Fréttir

Bæjarins besta - Varð þriggja barna móðir á einni nóttu

Unnur Björk Arnfjörð og eiginmaður hennar hafa staðið í ströngu undanfarið ár, og er óhætt að segja að lífi þeirra líkt og þau áður þekktu hafi verið kollvarpað á síðasta ári, er loks komst í gegn ættleiðing þeirra hjóna og ekki bara á einu barni, sem oftar en ekki er vaninn, heldur á þremur bræðrum frá Tékklandi. Það er ekki auðvelt að ímynda sér breytinguna sem varð á lífi þeirra, sem fór úr því að vera barnlaus hjón í lítilli íbúð í Reykjavík, yfir í að vera fimm manna fjölskylda í stóru húsi á Ísafirði. Eiginmaður Unnar Bjarkar er Páll Kristbjörn Sæmundsson og hafa þau komið sér afar vel fyrir í fallegu, háreistu húsi í Mánagötunni, þar sem synirnir þrír: Sæmundur Petr, sem er nýorðinn sex ára, Einar Jón Pavel sem verður fimm ára í október og Jóhann Elí Jaroslav, þriggja ára lifa líkt og blómi í eggi. Drengirnir þrír eru hinir mestu fjörkálfar og sjaldan nein lognmolla á heimilinu. Nú  er ár liðið frá því að fjölskyldan sameinaðist og hafa drengirnir aðlagast vel hinum nýju heimkynnum og fjölskyldan orðin vel samstillt. Þegar fjölskyldan sameinaðist höfðu þeir allir fengið sín tékknesku nöfn en ákváðu foreldrarnir að gefa þeim íslensk nöfn og skíra þá í höfuðið á fjölskyldumeðlimum, ásamt því að halda tékknesku nöfnunum.

Uppruninn
Unnur Björk er uppalin á bænum Sólheimahjáleigu í Mýrdal, af afa sínum og ömmu sem gengu henni í foreldra stað sem ungabarni. Það var því ekki erfið ákvörðun fyrir hana að ákveða að ættleiða. Sautján ára gömul flytur hún til höfuðborgarinnar, þar sem hún hóf nám við Menntaskólann í Hamrahlíð og hefur hún að mestu verið búsett í Reykjavík síðan, með viðkomu hér og þar í heiminum. Hún bjó í Englandi á unglingsárunum þar sem hún vann á hóteli um hríð og fljótlega eftir tvítugt réði hún sig sem Aupair til Detriot í Bandaríkjunum, sem hún segir hafa verið frábæra lífsreynslu. Mælir hún hiklaust með dvöl erlendis við ungt fólk sem er að læra á lífið og tilveruna. Síðar á lífsleiðinni eftir að Palli kom til sögunnar, dvöldu þau eitt ár í Rotterdam í Hollandi, er hann stundaði þar skiptinám er hann nam viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík. Unnur Björk og Palli kynnast fyrir 16 árum er hún starfaði sem leiðbeinandi í gamla grunnskólanum sínum í Vík. Um vorið hafi hún ákveðið að fara í Kennaraháskólann og læra grunnskólakennarafræði því í huga unga parsins hafi verið viss rómantík yfir því að flytja síðan í lítið þorp á Vestfjörðum, hún sem kennari og hann sem vélstjóri. En svo tók lífið við með öllum sínum kostum og kynjum. „Þegar barneignir létu bíða eftir sér, þá tókum við meðvitaða ákvörðun um að halda áfram að lifa lífinu og njóta þess sem best í staðinn fyrir að vera föst í að velta okkur upp úr þessum málum og láta allt okkar líf stjórnast af því sem gæti mögulega gerst.“ Unnur Björk segist búa vel að því í dag að hafa fengið að njóta þess að mennta sig og búa víða um heim og gera í raun allt sem hana lysti áður en börnin komu til sögunnar. Hún geti því vel hvílt í móðurhlutverkinu núna og geti svo auðveldlega varið tímanum í umönnun sonanna. Unnur Björk er grunnskólakennari að mennt og hefur unnið að mestu leyti með börnum og unglingum síðastliðin 15 ár. Hún er jafnframt með BA gráðu í tómstunda- og félagsmálafræði og meistaragráðu í lýðheilsufræðum frá Háskóla Íslands. Hún hefur brennandi áhuga á heilsu og öllu því sem viðkemur hreyfingu og næringu og haustið 2014 hóf hún doktorsnám í íþrótta og heilsuræði. Rannsóknarsvið hennar liggur að mestu í viðhorfum til næringar og heilsu og tók hún þátt í tveimur rannsóknum í tengslum við doktorsnámið. Önnur rannsóknin er samnorræn rannsókn á skólamáltíðum – ProMeal og var markmið hennar að skoða stöðu á skólamáltíðum á Íslandi, í Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Enn er verið að vinna úr gögnum þeirrar rannsóknar en Unnur Björk er meðhöfundur að grein sem birtist bráðlega í erlendu fagtímariti. Hin rannsóknin lýtur að heilsu og líðan framhaldsskólanema og lauk gagnasöfnun hennar rétt áður en Unnur Björk flutti til Ísafjarðar í fyrravor.

