Fréttir

Tugir barna til Evrópu á ári

Nordicphotos/AFP
Nordicphotos/AFP

INNLENT

KL 04:00, 04. FEBRÚAR 2010
 

Íslensk stjórnvöld hafa gert samstarfssamning um ættleiðingar frá Filippseyjum til Íslands. Félagið Íslensk ættleiðing hefur fengið löggildingu til að hafa milligöngu um ættleiðingarnar, segir Hörður Svavarsson, formaður félagsins.


„Landið er ekki mjög stórt ættleiðingarland, en það væri líka rangt að segja að ættleiðingar þaðan séu fátíðar," segir Hörður.

Nokkrir tugir barna frá Filipps­eyjum hafa verið ættleidd í Evrópu á ári hverju undanfarið. Skilyrði um lágmarksaldur eru heldur rýmri þar í landi en annars staðar, og þurfa væntanlegir kjörforeldrar að vera 27 ára eða eldri. Biðtími eftir barni er svipaður og hjá öðrum samstarfslöndum Íslenskrar ættleiðingar, um þrjú ár. 

Íslensk ættleiðing er með löggildingu til ættleiðingar barna frá Kína, Kólumbíu, Indlandi, Tékklandi, Makedóníu og Nepal. Félagið taldi sig vera með sams konar löggildingu vegna Taílands, en í ljós hefur komið að íslensk stjórnvöld þurfa að gera nýjan samstarfssamning við taílensk stjórnvöld til þess að hægt sé að ættleiða börn þaðan til Íslands, að því er fram kemur á vef félagsins.

Um 100 íslensk pör og um þrjátíu einstæðar konur bíða þess nú að geta ættleitt börn. Ættleiðingar innanlands eru afar fátíðar, og þurfa væntanlegir kjörforeldrar því að leita út fyrir landsteinana. - bj

http://www.visir.is/tugir-barna-til-evropu-a-ari/article/2010759755385


Svæði