Fréttir

Stjórnarfundur 25.10.2007

Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar 25. október 2007, kl. 20:00
7. fundur stjórnar eftir aðalfund í mars 2007
 
Mættir: Ingibjörg J, Ingibjörg B, Pálmi, Kristjana, Helgi og Arnþrúður, Guðrún framkvæmdastjóri sat fundinn.
 
Afmæli félagsins
Auglýst var eftir fólki í afmælisnefndina og talað við nokkra aðila. Búið er að fá einn aðila í nefndina en aðrir hafa ekki boðið sig fram. Ákveðið að Kristjana, Ingibjörg J, og Ingibjörg B taki málið að sér fyrir hönd stjórnar og fái með sér fólk úr nefndunum. Stjórnin mun ákveða þema og uppbyggingu afmælishátíðarinnar. Afmælishátíðin verður í febrúar 2008.
 
Ritnefndin sendi beiðni til stjórnar þess efnis hvort kaupa mætti þjónustu af fyrirtæki til að safna auglýsingum í afmælisblaðið sem á að standa undir sér. Stjórnin samþykkti þessa beiðni ritnefndar.
 
Indlandsferð
Ingibjörg J. og Guðrún fóru á ráðstefnu um ættleiðingar á Indlandi og voru þær mjög ánægðar með ferðina og gekk hún vel. 
 
Þær heimsóttu íslenska sendiráðið og var vel tekið á móti þeim þar. Óskað var eftir að ÍÆ léti sendiráðið vita af Íslendingum á vegum þess á ferð í Indlandi og einnig ef það veit af ferðum eldri ættleiddra frá Indlandi. Á næsta ári stendur til að sendiráðið gefi út vegabréfsáritanir fyrir börnin sem verða ættleidd frá Indlandi í framtíðinni. Þetta er sama þjónusta og var nýlega tekin upp í íslenska sendiráðinu í Kína.
 
Ingibjörg og Guðrún fengu fund með háttsettum aðilum í CARA þar sem rætt var um endurnýjun á starfsleyfi ÍÆ á Indlandi og þær tafir sem hafa orðið á endurnýjun þess. Þá kom í ljós að af einhverjum  óþekktum orsökum höfðu ekki öll nauðsynleg gögn skilað sér til CARA varðandi leyfið. Þær voru með skjöl varðandi leyfið með sér og voru þau afhent á staðnum en enn vantar eitthvað af skjölum sem send verða við fyrsta tækifæri. Rætt var um að ÍÆ hefur þurft að senda gögn til CARA í gegnum sendiráð Indlands í Noregi og þar með er erfitt að fylgja gögnunum eftir. Fram kom að dómsmálaráðuneytið má senda gögnin beint til CARA. 
CARA óskar eftir því að þeir foreldrar sem þegar hafa ættleitt frá Indlandi sendi „follow up“ skýrslur og standi við skuldbindingar sínar varðandi ættleiðinguna. Um er að ræða alls 14 skýrslur fyrir hvert ættleitt barn. Sent verður ákveðið bréf til foreldra indverskra barna og þeir beðnir um að standa skil á þessum skýrslum sem fyrst.
 
Farið var í heimsókn á barnaheimilið sem ÍÆ er í samstarfi við í Kolkata og rætt við Anju sem rekur heimilið. Um er að ræða tvö heimili en um 40 börn eru á barnaheimilinu núna.
 
Önnur mál
  1. Vefsíðan. Ritstjórn vefsíðunnar hittist á fundi og setti niður punkta um það sem betur má fara bæði hvað varðar efni og útlit. Ritstjórnin ætlar að hitta vefarann og fara yfir hugmyndir varðandi breytingar á útliti og aðgangsstýringu að spjallinu.
  2. Fyrirlestur Nadya Molina. PAS nefndin stóð fyrir þessum fyrirlestri fyrir foreldra en Nadya Molina er bandarískur sérkennslu- og atferlissérfræðingur sem hefur langa reynslu af því að aðstoða kjörfjölskyldur og börn þeirra. Fyrirlesturinn heppnaðist vel og var ágætlega sóttur og á PAS nefndin þakkir skildar.
 
Fleira ekki rætt og fundi slitið.
 
Arnþrúður Karlsdóttir
Fundarritari

Svæði