„Allt lífið breyst á einu og hálfu ári.“
Í nóvember 2014 var Páll ráðinn sem yfirmaður launadeildar hjá Ísafjarðarbæ og flytur hann vestur, en Unnur Björk varð eftir í Reykjavík til að byrja með. „Þegar Palli kom hingað þá vissum við ekki að strákarnir væru væntanlegir. Við vorum bara á biðlistanum sem gat tekið langan tíma. Reyndar hafði verið hringt í okkur mánuði fyrr og við spurð hvort við værum til í að íhuga þann möguleika að taka að okkur þrjú börn. Við vorum alveg til í það enda höfum við sótt um systkini. Hins vegar höfðu aldrei þrjú börn komið í einu svo við töldum ekkert endilega mikla möguleika á því. Okkur fannst strax mjög fýsilegur kostur að koma hingað og ala upp börnin okkar hér. Ég er sjálf alin upp úti á landi og fannst það ekki spennandi tilhugsun að ala upp börn í Reykjavík. Frelsið er einfaldlega meira á landsbyggðinni, styttra á milli staða og síðan er meiri samheldni á minni stöðum. Svo sáum við þetta hús á sölu og okkur leist strax vel á það, enda ekkert sérlega gott ástand á leigumarkaðnum hér, sér í lagi ef maður er ekki vel tengdur inn á svæðið. Við fundum ekkert leiguhúsnæði sem hentaði okkur í það minnsta. Hlutirnir voru fljótir að gerast og milli jóla og nýárs vorum við búin að gera kauptilboð með von um að við myndum selja okkar íbúð í Reykjavík. Það gerist á sólarhring, enda var vitleysan þar að byrja aftur á þeim tíma, þannig að allt gerðist ofur-hratt. Ég og búslóðin okkar vorum síðan komin hingað um miðjan mars.“ Þegar þau Unnur Björk og Palli fjárfestu í fallega húsinu í Mánagötunni vissu þau ekki að innan skamms tíma myndu þau vera orðin fimm manna fjölskylda. Símtalið um það barst þeim frá Íslenskri ættleiðingu 21. febrúar, svo þegar að Unnur Björk flytur á Ísafjörð vissi hún að bráðum myndi líf þeirra taka stakkaskiptum. „Við fengum húsið afhent 29. Mars og 18. apríl sátum við í flugvél á leið til drengjanna okkar.“

