Fréttir

Sameinaðir stöndum vér - Félagið stækkar

Undanfarið hefur félagsmönnum jafnt og þétt verið að fjölga og félagið að eflast. Um það eru mörg merki.

Félagsakráin stækkar en á undanförnum sex mánuðum hefur nokkur hópur nýrra félagsmanna skráð sig í félagið. Sem dæmi um hvað umsækjendum á fyrstu stigum ættleiðingarferilsins fjölgar má nefna að í mánuðinum fer fram námskeið fyrir verðandi kjörforeldra í annað sinn á árinu. En í fyrra og árið þar áður var einungis haldið eitt námskeið hvort ár.

Auðvitað er það stundum svo að félagar komast að þeirri niðurstöðu að hagsmunir þeirra og félagsins fara ekki lengur saman og þá kann að vera rökrétt niðurstaða að segja sig úr félaginu. Síðastliðið hálft ár hafa okkur einungis borist þrjár úrsagnir úr félaginu. Þar á meðal voru t.d. hjón sem verið höfðu á biðlista en þeim fæddist barn og þau sjá fram á að ekki komi til ættleiðingar.

Í mars voru sendar út innheimtutilkynningar í heimabanka vegna félagsgjalda 2009 og þremur vikum síðar höfðu 94% félagsmanna greitt félagsgjaldið. Þetta er einstaklega góð innheimta og á tímum fjármálahruns þegar margir hafa minna á milli handanna en áður er þetta sterkt merki um hug félagsmanna til félagsins.

Vinum félagsins á Facebook hefur fjölgað um eitt hundrað síðan í desember. Áhugi fólks á að gerast vinir Í.Æ. á Facebook er sjálfsprottinn því félagið gerir ekkert til að hvetja fólk sérstaklega í þá veru eða leggst í nein átök til að efla vinahópinn.

Aðalfundur félagsins í lok mars var sérlega fjölmennur. Það er ekki síst ánægjulegt í ljósi þess að ekki var efnt til neinna skemmtiatriða honum samfara og ekki var tekist hart á um nein mál á fundinum eða í aðdraganda hans og því enginn sem stóð að smölun á fundinn af neinu tagi.

Vinnuhópum, nefndum og verkefnum á vegum félagsins fer fjölgandi og við verðum vör við mikinn og vel þeginn áhuga fólks með ýmiskonar þekkingu og færni á að leggja félaginu lið með ýmsu móti. Nú eru starfandi umræðu- og verkefnahópar um öll löndin sem við ættleiðum frá auk fatsanefnda á vegum félagsins og hópa um önnur verkefni.

Skrifstofa félagsins er vel nýtt, mörg kvöld í viku funda þar einhverjir hópar á vegum félagsins. Stundum er fundað í öllum þremur rýmunum í einu, fundarsalnum, stofunni og skrifstofunni.

Allt þetta segir okkur að það er samhugur og framfaravilji í Íslenskri ættleiðingu og ekkert skortir á af hálfu félagsmanna að félagið nái markmiðum sínum. Sameinuð stöndum við vel að vígi.


Svæði