Fréttir

Sagan okkar. Eftir Stein Stefánsson og Selmu Hafsteinsdóttur

Fyrsta stund fjölskyldunnar saman
Fyrsta stund fjölskyldunnar saman

Við ákváðum þegar við vorum í námi úti í Bandaríkjum árið 2010 að eignast barn. Við reyndum hefbundu leiðina áður en við leituðum hjálpar Art Medica, það gekk ekki upp hjá okkur og eftir síðustu misheppnuðu meðferðina hjá Art ákváðum við skoða ættleiðingu. Við fórum á námskeiðið „Er ættleiðing fyrir mig?“ á vegum ÍÆ febrúar 2014.

Fyrir þá sem þekkja ekki ættleiðingarferlið, þá fylgir því mikil pappírsvinna og margar biðstöður og tekur umsóknarferlið sjálft alveg svakalegan tíma (aðallega vegna sýslumanns, hann tekur sinn tíma og er ekkert að flýta sér).  Við ákváðum að sækja um að ættleiða barn frá Tékklandi, en okkur leist best á það land sem er í boði hjá ÍÆ, aðallega vegna þess að þar er barn parað við foreldra og góður aðlögunartími fyrir barnið þegar búið er að para saman.

Umsóknarferlið (pappírsvinnan, sálfræðingamat, barnavernd, sýslumaður og allt heila klabbið) tók okkur 1 og ½ ár og síðan tók við bið, biðin langa. Biðin gat verið erfið, þar sem maður vissi aldrei hvenær símtalið örlagaríka um barn myndi koma. En við vorum frekar heppin og biðum „eingöngu“ í rúm 2 ár eftir því að fá símtalið örlagaríka. En þá hringir ÍÆ í þig og segir þér að pilla þér upp í Íslenska ættleiðingu og skoða gögn um barn sem þið hafið verið pöruð við.

Ég hafði sofið mjög illa nóttina áður og hafði ákveðið að sofa út þennan morgun og vinna frameftir í staðinn. Þegar síminn hringdi þá ákvað ég að svefn væri nú mikilvægari en að svara óþekktu númeri. Þá var reynt að hringja í Selmu og hún var upptekinn í vinnunni sinni og svaraði ekki símanum. Kristinn framkvæmdastjóri ÍÆ neitaði þó að gefast upp og fann símanúmerið hjá vinnunni hennar Selmu og hringdi þangað kl 9:15 (annasamasti tími á leikskólanum þar sem hún vinnur). Þar náði hann í hana og tilkynnti henni að hún ætti ekki von á að ættleiða gamalmenni, heldur væri búið að para okkur við barn (kvöldið fyrir símtalið góða hafði Selma verið bitur á facebook og var statusinn hjá henni sá að hún myndi aldrei fá barn....bara gamalmenni þar sem biðin væri orðin svo gasalega löng!).

Selma hringir í mig í algjörri geðshræringu og ekki man ég hvað hún sagði, það fór allt í móðu. Í áfalli mínu labbaði ég í endalausa hringi í 100fm íbúðinni okkar að leita að fötunum mínum. Á meðan Selma beið í vinnunni sinni „þolinmóð“ eftir mér, þá stóð hún ásamt öllu samstarfsfólki sínu í geðshræringar grát, hlátur gleðikasti.

Þegar við loksins komum niður á skrifstofu ÍÆ er tekið vel á móti okkur. Við setjumst inn í eitt herbergið og fáum skýrslur um barnið og lesum það vandlega í einrúmi. Í þessum skýrslum eru ítarlegar upplýsingar um barnið, heilsufar, áhugamál, þroska og getu. Það er mælt með því að lesa skýrsluna vel áður en sýnd er mynd af barninu, þar sem þetta er svo hádramatískt og allar tilfinningarnar á milljón þá er það eina vitið. Um leið og myndin kemur þá fer þetta að vera aðeins raunverulegra! Við ákváðum að bjóða okkar nánastu fjölskyldu í kampavín og skála um kvöldið og skoða myndir af syni okkar, myndir sem við gátum ekki hætt að stara á þar til við fengum hann í fangið.

Daginn eftir hringinguna vorum við á leið á árshátið hjá vinnunni hennar Selmu til Heidenberg í Þýskalandi, og þar sem það var hringt í vinnunna hennar Selmu, þá má heldur betur segja að við skemmtum okkur mjög vel í Þýskalandi í 4 daga. Þetta var í raun síðasta barnlausa „djammhelgin“ okkar, enda mikið sem við áttum eftir að gera áður en við færum út að sækja drenginn.