Langt og strangt ferli
Unnur Björk segir að ef allt gangi að óskum virki kerfið þannig að fólk sem er í ættleiðingarhugleiðingum snúi sér til Íslenskrar ættleiðingar og tjái vilja sinn til ættleiðingar, þar fara viðkomandi svo á undirbúningsnámskeið sem hún segir bæði gott og skemmtilegt. Síðan þarf að sækja um svokallað forsamþykki til sýslumanns, í framhaldi af því kemur félagsráðgjafi frá barnaverndarnefnd og tekur út fjölskylduna og gerir skýrslu um hæfi fólks til þess að verða foreldrar og búsetu. Félagsráðgjafinn kemur þrisvar sinnum og á endanum skilar hann af sér lokaskýrslu til sýslumanns, sem fjölskyldan fær að lesa og gera athugasemdir við. Þetta ferli ætti ekki að þurfa að vera svo langt, en í þeirra tilfelli tók það rúm þrjú ár og ekki hægt að senda út umsókn um börn fyrr en að því loknu. „Þegar fólk vill fá að ættleiða sækir það um forsamþykki til sýslumannsins, eins og áður kom fram. Við sækjum um en sýslumaður gerði athugasemd við fjármálin okkar og bað um að við yrðum tekin sérstaklega út þar sem við vorum að sækja um systkini. Okkar fjármál voru í góðu lagi, við skulduðum íbúð og námslán og ekkert meir en þetta stóð eitthvað í Barnavernd sem átti að gera skýrsluna okkar, eða það höldum við því það tók Barnavernd níu mánuði að gera skýrsluna okkar. Við vorum aldrei sátt við þá skýrslu enda var þar ein og hálf blaðsíða um fjármálin okkar, en nokkrar línur um hæfni okkar til þess að ala upp systkini. Skýrslan fer síðan til sýslumanns sem skýtur henni til ættleiðingarnefndar sem tekur líka langan tíma. Ættleiðingarnefnd gerði engar athugasemdir en tók tæpa fimm mánuði í verkið og í ágúst 2012 fengum við forsamþykki. Þá áttum við eftir að fara til sálfræðings í sálfræðimat, annar sálfræðingurinn var á Akureyri og töluverð bið eftir honum. Þannig að það var ekkert tilbúið fyrir en í desember 2012 og þá var skýrslan okkar orðin úrelt og gat ekki fylgt umsókninni til Tékklands. Þá tók nú enn ein baráttan við að fá endurgerð á skýrslunni okkar. Sýslumannsembættið í Reykjavík var ekki tilbúið að aðstoða okkur á neinn hátt og vorum við í raun strand, komin með forsamþykki en skýrslu sem ekki var hægt að senda út. Við mættum dónaskap af hendi embættisins og því miður getum ég ekki hugsað hlýlega til þeirrar manneskju sem við vorum í mestum samskiptum við. Ég skrifaði skrifstofustjóra innanríkisráðuneytisins tvö bréf, ég skrifaði þingmönnum og ég fór í fréttirnar. Hins vegar gerðist ekki neitt fyrr en systir mín hafði samband við ráðherra og þá loksins komst einhver skriður á málin, skýrslan var endurgerð þar sem þeir hlutar hennar sem við vorum ekki sátt við voru endurgerðir. Það skipti okkur nefnilega mjög miklu máli að þessi skýrsla væri vel gerð því í Tékklandi eru börn og fjölskyldur paraðar saman. En þetta er nú bara svolítið dæmigert fyrir okkur. Ættleiðingarferli Unnar Bjarkar og Palla hófst í apríl árið 2011 og þann 6. júní 2014 var umsókn þeirra um ættleiðingu samþykkt. 

