Haag-samningurinn

Öll upprunalöndin sem Íslensk ættleiðing vinnur með eru aðilar að Haagsamningnum og fer starf félagsins eftir þeim skuldbindingum sem honum fylga. Með þingsályktunartillögunni sem lögð var fyrir Alþingi árið 1999 var eftirfarandi athugasemd gerð.

"Vinna við gerð samnings þessa hófst árið 1988 á vegum Haagráðstefnunnar um alþjóðlegan einkamálarétt. Markmiðið var að hrinda í framkvæmd ákvæði e-liðar 21. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989 þar sem ríki eru hvött til að koma á tvíhliða eða marghliða samningum eða fyrirkomulagi varðandi ættleiðingu milli landa.
    Haagsamningnum er ætlað að samræma þau skilyrði sem sett eru af hálfu stjórnvalda samningsríkja svo að ættleiðing milli landa megi fara fram með hagsmuni barnsins í fyrirrúmi. Tilgangur samningsins er að við ættleiðingu milli landa séu grundvallarréttindi barnsins virt og komið í veg fyrir brottnám barna og verslun með þau, svo og að tryggja að samningsríki viðurkenni ættleiðingar sem fara fram í samræmi við samninginn. Tekið er tillit til meginatriða sem kveðið er á um í áðurnefndum samningi um réttindi barnsins og yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna frá 3. desember 1986 um félagsleg og lagaleg meginatriði varðandi vernd og velferð barna, með sérstöku tilliti til fósturs og ættleiðingar innan lands og milli landa.
    Samningurinn byggist á því að samvinna sé á milli þess ríkis þar sem barn á búsetu (upprunaríkis) og þess ríkis þar sem umsækjendur um ættleiðingu eiga búsetu (móttökuríkis) við meðferð ættleiðingarmála. Mikilvægt er að góð samvinna sé á milli ríkja til að markmiðum samningsins verði náð. Samningurinn kveður á um að samningsríki tilnefni miðstjórnvald. Samkvæmt frumvarpi til ættleiðingarlaga sem einnig er lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi er gert ráð fyrir að dómsmálaráðuneytið verði miðstjórnvald hér á landi, enda er miðað við að umsjón ættleiðingarmála og útgáfa ættleiðingarleyfa verði áfram í höndum þess. Miðstjórnvald á að hafa umsjón með því að þeim skyldum sem samningsríki taka á sig sé fullnægt. Það skal hafa eftirlit og viðurkenna formlega ættleiðingarfélög sem hafa milligöngu um ættleiðingar milli landa. Enn fremur hefur það upplýsingaskyldu gagnvart miðstjórnvöldum annarra samningsríkja.
    Samkvæmt 40. gr. samningsins er ekki heimilt að gera fyrirvara við hann.
    Haagsamningurinn öðlaðist gildi 1. maí 1995 og voru samningsríkin 35 talsins 26. ágúst 1999. Ísland er ekki aðili að Haagráðstefnunni um alþjóðlegan einkamálarétt, en getur engu síður gerst aðili að samningnum, sbr. 44. gr. hans. Það er skilyrði fyrir gildistöku gagnvart einstökum samningsríkjum að þau hafi ekki andmælt aðild Íslands innan sex mánaða frá viðtöku tilkynningar um aðildina.
    Samkvæmt áðurnefndu frumvarpi til ættleiðingarlaga eru sköpuð skilyrði til þess að unnt sé að standa við skuldbindingar sem samningsríki gangast undir samkvæmt samningnum."

 

Svæði