Við flugum út til Tékklands 4 vikum eftir símtalið sem var alveg mátulegur tími, hefðum ekki vilja bíða lengur, en ekki styttra þar sem við höfðum ekkert verið búin að undirbúa. Við þurftum tíma til þess að skipuleggja heimilið eins og að breyta skrifstofunni hans Steins í barnaherbergi, kaupa barnaföt, og pakka fyrir langa viðveru í Tékklandi.

Við vorum í rúmar 6 vikur úti. Gistum í tvær nætur í Brno, þar er farið á svokallaðan 0 fund. Þar hittir maður lögfræðing, sálfræðing og erum með túlk. Á þessum fundi er farið yfir allskonar praktísk mál og fengum við meiri upplýsingar um barnið. Strax eftir fundinn fórum við til Jihlava, það er lítill smábær þar sem barnaheimilið hans Martins er. Við vorum í viku í Jihlava, og fórum svo yfir til Brno þar sem við vorum í nær 4 vikur. Sú dvöl var svona lengi af því að maður þarf að bíða eftir því að það sé dæmt í málinu, um leið og það er gert, þá fær maður leyfi til að fara úr landi.

Fyrst klúðruðum við aðeins og héldum að Tékkland væri eins saklaust og litla Ísland og bókuðum við stóra og fína íbúð í röngu hverfi. Það var alls ekki ráðlagt að gista þarna og eftir smá google session, komumst við að þetta var brjálað ghetto! Þegar við komust að því þá var eina íbúðinn sem við fundum 30fm stúdioíbúð, og þar dvöldum við í rúmar 4 vikur. Við náðum að ýta öllum okkar þolmörkum út í hið ítrasta.  Við veltum oft fyrir okkur hvort þessi langi tími sem fólk er úti sé af hinu góða eða illa. Við allavega lítum svo á að hann hefði mátt vera mun styttri. Dómstólar úti taka sér hins vegar yfirleitt þennan tíma og ekkert sem hægt er að gera nema bíða.

Við komum heim korter í jól eða 17.des 2016. Ágætlega ruglað að koma heim beint í jólatraffikina, en við tókum þá ákvörðun að takmarka gestagang og heimsóknir til að byrja með. Fórum í eitt lítið jólaboð á aðfangadag en annars vorum við bara heima í rólegheitum.

Tíminn út í Tékklandi var virkilega lærdómsríkur. Mómentið þegar við hittum Martin í fyrsta skiptið er eitthvað sem ekki er hægt að lýsa í orðum. Þetta var einn brjálaður tilfinningarússíbani! Martin og Selma tengdust strax, eins og þau hefðu alltaf verið mæðgin! Það tók smá tíma fyrir Martin að taka mér. Fyrstu vikurnar þá mátti ég ekki gera neitt, nema vera þarna. Það var erfitt fyrir bæði mig að mega ekki gera neitt og Selmu, að þurfa að gera allt og geta ekki fengið smá pásu til að fara t.d. á klósettið án þess að vera í faðmlögum með Martin á meðan. Við tókum allt í hænuskrefum og hlustuðum á þarfir Martins. Að fara í göngutúr var t.d. ekki hægt að gera, nema taka 10 metra fyrir hádegi og kannski 20 metra eftir hádegi (barnið vildi bara láta halda á sér, annars tóku við öskur, grátur og dramaköst). Það er mikið áfall fyrir barn að vera ættleitt, að það sé tekið úr aðstæðum sem það þekkir, og umbreyta lífi barnsins svona svakalega. Þegar við lítum tilbaka þá er magnað að hugsa út í þennan tíma út í Tékklandi. Hvernig í fjáranum komumst við í gegnum þetta heil á geði, án þess að hafa nokkurt bakland með okkur úti! Þessi tími var alveg dásamlegur, fáránlega erfiður, dramatískur, lærdómsríkur, skemmtilegur og ekki gleyma allri tilfinningasúpunni sem þessu fylgir. Það sem vert er að minnast á er að maður þarf að læra að vera fjölskylda, læra á þetta nýja hlutverk. Það tekur smá tíma alveg eins og hjá fólki sem eignast barn á náttúrulegan hátt.

Núna er hálft ár liðið síðan við komum heim, við gætum ekki verið ánægðri hvernig gengur. Martin Már er búinn að aðlagast ótrúlega vel og toppaði 2 og hálfs árs skoðun hérna heima, þó svo að hann sé bara búinn að vera hérna á landi í 6 mánuði. Þá er hann alveg komin á sama stað og jafnaldrar sínir(er alveg á kúrfunni eins og hjúkrunarfræðingurinn sýndi okkur).


Svæði