Biðin vel þess virði 
„Ég hugsaði oft á þessum tíma hversu erfitt það væri að vera í þessu, en núna þegar ég lít til baka þá finnst mér það ekki eins mikið mál og hugsa meira – ef ferlið hefði ekki tekið allan þennan tíma þá hefðum við ekki fengið þá! En ég fékk þá! Hins vegar tekur ferlið á sálina líka þó svo að allt gangi fljótt og vel fyrir sig. Í flestum tilfellum er fólk búið að reyna að eignast börn lengi og margir búnir að reyna tæknifrjóvgun sem er mjög erfitt ferli á meðan á því stendur. Þannig að maður er oft lítill í sér í svona ferli og ég er sjálf búin að fella mörg tár í ferlinu og verið við það að gefast upp. Þá er mikilvægt að hafa góða í kringum sig sem peppa mann upp á erfiðum tímum.“ Þegar svo samþykki til ættleiðingar liggur fyrir þá geta foreldrar loksins farið að láta sig hlakka til að barn sé væntanlegt, þó svo að það liggi ekki fyrir hvenær það verður og hver og þar fram eftir götunum. Þetta er meðganga í hjartanu og margir foreldrar undirbúa sig á svipaðan hátt og foreldrar sem fá börn sín á hefðbundnari hátt. Í staðinn fyrir að skoða vöggur og hekla heimferðaföt fór ég í að gera upp gömul rúm og hillur. Unnur Björk segir að ferlið í Tékklandi sé frekar stutt miðað við mörg önnur lönd, þar taki kannski um ár frá umsókn og þar til fjölskylda hefur fengið barn í hendurnar. Hins vegar er þetta örlítið happdrætti með löndin því þau geta lokað fyrir eða hægt á ættleiðingum út úr landinu. Á sama tíma í fyrra var vitað um sjö börn á leið til landsins en á þessu ári hefur ekkert barn komið eða er væntanlegt svo vitað sé frá Tékklandi. Ekki er langt síðan að sá valkostur var fyrst í boði að ættleiða börn frá Tékklandi en fyrsta barnið kom árið 2007. Í Tékklandi fara væntanlegir foreldrar ekki á lista heldur eru foreldrar og börn pöruð saman. Það er skoðað hvaða einstaklingar eiga í hlut og síðan valin fjölskylda sem þykir best hæfa þeim. Unnur Björk segist nú ekki alveg vita hvernig Tékkarnir fóru nákvæmlega að þessu, en það sé alveg frábært hvað pörunin í þeirra tilfelli hafi gengið vel og hversu vel þau eiga saman við sína drengi einkum hvað varðar persónueinkenni. Ekki er sopið kálið þó í ausuna sé komið og er alveg óhætt að nota þann gamla málshátt yfir ferlið sem nú tók við hjá þeim hjónum. Þegar þau voru á leið til Tékklands til að fá að hitta drengina sína kom í ljós lagaflækjur sem ollu því að þau gátu ekki hitt drengina á þeim tíma sem upphaflega var áætlað. Þau fóru því til Tékklands þar sem þau á endanum dvöldu í fimm mánuði þar til þau gátu farið með synina þrjá til hinna nýju heimkynna á Íslandi. „Það var búið að gefa okkur upp dagsetningar og okkur sagt að panta flug og gistingu. Síðan fengum við símtal frá Íslenskri ættleiðingu þar sem okkur var tjáð að vegna nýrra laga í landinu þá myndi ekki verða af fundinum og þar af leiðandi værum við ekki að fara að hitta drengina okkar. Það var alveg hryllilegur tími og mér leið eins og ég væri að missa þá. Það vissi enginn í raun hvað hafði klikkað í kerfinu og þetta kramdi alveg mömmuhjartað. Hjá okkur var allt tilbúið, miðar út, gisting og allt og við vorum búin að mynda tengingu við drengina í gegnum myndirnar sem við áttum af þeim. Íslensk ættleiðing spurði okkar hvort við gætum komið út og verið þann tíma sem verið væri að leysa úr málunum og þá með drengjunum og við hugsuðum okkur ekkert um heldur sögðum bara já enda í okkar huga mjög mikilvægt að þeir færu af barnaheimilinu og við gætum byrjað að mynda við þá tengsl. Tékknesk yfirvöld gáfu leyfi fyrir því og erum við óendanlega þakklát fyrir það.“ Ferðin út frestaðist því ekki nema um tvær vikur. Þegar út var komið fóru þau fyrst á fund í Brno þar sem við fórum á fund með sálfræðingi og lögfræðingi sem fóru yfir með þeim allt um lagalega hlið ættleiðingarinnar sem hvers mætti vænta. Bræðurnir voru á einu stærsta barnaheimili Tékklands í bæ sem heitir Most og þegar þangað var komið byrjuðu þau á að funda með fagaðilum heimilisins, eins og lækni og sálfræðingi sem fóru með þeim yfir sögu drengjanna sem höfðu dvalið á heimilinu alla tíð og segir Unnur Björk aðbúnað á heimilinu hafa verið mjög góðan.

Fyrsti dagurinn okkar saman.

Bræðurnir í Prag.

