Fréttir

Stjórnarfundur 26.06.2008

Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar 26. júní 2008, kl. 18:00
6. fundur stjórnar eftir aðalfund í mars 2008
 
Mættir: Ingibjörg J, Ingibjörg B. Helgi, Freyja, Kristjana og Arnþrúður, Guðrún framkvæmdastjóri sat fundinn.
 
Fundurinn hófst á því að fundarmenn samþykktur síðustu fundargerð án athugasemda. 
 
Aldur umsækenda
Nokkrir þeirra sem þurfa endurútgáfu forsamþykkis vegna lengri biðtíma eru komnir yfir aldursviðmið dómsmálaráðuneytisins. Samþykkt að senda bréf til dómsmálaráðneytisins þar sem lýst er yfir áhyggjum yfir því að fólk sem þegar er komið með forsamþykki geti verið komið yfir aldursviðmiðin við endurútgáfu á forsamþykki.
 
Tafir í Reykjavík
Breytingar í Reykjavík á meðhöndlun úttektar félagsráðgjafa hefur orðið til þess að tafir hafa orðið á afgreiðslu þessara mála og biðtíminn er orðinn meiri en 3 mánuðir. Samþykkt að senda bréf til Barnaverndar Reykjavíkur eftir sumarleyfi þar sem lýst er yfir áhyggjum vegna þessa. 
 
Fundur með sýslumanni í Búðardal
Guðrún sagði frá fundi með Áslaugu sýslumanni í Búðardal.   
 
Börn með skilgreindar sérþarfir
Búið er að finna fjölskyldur fyrir fimm börn á sérþarfalista CCAA. Ferlið hjá ÍÆ er þannig að það þarf að skrá sig á hliðarlista fyrir ættleiðingu barna með skilgreindar sérþarfir hjá ÍÆ og fá sérstakt samþykki barnaverndarnefndar og sýslumanns í Búðardal. Sex börn eru þegar komin heim, tvö koma heim í næsta mánuði og fimm umsóknir eru núna í vinnslu hjá CCAA. Mjög fáir eru núna skráðir á þennan hliðarlista. Ákveðið að uppfæra upplýsingar um sérþarfalista CCAA á vefsíðunni og senda tölvupóst til umsækenda sem eru á biðlista.        
 
Kólumbía
Guðrún hefur ásamt Áslaugu sýslumanni í Búðardal og lögfræðingi dómsmálaráðuneytis unnið að því að svara spurningum ICBF í Kólumbíu varðandi umsækjendur og ýmis atriði varðandi ferli og hlutverk aðila á Íslandi. Einnig þarf að fá nýtt starfsleyfi fyrir ÍÆ í samráði unnið af því að fá starfsleyfi fyrir ÍÆ og hefur verið í sambandi við Olgu lögfræðing ÍÆ í Kólumbíu. Ferð fulltrúa ÍÆ til Kólumbíu er fyrirhuguð.
 
Indland
Anju er ekki enn komin með starfsleyfið en hún á von á því á næstu vikum.      
 
Formannafundur
Formannafundur norrænu ættleiðingarfélaganna verður í Stokkhólmi 5.- 6. september. Samhliða þessum fundi verður stjórnarfundur NAC. Gert er ráð fyrir að Ingibjörg J. og Guðrún framkvæmdastjóri sæki þessa fundi.       
 
Fundur í Tékklandi
Stjórnvaldaskrifstofa ættleiðingarmála í Tékklandi heldur fund um ættleiðingarmál 24. september. Gert er ráð fyrir að tveir fulltrúar frá ÍÆ sæki fundinn. ÍÆ mun verða með innlegg á þessum fundi þar sem undirbúningsnámskeiðin sem haldin eru fyrir þá sem sækja um ættleiðingu í fyrsta sinn verða kynnt.  
 
Önnur mál
Aðalfundur NAC verður haldinn á Íslandi 3. - 6. september 2009. Stjórnin mun vinna að skipulagninu fundarins, Ingibjörg B. Sem er fulltrúi ÍÆ í NAC verður í forsvari fyrir skipulagningu fundarins. Auk fundarins verður opinn dagur með fyrirlestrum og öðru fyrir fagfólk og foreldra.
Norræn ættleiðngarvika verður í 47. viku ársins. Gert er ráð fyrir að halda áfram með afmælisveislu ÍÆ í þeirri viku og vera með ýmislegt fróðlegt á dagskrá. 
 
Fleira ekki rætt og fundi slitið.
 
Arnþrúður Karlsdóttir
Fundarritari

Svæði