VIÐTÖL




Gjöld vegna viðtala eru samkvæmt gjaldskrá félagsins

Fyrsta viðtal
Mælt er með því að áhugasöm panti sér viðtal hjá sérfræðingum Íslenskrar ættleiðingar. Ættleiðingarferlinu má skipta upp í nokkur skref og er hvert skref útskýrt í stuttu máli. Fyrsta skrefið er að taka ákvörðun um hvort ættleiðing sé kostur sem fjölskyldan vill kanna ofan í kjölin.

Í fyrsta viðtali er farið yfir það helsta sem snertir málaflokkinn s.s.

  • Hlutverk félagsins
  • Helstu lög og reglur
  • Hlutverk sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu
  • Hlutverk félagsráðgjafa barnaverndarnefndanna
  • Ferill forsamþykkis
  • Hversu langan tíma má gera ráð fyrir áður en að forsamþykki er gefið út
  • Helstu upplýsingar um upprunalöndin sem félagið er í sambandi við
Viðtölin eru að jafnaði í eina og hálfa klukkustund og fara yfirleitt fram alla virka daga frá kl 9:00 til kl 16:00.

Viðtal vegna umsóknar um forsamþykki
Þegar ákvörðun hefur verið tekin um að ættleiða barn erlendis frá þarf að fá forsamþykki til ákveðins lands. Yfirleitt líða um 6 - 12 mánuðir frá því að umsókn um forsamþykki fer frá ÍÆ þangað til sýslumaður gefur það út. Forsamþykki er staðfesting frá íslenskum yfirvöldum sem staðfesta að umsækjendur eru hæfir til að ættleiða barn. Öll erlend ríki fara fram á að forsamþykki fylgi umsókn um ættleiðingu. Íslensk ættleiðing móttekur umsókn um forsamþykki ásamt fylgigögnum, fer yfir hana og sendir til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
Umsækjendur fá fræðslu um meginákvæði íslenskra og alþjóð­legra reglna um ættleiðingar á börnum milli landa. Íslensk ættleiðing og umsækjendur gera með sér samning vegna milligöngu um ættleiðingu með það að markmiði að gera grein fyrir gagnkvæmum réttindum og skyldum og stuðla að góðu og farsælu samstarfi. Áður en umsóknin er send þarf að greiða gjald vegna umsóknar um forsamþykki. Þetta gjald er ekki endurgreitt þó umsókn sé hafnað.

Viðtalið er um ein og hálf klukkustund og fer yfirleitt fram alla virka daga frá kl 9:00 til kl 16:00.

Viðtal hjá trúnaðarlækni félagsins vegna lista yfir skilgreindar þarfir
Hægt er að óska eftir ráðgjöf hjá lækni til að yfirfara lista yfir skilgreindar þarfir. Viðtalið fer fram hér á skrifstofu Íslenskrar ættleiðingar og kostar 15.873 kr. Listinn þarf svo að fylgja umsókn um forsamþykki til sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu. 

Viðtalið er um ein til ein og hálf klukkustund.

Viðtal vegna val á landi
Farið er í gegnum helstu upplýsingar um upprunalöndin sem félagið er í sambandi við. Fyrir viðtalið er greitt samkvæmt gjaldskrá félagsins.

Viðtalið er um ein til ein og hálf klukkustund og fer yfirleitt fram alla virka daga frá kl 9:00 til kl 16:00.

Viðtal vegna umsóknar til upprunalands
Safna þarf ýmsum vottorðum, láta þýða umsögn barnaverndaryfirvalda, og fá viðeigandi stimpla á öll skjölin. Kröfur landanna um fylgigögn eru misjafnar og því mikilvægt að fá leiðbeiningar ÍÆ áður en haldið er af stað í þessa vinnu. ÍÆ sér svo um að senda umsókn ásamt fylgigögnum til þess lands sem umsækjendur hafa valið. ÍÆ gefur sér 5 daga til að yfirfara umsóknina. Áður en umsókn er send til upprunalands þarf að greiða gjald vegna umsóknar.

Viðtal vegna upprunaleitar
Fyrir viðtöl vegna upprunaleitar er greitt samkvæmt gjaldskrá félagsins.

Svæði