Fréttir

Stjórnarfundur 02.10.2008

 Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar 2. október 2008, kl. 20:00
7. fundur stjórnar eftir aðalfund í mars 2008
 
Mættir: Ingibjörg J., Ingibjörg B., Kristjana, Freyja og Arnþrúður, Guðrún framkvæmdastjóri sat fundinn.
 
Fundurinn hófst á því að fundarmenn samþykktu síðustu fundargerð án athugasemda. 
 
Kínverska sendinefndin
Kínverska sendinefndin hefur enn á ný boðað komu sína sem áætluð er mánudaginn 20. október til fimmtudagsins 23. október. Sendinefndin telur 4 aðila, bæði frá CCAA og BLAS en ekkert þeirra hefur komið áður til landsins. Sendinefndin vill funda með starfsfólki frá dómsmálaneytinu, sýslumanninum í Búðardal og stjórn ÍÆ. Þá vill hún hitta fjölskyldur barna sem ættleidd eru frá Kína og fá stuttar skoðunarferðir.  Ráðgert er að halda boð fyrir fjölskyldur barna, sem ættleidd eru frá Kína, þriðjudaginn21. október.
 
Bréf til fjárlaganefndar
Í september var bréf sent til fjárlaganefndar með beiðni um fjárframlag til ÍÆ fyrir næsta ár. Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár var lögð fyrir fundinn þar sem gert er ráð fyrir heldur hærra fjárframlagi og í fyrra. 
 
PAS nefnd
Fyrirlestur verður á vegum PAS nefndar 16. október. Í fyrirlestrinum verður fjallað um hreyfiþroska barna og þjálfun barna eftir dvöl á barnaheimilum.
 
Alþjóðleg ættleiðingarvika
Umræða um skipulagninu og undirbúning varðandi alþjóðlega ættleiðingarviku sem verður í 47. viku ársins.
 
NAC fundur
NAC fundur var haldinn 5. – 7. september í Stokkhólmi og sátu Ingibjörg J. og Guðrún framkvæmdarstjóri fundinn fyrir hönd ÍÆ. Á fundinum var mikið rætt um lengingu biðtíma, sem hefur átt sér stað í öllum ættleiðingarlöndunum sem öll aðildafélög NAC eru í samstarfi við. 
 
Tékkland
Ingibjörg J. og Guðrún framkvæmdastjóri sögðu frá ráðstefnu, sem haldin var í Tékklandi 24. september og fjallaði um ættleiðingar í Tékklandi. Meðal annars kom fram gott skipulag ættleiðingarmála í Tékklandi og standa þeir faglega að hlutunum. Þó kom skýrt fram að Tékkland verður aldrei „stórt“ ættleiðingarland.
 
Kólumbía
Undanfarið hefur skrifstofa ÍÆ verið í mikilli vinnu vegna pappírsmála fyrir þá umsækendur sem eiga umsókn í Kólumbíu og er sú vinna að beiðni ættleiðingaryfirvalda þar. Áfram er unnið í starfsleyfi ÍÆ í Kólumbíu og er sú vinna vel á veg komin. 
 
Indland
Barnaheimilið á Indlandi er komið með starfsleyfi og ættleiðingar aftur hafnar þaðan. Þar eru nú þrjú mál í gangi á vegum ÍÆ. 
 
Ný ættleiðingarsambönd
Nepal
Stjórnvöld í Nepal hafa ekki gefið út hvaða lönd, sem sótt hafa um, fá starfsleyfi í Nepal. ÍÆ sótti formlega um til stjórnvalda í Nepal í júní síðastliðnum og er nú beðið eftir svari um hvort starfsleyfi fæst. Ný lög um ættleiðingar og starfsemi barnaheimila hafa verið sett í Nepal eftir ættleiðingarstopp í u.þ.b. 18 mánuði. Þar er fjögurra ára hjónaband sett sem skilyrði.
Eþíópía
Eþíópía er lokuð fyrir ný ættleiðingarsambönd eins og er. Undirbúningsvinna af hálfu ÍÆ er langt komin og beðið er eftir því að þarlend stjórnvöld taki ákvörðun um nýja samstarfsaðila.
Suður-Afríka
Sama staða er í S-Afríku og í Eþíópíu, beðið er eftir að stjórnvöld þar taki við umsóknum um samstarf frá nýjum aðilum.
Makedónía
Engin breyting er á stöðu mála í Makedóníu. 
Rússland
Lagt var fram yfirlit yfir ýmsar tilraunir ÍÆ til að fá starfsleyfi rússneskra stjórnvalda.   Alltaf hefur strandað á þeirri kröfu rússneskra stjórnvalda að erlend félög reki skrifstofu með starfsfólki.  
 
Önnur mál
Börn með skilgreindar sérþarfir
Verið er að undirbúa fræðsluefni fyrir umsækendur sem hafa skráð sig á biðlista eftir barni með skilgreindar sérþarfir frá Kína. 
 
Fleira ekki rætt og fundi slitið.
 
Arnþrúður Karlsdóttir
Fundarritari

Svæði