Á ganginum sem þeirra drengir dvöldu voru mest 6 börn á hvern umsjónaraðila. Börnin höfðu ágætis leikherbergi og voru sex rúm í svefnherberginu þeirra. Eftir að hafa fundað með fagfólkinu rann upp stóra stundin, er fjölskyldan sameinaðist hið fyrsta sinn. En hvernig tilfinning skyldi það hafa verið? „Þetta var rosalega skrýtið. Við fórum með starfsfólkinu á barnaheimilinu þeirra upp á deildina þeirra og gengum svona í humátt á eftir félagsráðgjafanum þeirra. Við vorum afar spennt en vissum auðvitað ekkert hvernig þeir myndu bregðast við okkur. Þeir tveir eldri komu hlaupandi á móti okkur en sá yngsti hélt sér til hlés. Þeir voru náttúrulega altalandi á tékknesku og við töluðum bara íslensku. Allir voru spenntir og þetta varð mikil barátta um athygli svona fyrst um sinn, eins og gefur að skilja.“ 
Á dögunum var liðið ár frá þessari miklu örlagastund er fjölskyldan sameinaðist hið fyrsta sinn og segist Unnur Björk hafa verið að fara yfir myndir og myndbönd frá fyrstu dögunum og það sé ótrúlegt að sjá hvernig þetta var fyrir ári síðan og vera svo orðin þessi samhenta fjölskylda í dag. Við dvöldum í íbúð fyrir ofan deildina þeirra á barnaheimilinu í rúmar tvær vikur. Fyrstu sex dagana fórum við alltaf niður og hittum þá að morgni og sögðum bless við þá á kvöldin. Að kvöldi sjötta dags voru þeir síðan alkomnir til okkar. Við reyndum að halda rútínunni þeirra nákvæmlega eins og þeir voru vanir til að byrja með. Flestir fara heim með börnin sín eftir einn dag eða tvo, en það er svolítið meira mál að taka þrjú börn á einu bretti og það hefði verið of mikið fyrir alla að ætla að gera þetta þannig. Eftir þrjá daga fóru þeir að venjast að koma upp til okkar í íbúðina sem við vorum í og borða með okkur og síðan að gista og á 6. degi voru þeir alkomnir til okkar – og það var frekar skrautlegt“ segir Unnur Björk og kímir yfir tilhugsuninni. „Þetta var náttúrulega ógurlegt frelsi fyrir þá sem voru vanir mikilli formfestu af barnaheimilinu og ekki vanir að það mætti heyrast mikið í þeim. Þeir voru eins og kýr að vori og gjörsamlega út um allt, prófandi og fiktandi í öllu því sem þeir höfðu aldrei mátt snerta áður. Til að byrja með fengum við mikla aðstoð frá barnaheimilinu og jafnframt fengum við ómetanlega aðstoð að heiman.“ Unnur Björk segir að allt hafi verið nýtt og bara ferðalagið sem var fyrir höndum frá Most til Prag, sem þau hafi ferðast stuttu áður án nokkurra vandkvæða hafi allt í einu virst ansi yfirþyrmandi með þrjú lítil börn. Eins hafi þurft að gera og græja fyrir hina nýju fjölskyldumeðlimi, líkt og að fata þá upp en þeim fylgdu engin föt eða slíkt. Hún segir það hafa verið ansi mikla áskorun að ná að sinna þessum praktísku hlutum í þeim mikla tilfinningarússíbana sem þau voru í og svo er líka bara svolítið mál að kaupa allt sem þrjú börn þurfa á einu bretti. Á þessum tímapunkti kallar Einar innan úr eldhúsi, en hann var heima með hlaupabólu. Á meðan við mamma hans spjölluðum saman í stofunni var hann í eldhúsinu að mála hinar fegurstu myndir og var hann ansi afkastamikill. Greinilega sjálfstæður og duglegur ungur maður þar á ferð, sem bar öll listaverkin á milli eldhúss og stofu þar sem hann lagði þau til þerris.

Heimkoman 
Fjölskyldan dvaldi svo í rúma fjóra mánuði í Prag, þar sem þau byrjuðu að setja sig í stellingar sem fjölskylda. Tíminn í Prag fór auðvitað í að reyna að búa til eðlilegt heimilislíf og kenna drengjunum á þessa nýju einingu sem heitir fjölskylda. Við reyndum að hafa vissa rútínu en á fjarlægum slóðum þar sem allir dagar eru sunnudagar þá gat það stundum reynst erfitt. Unnur Björk segir það hafa verið nokkuð bakslag að koma heim, en fjölskyldan hafi verið farin að finna taktinn sinn saman í Prag og komin inn í vissa rútínu þar, þó þau hafi að sjálfssögðu saknað þess að hafa fjölskylduna sína nær á þessum mikilvægu tímum. Að koma heim var smá sjokk fyrir alla. Hjónin höfðu verið rétt byrjuð að koma sér fyrir í nýja húsinu þegar þau fóru til Tékklands og nú voru þau allt í einu orðin fimm að reyna að finna taktinn á nýjum stað og á heimili sem var í raun nýtt fyrir þeim öllum. Unnur Björk segir þó aðlögunarhæfni sonanna alveg ótrúlega og þeir meira að segja verið orðnir altalandi á íslensku þegar þau komu heim. Það skiljanlega vantaði í orðaforðann, en um leið og þeir fóru að vera í íslensku málumhverfi, kom það strax. „Fyrstu vikurnar eftir að við komum heim voru rosa erfiðar. Elstu drengurinn var skiljanlega með mikla heimþrá. Við vorum búin að undirbúa þá eins vel og hægt var fyrir hvað biði þeirra hér heima.

Á leið upp Gleiðarhjalla sumarið 2013 ... þá vissi ég ekki að ég ætti eftir að setjast að hér.


Uppi á Pétursey, séð yfir Mýrdalinn.

Í Rotterdam.

