Reynslusögur

Okkar barnalukka

Okkar barnalukka
Við hjónin höfðum gefist upp á að eignast barn með hefðbundnu leiðinni eftir mörg ár af svekkjandi pissuprófum. Fórum í okkar fyrsta viðtal hjá Íslenskri Ættleiðingu árið 2015 og sóttum síðan námskeiðið „Er ættleiðing fyrir mig?“ árið 2016 sem var byrjunin á okkar barnaláni. Við fengum forsamþykkið okkar í júní 2017 og vorum komin á biðlista í Tékklandi í nóvember sama ár. Árin 2016 og 2017 einkenndust af mikilli pappírsvinnu og möppuskipulagi til þess að halda utan um allt. Strax jólin 2017 vorum við, vinir og fjölskylda viss um að það kæmi að þessu á örfáum mánuðum, þó svo að meðal biðtíminn væri um 2 ár. Ömmurnar fóru að prjóna og við breyttum til heimafyrir og gerðum barnaherbergi. Barnaherbergi sem átti síðan eftir að standa autt í þó nokkur ár.
Lesa meira

Reynslusaga - eftir Sigrúnu Önnu og Gunnar

Reynslusaga - eftir Sigrúnu Önnu og Gunnar
Það var í mars 2014 sem við hjónin ákváðum að hefja okkar ættleiðingarferli. Ári áður höfðum við rætt þennan möguleika enda hafði okkur ekki gengið sem skyldi að stofna fjölskyldu. Þá ræddum við að við ætluðum ekki í neinar læknisfræðilegar meðferðir eða athuganir. Nánir vinir okkar voru í ættleiðingarferli sjálf og við ákváðum að fylgjast með þeim og taka svo ákvörðun. Daginn sem vinir okkar fengu símtalið sitt fundum við að við vorum tilbúin og í apríl 2014 hófum við að safna gögnum fyrir forsamþykkið. Við vorum alveg ákveðin svo við héldum bara áfram með umsóknina þrátt fyrir að ekki væri von á næsta „Er ættleiðing fyrir mig?“ námskeiðið fyrr en seint um haustið, en til að fá forsamþykki þarf að fara á eða vera skráður á svona námskeið. Það fór því svo að við fengum forsamþykki í september 2014, mánuði áður en við fórum á fyrri hluta námskeiðsins og vorum því eðlilega komin mun lengra í ferlinu en aðrir á námskeiðinu. Við sáum örlítið eftir að hafa ekki athugað með næstu námskeið þegar við vorum enn að íhuga ættleiðingu því það reyndist okkur erfitt að finnast við ekki á sama stað og aðrir á námskeiðinu. Við hefðum þá mögulega sótt næsta námskeið á undan frekar.
Lesa meira

