Fréttir

Stjórnarfundur 19.11.2007

Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar 19. nóvember 2007, kl. 20:00
8. fundur stjórnar eftir aðalfund í mars 2007
 
Mættir: Ingibjörg J, Ingibjörg B, Helgi, Karl Steinar og Kristjana, Guðrún framkvæmdastjóri sat fundinn.
 
Afríka
Verið er að leyta eftir nýjum samstarfsaðilum í Afríku og búið að finna tengilið í Eþíópíu sem er tilbúinn að vinna með okkur þó svo formlegt samkomulag sé ekki komið. Næsta skref er að fá leyfi þarlendra stjórnvalda til að starfa í landinu og jafnframt að hafa samband við tengiliðinn og fá hjá honum leiðbeiningar um næstu skref í málinu.
 
Dómsmálaráðuneytið og fréttir af CARA fundi
Fulltrúar íslenskra stjórnvalda fóru í fyrsta sinn til ættleiðingarlands núna í haust og sendi dómsmálaráðuneytið fulltrúa sinn á fund hjá CARA. Í framhaldi af þeim fundi var tekin ákvörðun um það innan ráðuneytisins að bjóða hingað aðilum frá CARA og þá jafnvel í tengslum við NAC ráðstefnuna 2009.
 
Reglugerðarbreyting?
Lenging biðtíma eftir ættleiðingu veldur því að forsamþykki renna út áður en af ættleiðingunni verður. Eins árs framlenging forsamþykkis dugar ekki og er áhyggjuefni ef fólk þarf að fá nýtt forsamþykki eftir þriggja ára bið í stað þess að fá lengri framlengingu og hætta á að einhverjir detti þá út vegna aldurs. Tillaga okkar er sú að framlengt verði um tvö ár eftir þau tvö ár sem forsamþykkið gildir. Það ætti að duga eins og biðtíminn er núna.
 
Fjárhagsáætlun
Ráðuneytið vill meira eftirlit með þeim fjármunum sem við höfum fengið. ÍÆ er styrkt af ríkinu og er þjónustuaðili við það að einhverju leyti, en samt sem áður lítur dómsmálaráðuneytið á okkur sem hvert annað félag úti í bæ. Fjárhagur félagsins er mjög alvarlegur. Sú upphæð sem félagið fær af föstum fjárlögum er allt of lág. Umsóknum um ættleiðingar hefur fækkað, biðtíminn hefur lengst og kostnaður vegna námskeiða mikill, þó þau standi undir sér í dag. Ingibjörg formaður og Guðrún framkvæmdastjóri áttu góðan fund með Gunnari Svavarssyni, formanni fjárlaganefndar, þar sem fjárhagsstaða félagsins var rædd og hvaða leiðir eru færar.
 
Önnur mál
  1. Sakarvottorð
Í ráðuneytinu hafa menn áhyggjur af því að það komi til með að vekja einhverjar grunsemdir hjá stjórnvöldum í Kína ef reglum um sakarvottorð yrði breytt aftur eins og stjórn ÍÆ hefur farið fram á. Málið er enn á umræðustigi.
 
Fleira ekki rætt og fundi slitið.
 
Kristjana Erlen Jóhannsdóttir
fundarritari

Svæði