Fréttir

Við heimsækjum Kólumbíu en skrifstofan verður opin eftir sem áður

Í fyrramálið heldur Kristinn framkvæmdastjóri Í.Æ. af stað til Kólumbíu til fundar við þarlend ættleiðingaryfirvöld og til að styrkja tengsl félagsins við tengiliði okkar þar en Kólumbía hefur aldrei verið heiðruð með heimsókn af hálfu Íslenskrar ættleiðingar.

Þó að Kristinn verði erlendis í tíu daga verður skrifstofa félagsins engu að síður opin enda í nógu að snúast.

Ein hjón eru á leið til Indlands á næstu dögum að sækja nýjasta fjölskyldumeðliminn. Verið er að skipuleggja ferð hjóna sem fara í sömu erindagjörðum til Kólumbíu inna skamms. Unnið er að undirbúningi ferða þriggja hjóna til Kína á næstunni og samkvæmt heimildum okkar hjá kínverskum ættleiðingaryfirvöldum gerum við ráð fyrir að Kínahópur 18 fái upplýsingar um börn á næstu vikum.

Við höfum því ráðið Elínu Henrikssen stjórnarmann í Í.Æ. til að annast skrifstofuhaldið meðan Kristinn situr fundina í Kólumbíu sem skipulagðir voru í janúar.

Elín þekkir glöggt til ættleiðingarmála, hún hefur í tvígang ættleitt á eigin vegum frá Rússlandi, setið í stjórn Foreldrafélags ættleiddra barna frá stofnun félagsins, hún hefur sinnt erindrekstri fyrir Í.Æ. í Rússlandsverkefninu svokallaða og er núna ritari stjórnar Í.Æ.
Elín hefur netfangið elin@isadopt.is


Svæði