Sagan okkar, eftir Olgu Elenoru Marcher Egonsdóttur

Sagan okkar, eftir Olgu Elenoru Marcher Egonsdóttur
Daginn eftir 38 ára afmælisdaginn minn gekk ég til fundar við Íslenska Ættleiðingu til að athuga hvaða möguleika ég hefði, þessi fundur markaði upphafið af mínu ættleiðingaferli. Þetta var í nóvember 2010. Sex árum eftir fundinn, eftir að hafa verið búin að ganga í gegnum allt ferlið hjá sýslumanni, verið samþykkt á biðlista í Togo, endurnýjun á forsamþykki og óendanlega bið, var ekkert að frétta. Ég var við það að gefa upp alla von og sömuleiðis fólkið í kringum mig. Einn góðan sunnudag í janúar 2017 vaknaði ég upp af værum svefni svolítið rykug eftir Þorrablót. Síminn hringdi og það eina sem ég fékk að vita var að þetta væri símtalið sem ég hefði beðið eftir í allan þennan tíma. Hugsanirnar og tilfinningarnar sem streymdu á þessum örfáu mínútum sem tók að keyra uppí Skipholt verður seint toppað. Litla stelpan mín hún Emilía Audrey var orðin mín og það var var aldrei neinn vafi á því, ég held að við báðar höfum verið að bíða eftir rétta tímanum. Eftir að ég sendi bréf út varðandi það að ég vildi ættleiða hana þurfti málið að fara í gegnum dómskerfið í Togo. Vanalega hefur þetta ferli tekið um 6-7 mánuði og ég átti því ekki von á því að fara út fyrr en í fyrsta lagi í júlí. Ég var nokkuð róleg framanaf, fannst ég hafa allan tímann í heiminum til að undirbúa komu hennar. En einn dag í byrjun maí 2017 fékk ég að vita að ég mætti koma og sækja hana. Ég var í vinnunni og fékk vægt taugaáfall, andaði ótt og títt, gekk í hringi og talaði bara tóma vitleysu. Þegar ég var búin að átta mig aðeins betur á þessu öllu saman vaknaði verkefnastjórinn í mér og allt fór á flug. Það þurfti að panta flug, fá vegabréfsáritun, bóka hótel, finna bílsstjóra, losna úr vinnunni, pakka og svona mætti lengi telja. Ég setti upp Kanban borð í vinnuherberginu heima og post-it miðarnir flæddu um allt. Blessunarlega naut ég aðstoðar fjölskyldu og vina bæði áður en ég fór út og á meðan ég var úti. Þrjár vinnu og skemmtiferðir voru planaðar þetta sumar erlendis og var öllum flugmiðum hent nema einum. Ég ákvað að fara með vinkonunum í húsmæðraorlof um Hvítasunnuhelgina og halda svo áfram til Parísar en þaðan flaug ég til Togo. Það var kærkomið að kúpla sig frá öllu og fá aðeins „frí“. Mamma fór með mér til Togo og það voru því gríðarlega spenntar mæðgur sem hittust á Charles de Gaulle eldsnemma að morgni Hvítasunnudags 4. júní, tilbúnar fyrir ævintýrin framundan. Flugið til Lome tók bara um átta tíma með millilendingu í Niger og við lentum í Lome höfuðborg Togo um kvöldmatarleytið. Theo starfsmaður íslenskrar ættleiðingar og Fabrice bílstjórinn okkar tóku á móti okkur á flugvellinum og keyrðu okkur uppá hótel. Við dvöldum á Hótel Residence Madiba sem var um 30 mínútur fyrir utan borgina. Þarna var notalegur garður, flott sundlaug og strönd. Við leigðum lítinn bungalow með verönd þar sem við gátum horft út á hafið. Eftirvæntingin þegar við vöknuðum daginn eftir var