Fréttir

Um vinnureglu...

...um að ekki megi óska eftir annarri ættleiðingu fyrr en ár er liðið frá því foreldrar koma heim með fyrra barn

Eins og getið var um í Fréttariti félagins frá 3. nóvember var vinnuregla um að ekki megi óska eftir annarri ættleiðingu fyrr en ár er liðið frá því foreldrar koma heim með fyrra barn, aflögð um sinn af hálfu félagsins frá og með 7. nóvember. Ekki er þó útséð um að sögu þessarar vinnureglu sé lokið.

Í aukaútgáfu Fréttaritsins frá 16. nóvember er m.a. sagt frá fundi fulltrúa Í.Æ, ráðherra og fleiri aðila. Á fundinum kom ofangreint vinnulag til umræðu og er sagt frá því í Fréttaritinu með eftirfarandi hætti.

“Einnig kom til umræðu á fundinum að fulltrúar í ráðuneytinu eru ánægðir með þá vinnureglu sem Í.Æ. hefur nú hætt að starfa eftir og snýst um að ekki megi leggja fram nýja umsókn fyrr en ár er liðið frá fyrri ættleiðingu. Af hálfu ráðuneytisins verður það ef til vill skoðað hvernig rökstyðja megi þetta vinnulag og hvort lagalegar forsendur séu til að formgera það í reglugerð.”

Á stjórnarfundi Íslenskrar ættleiðingar þann 18. nóvember var málefnið aftur til umræðu og um það var þá bókað:

“Umræður um viðbrögð fulltrúa í Dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu við ákvörðun stjórnar Í.Æ. sem bókuð var undir 2. lið fundargerðar frá 13. fundi stjórnarinnar þann 14. október 2009. Ákveðið að formaður taki saman efni umræðunnar og sendi ráðherra þá samantekt þegar í stað.”

Bréfið sem formanni var falið að senda ráðherra fór til Rögnu Árnadóttur Dómsmála- og mannréttindaráðherra þann 18. nóvember og það má lesa í heild sinni á þeim hluta vefjarins sem er læstur öðrum en félagsmönnum. Vinsamleg viðbrögð ráðherrans þess efnis að álitaefni bréfsins verði athuguð og lagaskrifstofa skoði lagaskilyrðin bárust degi síðar.


Svæði