Fréttir

Útilega ÍÆ 7. - 9. júlí 2006

Vegna ófyrirséðra aðstæðna verðum við að flytja útileguna okkar þetta árið og verður hún að Reykhólum í Austur-Barðastrandarsýslu. Þar verðum við með Reykhólaskóla á okkar vegum. Við komum til með að tjalda við skólann og í honum höfum við aðgang að uppþvottaaðstöðu og snyrtingum og getum borðað þar inni ef við viljum. Eins er í skólanum salur með litlu sviði og þar getum við verið ef illa viðrar. Þátttökugjald verður það sama og í fyrra eða 1500 kr. fyrir fullorðna og frítt fyrir börn. Innifalið í því er öll aðstaða í skólanum (innigisting greiðist sér) og dagskrá helgarinnar, það greiða allir sama verð hvort sem þeir verða yfir nótt eða ekki.

Undir liðnum Myndir er hægt að skoða mynd af leiðinni.

Í skólanum er heimavist með 10 tveggjamanna herbergjum (hægt er að fá aukadýnu á gólf fyrir krakkana) sem við munum leigja út og kostar hvert herbergi 3000 kr fyrir helgina. Eingöngu er um svefnpokapláss að ræða. Eins eru kennslustofur sem við höfum aðgang að og möguleiki á að vera þar í flatsæng á gólfi og kostar það 500 kr. fyrir fullorðna, það er góður valkostur fyrir stórar fjölskyldur eða hópa sem vilja gjarnan vera saman.
Við í skemmtinefndinni munum sjá um pantanir í gistingu bæði í herbergin og í skólastofurnar og er þeim sem áhuga hafa bent á að hafa samband við Klöru í símum 581-1315 og 864-5340 eða senda henni fyrirspurn á póstfangið barn@strik.is.

Á Reykhólum er sundlaugin Grettislaug, sem er opin alla daga 10:00 - 22:00. ‘I Grettislaug kostar 250 kr. fyrir fullorðna og 125 kr. fyrir börn.

Til að glöggva sig betur á fjarlægðum er gott að vita að frá Akureyri eru um 340 km í Reykhóla og frá Reykjavík eru um 200 km.

Dagskráin verður með svipuð sniði og undanfarin ár, ratleikur, hoppukastali og nammikallinn verður örugglega á sínum stað, og í ár stefnum við á að hafa smádansiball á laugardagskvöldinu fyrir alla fjölskylduna svo að eitthvað sé nefnt.

 

Svæði