ólýsanleg. Hinsvegar, þegar við komum uppá skrifstofu ættleiðingarnefndarinnar var okkur tjáð að afþví að það væri annar í Hvítasunnu þá fengjum við ekki að hitta Emilíu Audrey fyrr en daginn eftir. Þvílík vonbrigði. Ljósi punkturinn var þó að frænka mín flaug til okkar frá Sierra Leoni til að vera okkur til halds og trausts fyrstu dagana. Skt. Claire barnaheimilið sem Emilía Audrey bjó á er inní Lome. Barnaheimilið er rekið af kaþólskum nunnum og er klaustur þarna við. Aðkoman að barnaheimilinu er vinaleg þetta eru lágreistar byggingar, ljósgular að lit og það eru trjágöng upp að aðalhúsinu til að veita skugga. Fyrir framan húsið er leiksvæði fyrir krakkana með allskonar tækjum. Á barnaheimilinu eru 3 deildir með rúmlega 60 börnum og er markmiðið að þau verði öll ættleidd. Emilía Audrey var á elstu deildinni. Við fengum að koma á barnaheimilið þriðjudaginn eftir Hvítasunnu. Þegar við komum var okkur vísað inná skrifstofu og þar var byrjaði að ræða málin, hvernig aðlögunin færi fram og svo framleiðis. Ég átti svo von á því að við færum í annað herbergi til að hitta Emilíu Audrey. En allt í einu birtist lítil stelpa í screen-hurðinni, hún var í ljósbleikum kjól, með stýri í hárinu. Á þessu augnabliki missti hjartað úr nokkur slög. Þegar hurðin opnaðist hljóp hún beint í fangið á mér og hélt svo fast um hálsinn, eins og hún ætlaði aldrei að sleppa. Það var ekki þurrt auga á skrifstofunni. Emilía Audrey kúrði fast í hálsakotinu hjá mér þangað til henni voru boðnar rúsínur, þá fyrst fékk ég að sjá almennilega framan í hana. Eftir smá tíma fengu svo amma og frænka að knúsa hana líka. Nunnurnar sögðu mér seinna að hún hefði sýnt lítil viðbrögð þegar þau voru að segja henni að hún ætti mömmu og voru að sýna henni myndir, eftirvæntingin var því mikil að sjá hvernig hún myndi taka mér. Næstu fjóra daga kom ég í daglegar heimsóknir á barnaheimilið og var þar frá því klukkan sjö á morgnana til sex á kvöldin með smá hléi yfir daginn. Lífið á Skt. Claire er í fastmótuðum skorðum og gekk ég inní það til að læra hennar rútínu. Ég gaf henni að borða, klæddi hana og baðaði, setti á koppinn og lék við hana. Við fórum í marga göngutúra um klausturgarðinn að leita að eðlum og fiðrildum og hoppa, en þetta voru fyrstu orðin hennar. Þarna var líka skemmtilegt leikherbergi með fullt af dóti og bókum. Á meðan ég var með Emilíu Audrey voru mamma og frænka að aðstoða á heimilinu. Emilía Audrey tengdist mér strax, ég var alltaf að bíða eftir því að það kæmi bakslag og að hún myndi hafna mér en það kom aldrei. Það var í raun ótrúlegt að hún vildi ekkert hafa með börnin eða starfsfólkið á barnaheimilinu þegar ég var á staðnum, algjörlega hundsaði þau. Á fimmta degi mátti ég svo taka dömuna með mér heim á hótel en þurfti að koma með hana aftur á barnaheimilið klukkan sex. Það að skilja hana eftir er það erfiðasta sem ég hef gert á ævinni. Blessunarlega gekk aðlögunin framar vonum og aðeins viku eftir að við vorum sameinaðar fékk hún að koma alveg til mín, eftir það fórum