opnir fyrirlestrar


Svæði