Fréttir

Stjórnarfundur 31.05.2007

Fundur í stjórn Íslenskrar ættleiðingar 31. maí 2007, kl. 20:00
3. fundur stjórnar eftir aðalfund í mars 2007
 
Mættir: Ingibjörg J., Ingibjörg B., Karl Steinar, Kristjana, Pálmi, Helgi og Arnþrúður. Guðrún framkvæmdastjóri sat fundinn
 
Starf félagsráðgjafa hjá ÍÆ
Vegna fjárhagsstöðu félagsins reyndist nauðsynlegt að segja upp félagsráðgjafa sem verið hefur í 50% stöðu hjá félaginu. Guðlaug félagsráðgjafi ÍÆ óskaði eftir að hætta um mánaðarmótin maí/júní. Síðasti starfsdagur hennar var í dag og kom hún á fundinn til að segja frá því hvernig hún sér félagsráðgjafa nýtast félaginu.
 
Guðlaug var með stuðninghóp fyrir fólk á biðlista og voru 5 pör í þeim hjópi. Þessi hópur hittist reglulega 6 sinnum og leiddi Guðlaug umræðu hópsins. Í síðasta tímanum var lögð könnun fyrir hópinn og skilaði Guðlaug skýrslu til stjórnar með niðurstöðum þessarar könnunar. Miklar umræður voru um kosti og galla slíks umræðuhóps. Guðlaug telur að umræðuhópar séu gagnlegir og auðveldi félagsmönnum biðina eftir barni sem stöðugt er að lengjast.
 
Guðlaug lagði síðan fram ítarlega skýrslu um störf félagsráðgjafa hjá ÍÆ. Þar kom fram meðal annars að þau verkefni sem Guðlaug hefur unnið fyrir félagið eru tölfræði yfir umsækjendur árið 2006, 20 viðtöl á skrifstofu við félagsmenn, að meðaltali 1 viðtal á viku, stuðningshópur fyrir fólk á biðlista, eftirfylgniskýrsla fyrir Tékkland, kynning fyrir nema í menntaskóla, stuttar þýðingar á greinum í blaði félagsins, einnig nokkrar þýðingar á greinum á skandinaviskum málum og að sitja námstefnu dómsmálaráðuneytisins. Guðlaugu finnst nauðsynlegt að starfsmenn skrifstofu ÍÆ fái að lesa fundargerðir stjórnarfunda áður en þær eru birtar á netinu. Þá kemur fram í skýrslunni ýmislegt sem Guðlaugu finnst mega betur fara í starfsemi skrifstofunnar og félagsins. Meðal annars hefði þurft að vera meira og betra samband milli stjórnar og félagsráðgjafa. Hún telur að það skipti miklu máli fyrir starfsemi félagsins er að telja viðtöl og komur á skrifstofuna til að gera alla þessa vinnu sem unnin er á skrifstofunni sýnilegri.
 
Guðlaug var síðan kvödd með þökkum fyrir góð störf fyrir félagið og henni óskað góðs gengis á nýjum starfsvettvangi.
 
Styrktarbeiðni til dómsmálaráðuneytisins (framsetning)
Hingað til hefur styrktarbeiðni til dómsmálaráðuneytisins verið miðuð við rekstur félagsins og spurning er hvort ástæða er til að setja styrktarbeiðnina upp á annan hátt og miða við hvaða skilyrði ÍÆ þarf að uppfylla samkvæmt Haague sáttmálanum um ættleiðingar. Þar á meðal er fræðsla og undirbúningur foreldra þ.e. Post Adoption Service, starfsemi skrifstofu og geymsla gagna. Nokkur umræða um geymslu á gögnum varðandi ættleiðingar. Sum gögnin eru geymd á skrifstofu ÍÆ en önnur eru geymd í dómsmálaráðuneytinu. Nauðsynlegt er að fá á hreint hve lengi má geyma gögn sem eru persónugreinanaleg samkvæmt Persónuvernd. Þá er nauðsynlegt að gera ráð fyrir aukinni fjárþörf vegna stofnunar nýrra sambanda við ættleiðingarlönd. Óskað verður eftir fundi með Hauki Guðmundssyni skrifstofustjóra dómsmálaráðuneytisins vegna styrktarbeiðninnar.
 