við bara á barnaheimilið í heimsóknir. Við vorum í Togo í heilan mánuð. Næstu vikurnar fóru því í að kynnast betur og njóta lífsins við sundlaugina. Borða ís og gera annað skemmtilegt. Við heimsóttum barnaheimili í Aneho, heimsóttum saumastofu Tau frá Togo, fórum á leikvelli í borginni, í ísbíltúra og göngutúra. Síðustu 10 dagana kom svo mágkona mín til að aðstoða okkur á lokasprettinum og vera til halds og trausts á heimleiðinni. Undir lok júní voru svo allir pappírar tilbúnir og Emilía Audrey var útskrifuð af barnaheimilinu. Til þess að fagna því slógum við til stórrar veislu. Það var sko fjör þann eftirmiðdag. Öll börnin á deildinni voru mætt og allt starfsfólkið líka. Það var dansað og sungið, það voru blöðrur, borðaðar kökur og drukkið gos. Allir krakkarnir voru svo leystir út með sleikjó. Það var hátíðleg stund þegar við fórum á skrifstofu Claude, Ræðismanns Íslands í Lome til að fá íslenskt vegabréf fyrir dömuna. Daman hafði aldrei áður komið í húsakynni með svona miklu fíneríi sem þurfti að skoða og snerta. Mamman og amman voru því alveg á nálum. Þegar Emilía Audrey var orðin íslenskur ríkisborgari og komin með íslenskt vegabréf var hún í raun orðin „ólögleg“ inní landinum, við þurftum því að sækja um vegabréfsáritun fyrir hana svo við kæmumst út úr landinu. Það tók þrjár heimsóknir til Immigration og nokkra daga. Það hefði ekki mátt tæpara standa, því að aðeins tveimur dögum fyrir brottför vorum við komin með alla pappíra. Heimferðin gekk framar öllum vonum. Emilía Audrey lét eins og hún væri alvanur ferðalangur, settist strax í sætið sitt í flugvélinni og spennti beltin. Þetta var næturflug og hún sofnaði því fljótt og vaknaði ekki fyrr en rétt fyrir lendingu í París. Það var ótrúlegt að fylgjast með þessari litlu stelpu á flugvellinum í París, hún lét sér fátt um finnast og steig í rúllustiga og inní lest eins og ekkert væri sjálfsagðara. Heillaði alla uppúr skónum og vakti athygli hvert sem hún fór. Henni leist nú ekkert á þetta land þegar rokið og rigningin uppá Miðnesheiði skall á andlitið á henni, en hefur tekið það í sátt síðan. Nú eru liðnir sjö mánuðir frá því við komum heim. Allt hefur gengið framar óskum. Emilía Audrey er gríðarlega orkumikill fjörkálfur, hún elskar allan ærslagang og hlær dillandi hlátri. Hún er mjög örugg og sjálfstæð lítil stelpa og er ekkert smeyk við að kanna heiminn án mömmu sinnar. Emilía Audrey byrjaði á Grænuborg í október, fyrst hálfan daginn. Það var ómetanlegt að hafa Theo, starfsmann Íslenskrar Ættleiðingar í Togo, með okkur í þessu ferli. Hann var okkur til halds og trausts og hjálpaði okkur í gegnum allt ferlið. Hann var alltaf til taks og mættur ef það þurfti að þýða fyrir okkur eða redda einhverju hvort sem það var vegabréfsáritun, áletruð terta eða klæðskeri. Í gegnum Theo réðum við svo bílstjórann Fabrice, þvílík stoð og stytta sem hann var. Hann gat sagt okkur svo mikið um Togo á okkar löngu bíltúrum, þekkti alla og allt sem okkur vantaði sá hann til þess að við fengjum.
Lesa meira

