Fréttir

RÚV - Samið um ættleiðingar frá Rússlandi

Yfir hundrað íslenskar fjölskyldur bíða eftir því að ættleiða börn frá útlöndum. Samningur um ættleiðingu milli Rússlands og Íslands er í burðarliðnum. Íslensk ættleiðing hefur stefnt að honum í tvö ár.

Elín Henrikssen, varaformaður íslenskrar ættleiðingar, segir að reynsla af ættleiðingum frá Rússlandi sé góð. Þaðan hafi komið nokkur börn undanfarin ár. 

„Það urðu ákveðin kaflaskil í þessu máli í nóvember á síðasta ári, en það er langt og strangt ferli að koma á formlegum samskiptum á milli landanna þannig að ættleiðingar geti hafist. Þá sannmæltust Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra og utanríkisráðherra Rússlands um að koma á þessu sambandi. Því var lofað úti í Moskvu og að hæfasta og besta fólkið yrði sett í málið þar og drifið í að koma þessum samningi á. jafnframt sett í gang ákveðin vinna hér heima.“

 Innanríkisráðuneytið  fer með þessi mál hér á landi. Elín segir að unnið sé að samningnum af Íslands hálfu, en að sama skapi sé að pressað á stjórnvöld í Rússlandi um að ljúka við samninginn og Rússar vilji standa  við gefin loforð.

„Við bindum því miklar vonir við að settur verði aukinn kraftur hér heima og þessu samkomulagi komið á sem fyrst, þannig að við getum farið að hefja ættleiðingar á milli þessara landa.“


Svæði