Sæmundur var algjörlega tilbúinn að byrja á leikskóla og við vorum búin að segja honum að hann myndi gera það fljótlega eftir heimkomu og þar myndi hann eignast vini sem væru jafngamlir honum. Hann hélt að það myndi gerast bara fyrsta daginn og fannst mjög erfitt að það skyldi ekki gerast strax. En það kom nú allt fljótt og er hann búinn að eignast mikið af vinum og fara í mörg afmæli sem honum fannst afar spennandi. Leikskólinn er frábær og þar höfum við fengið mikla aðstoð, starfsfólkið þar er einstakt og hefur reynst okkur ofboðslega vel.“ Ekki er foreldrum ættleiddra barna fylgt eftir fyrstu skrefin af félagsmálayfirvöldum, frekar en þeim foreldrum sem eignast sín börn eftir hefðbundnari leiðum. Unnur Björk segir að þau hafi þó notið þjónustu Guðlaugar Júlíusdóttur, á Fjölskyldumiðstöðinni á Ísafirði, þar sem þau þurfi reglulega að senda til Tékklands eftirfylgniskýrslur og þau hafi fengið góða ráðgjöf hjá henni hér á Ísafirði. „Það er eitt að ættleiða börn og svo er allt annað að vera móðir barna á mismunandi aldri og jafnvel þó ég sé sjálf uppeldismenntuð þá er það ekki sama og að eiga sín eigin börn – það fattar maður þegar maður eignast þau. Allar þær málamiðlanir sem þarf að gera og vangaveltur um hvort að hinir og þessir hlutir séu eðlilegur partur af aldri og þroska. Ég tala nú ekki um að vera svo með þrjá einstaklinga sem allir eru ólíkir persónuleikar í ofanálag. Við höfum líka fengið mjög góða aðstoð frá Íslenskri ættleiðingu en þar starfar einstakt starfsfólk og við erum með sálfræðing sem hægt er að leita til hvenær sem er. Fólkið sem hefur líka reynst okkur vel eru hinir foreldrarnir sem eiga ættleidd börn. Við erum í hópi sem kallar sig Tékklandshópinn og án þeirra hefðum við örugglega ekki klárað þetta þarna úti. Alltaf þegar við komum með spurningu eða vangaveltur um eitthvað þá höfðu þau lent í nákvæmlega í því sama. Reynsla þeirra hjálpaði okkur mikið.“ Unnur Björk segir það hafa verið margar áskoranir fólgnar í því að verða mamma, samhliða því að flytja á nýjan stað. „Það er eitt við að eignast börnin á þessum aldri er að ég er ekkert að fara að skella mér á mömmumorgna. Ég á enga samleið með mæðrum með ungabörn og því hefur fæðingarorlofið stundum verið einmanalegt.“ Á mömmumorgnum hittast nýbakaðar mæður með krílin sín og er það oft hinn besti staður til að bera saman bækur sínar um hið nýja hlutverk og hvítvoðunginn. Unnur Björk segir að þessi mál séu þó öll á leið í réttan farveg. Hún hafi skellt sér í kvenfélag og farin að tengjast inn í samfélagið, einnig fer hún aftur út á vinnumarkaðinn í haust, þar sem hún var á dögunum ráðin sem skólastjóri Grunnskóla Önundarfjarðar og Leikskólans Grænagarðs. Enn eitt nýja ævintýrið í lífi Unnar Bjarkar er því að hefjast, sem hún segist mjög spennt að takast á við. Unnur Björk segist virkilega geta leyft sér að njóta móðurhlutverksins. Hún segir fólk ósjaldan spyrja hvort hún og Palli séu ekki að passa upp að gera hluti fyrir sig, en hún segist bara svara að þau hafi átt 15 góð ár áður en  strákarnir komu til sögunnar og þau muni eiga sinn tíma aftur í framtíðinni. Þau hafi ákveðið að fókusinn yrði á synina og þeirra þarfir. Ég fer í kór og leikfélag og klíf fjöll á nýjan leik þegar þeir verða orðnir svolítið stærri og þurfa ekki eins mikið á mér að halda. Unnur Björk fagnaði á dögunum fertugsafmæli sínu og má því sannarlega segja að hið ameríska „lífið byrjar við fertugt“ eigi vel við hana; nýbökuð þriggja barna móðir, á nýjum stað, á fallegu nýju heimili og nú nýkomin með nýja, spennandi vinnu.

Bæjarins besta - Varð þriggja barna móðir á einni nóttu 

 


Svæði