Sagan okkar. Eftir Stein Stefánsson og Selmu Hafsteinsdóttur

Sagan okkar. Eftir Stein Stefánsson og Selmu Hafsteinsdóttur
Við ákváðum þegar við vorum í námi úti í Bandaríkjum árið 2010 að eignast barn. Við reyndum hefbundu leiðina áður en við leituðum hjálpar Art Medica, það gekk ekki upp hjá okkur og eftir síðustu misheppnuðu meðferðina hjá Art ákváðum við skoða ættleiðingu. Við fórum á námskeiðið „Er ættleiðing fyrir mig?“ á vegum ÍÆ febrúar 2014. Fyrir þá sem þekkja ekki ættleiðingarferlið, þá fylgir því mikil pappírsvinna og margar biðstöður og tekur umsóknarferlið sjálft alveg svakalegan tíma (aðallega vegna sýslumanns, hann tekur sinn tíma og er ekkert að flýta sér). Við ákváðum að sækja um að ættleiða barn frá Tékklandi, en okkur leist best á það land sem er í boði hjá ÍÆ, aðallega vegna þess að þar er barn parað við foreldra og góður aðlögunartími fyrir barnið þegar búið er að para saman.
Lesa meira

Reynslusaga - ósköp venjuleg fjölskylda í Garðabænum. Eftir Aðalheiði Jónsdóttur

Reynslusaga - ósköp venjuleg fjölskylda í Garðabænum. Eftir Aðalheiði Jónsdóttur
Í dag erum við bara ósköp venjulega fjölskylda í Garðabænum, hjón með tvö börn og hund. Okkar saga er kannski ekkert öðruvísi en margra annarra, nema við fórum krókaleið til að verða þessi venjulega fjölskylda. Við erum ótrúlega stolt af börnunum okkar og uppruna þeirra. Við erum líka stolt af okkur að hafa getað eignast þessi yndislegu börn. Börnin okkar eru Stefanía Carol fædd 2009 í Kólumbíu og Arnar Ze fæddur 2012 í Kína. Það er svo margt að una við, að elska, þrá og gleðjast við, jafnt orð, sem þögn og lit sem lag, jafnt langa nótt, sem bjartan dag. Mér fátt er kærra öðru eitt ég elska lífið djúpt og heitt, því allt, sem maður óskar, næst og allir draumar geta ræzt. Höf: Kristján frá Djúpalæk
Lesa meira

Reynslusaga - Ættleiðing er frábær kostur. Eftir Sigrúnu Evu og Bjarna Magnús

Reynslusaga - Ættleiðing er frábær kostur. Eftir Sigrúnu Evu og Bjarna Magnús
Sigrún Eva og Bjarni Magnús ættleiddu Veigar Lei frá Kína árið 2014. Þau voru svo væn að deila sögu sinni með félagsmönnum Íslenskrar ættleiðingar. Ferlið Eftir að í ljós kom að við þyrftum á aðstoð að halda til þess að eignast barn og við vegið og metið stöðuna sem við vorum í ákváðum við að það að ættleiða barn væri rétt leið fyrir okkur. Draumur okkar var að eignast barn og fannst okkur ættleiðing frábær kostur. Við fórum í viðtal hjá Kristni (framkvæmda-stjóra ÍÆ) og fengum hann til að fara aðeins yfir þau lönd sem í boði voru fyrir okkur. Þetta var í febrúar 2012.
Lesa meira

Reynslusaga - Þrír bræður og foreldrar þeirra. Eftir Unni Björk Arnfjörð

Reynslusaga - Þrír bræður og foreldrar þeirra. Eftir Unni Björk Arnfjörð
Þann 21. febrúar 2015 fengum við hjónin, ég og hann Páll Sæmundsson, langþráð símtal. Búið að para okkur við þrjá bræður sem bjuggu í bænum Most í Tékklandi. Aðdragandinn var þó aðeins lengri… Reykjavík – Ísafjörður – Tékkland Á sama tíma fékk fjölskyldufaðirinn vinnu úti á landi svo áður en símtalið dásamlega kom vorum við búin að selja íbúðina okkar í Reykjavík og kaupa okkur hús á Ísafirði. Hins vegar var aðeins annað okkar flutt vestur og húsið áttum við ekki að fá afhent fyrr en 1. apríl ef ég man rétt. Það beið okkar því mikil vinna að pakka öllu okkar dóti niður á sama tíma og við vorum að undirbúa komu bræðranna inn í líf okkar. Sem betur fer hafi ég aðeins byrjað að sanka að mér dóti og þurftum við því ekki að kaupa allt á þessum tveimur mánuðum sem við höfðum til undirbúningsins. Með góðri aðstoð fjölskyldu og vina náðum við þó að gera eins klárt og hægt var þegar við settumst upp í flugvél á leið til Þýskalands þann 18. apríl. Upphaflega hafði staðið til að við færum út 10 dögum fyrr en örlögin gripu enn í taumana hjá okkur því upphafleg áætlun um sameiningu fjölskyldunnar gekk ekki eftir. Ný lög í Tékklandi ollu því að einn af drengjunum var ekki löglega laus til ættleiðingar strax. Biðin eftir því valt á 5-6 mánuðum og án þess að blikka auga spurðum við hvort við gætum samt ekki farið út og beðið með drengjunum þar til allir pappírar væru tilbúnir. Það leyfi fékkst, þó með þeim fyrirvara að á meðan dvölinni úti stæði, værðum við með drengina í skammtímafóstri. Það voru því
Lesa meira

Svæði