Eþíópía
Guðrún hefur verið í tölvusamskiptum við tengilið í Eþíópíu sem er tilbúinn að vinna fyrir ÍÆ í ættleiðingarmálum. Ketil Leland mælti með þessum tengilið við ÍÆ. Spurning hvort hægt er að komast í samstarf um rekstur á barnaheimili við DanAdopt. Guðrún tekur að sér að vera í áframhaldandi samskiptum við tengiliðinn og einnig að setja sig í samband við DanAdopt. Löng hefð er fyrir ættleiðingum í Eþíópíu og hafa t.d. Norðurlöndin öll, Þýskaland og Ítalía ættleitt þaðan. Sækja þarf um leyfi frá dómsmálaráðuneytinu og einnig verður haft samband við Sigríði Dúnu sendiherra með ósk um aðstoð við að koma á samskiptum vegna ættleiðinga í Afríku.
 
Fjárhagsstaða félagsins
Ný fjárhagsáætlun lögð fram og lítur hún betur út núna eftir ýmsar breytingar sem gerðar hafa verið varðandi reksturinn. Útlit er fyrir ríflega 1300 þúsund króna halla á rekstrinum fyrir 2007. Hugmynd kom upp um að stofna “Hollvinasamtök ÍÆ” til að gefa fólki tækifæri til að styrkja rekstur félagsins meðal annars í tilefni af afmæli félagsins á næsta ári. Pálmi ætlar að útfæra þessa hugmynd betur.
 
Laun leiðbeinanda og kostnaður við námskeið
Laun leiðbeinenda á námskeiði rædd og tekin ákvörðun um að þau verði verktakagreiðslur með þeim gjöldum sem þeim fylgja.
 
Önnur mál
  1. Ítarlegu sakavottorð. Umræða um ítarlegu sakarvottorðin en þau eru send til sveitarfélaganna og einnig með umsókninni til Kína. Stjórn ÍÆ vill að dómsmálaráðuneytið skoði þessi vottorð en að þau verði ekki send út úr ráðuneytinu. Venjulegu sakavottorðin eiga að fara til sveitarfélaganna og til erlendra ættleiðingaryfirvalda. Þetta þarf að ræða á fundinum með dómsmálaráðuneytinu.
  2. Fundur með einhleypum umsækjendum. Stjórn ÍÆ bauð einhleypum umsækjendum á fund vegna breyttra reglna varðandi umsóknir til Kína sem útiloka nánast ættleiðingar einhleypra. Aðeins fjórar einhleypar konur mættu á fundinn sem tókst mjög vel og spunnust fjörugar umræður um möguleika á ættleiðingum einhleyra í framtíðinni. Rætt um möguleika einhleypra á að sækja fræðslunámskeið hjá ÍÆ sem er forsenda fyrir forsamþykki. 
  3. Ritnefnd tímarits og ritstjórn vefsins. Fyrir stjórnarfundinn var haldinn fundur ritnefndar tímarits ÍÆ og ritstjórnar www.isadopt.is. Sett voru skil á milli þess efnis sem verður á vefnum og þess sem haft verður í tímaritinu. Tímaritið verður með vönduðum greinum og viðtölum á meðan á vefnum verður meiri lifandi fréttaflutningur af ættleiðingarmálum og félagsstarfinu. Þórdís Ívarsdóttir var tilnefnd ritstjóri ritnefndar og tengiliður stjórnar verður Kristjana.
  4. Sendiherra Íslands í Kína. Sendiherra Íslands í Kína er á leiðinni til Íslands og vill hitta fulltrúa stjórnar ÍÆ á fundi.
  5. Starfsemi skrifstofu í sumar. Óljóst er með opnunartíma skrifstofunnar í sumar. Gert er ráð fyrir vinnu vegna ættleiðinga þar sem líklegast er von á börnum heim í sumar.
  6. Heimsóknir til ættleiðingarlandanna. Nauðsynlegt er að fara til ættleiðingarlandanna til að styrkja samönd félagsins. Þar sem fjárhagur félagsins leyfir ekki mikið af ferðalögum er nauðsynlegt að forgangsraða heimsóknunum. Indland er efst á blaði þar sem samband við Indland hefur dofnað mjög síðustu ár og áríðandi er að það samband sé styrkt. Þá er áríðandi að heimsækja Eþíópíu til að reyna að koma á sambandi þar. Önnur lönd bíða þar til seinna.
 
Fleira ekki rætt og fundi slitið.
 
Arnþrúður Karlsdóttir
Fundarritari

Svæði