Fréttir

Aðalfundur 21. mars 2013

Stjórn Íslenskrar ættleiðingar, boðar til aðalfundar sem haldinn verður í hátíðarsal Tækniskóla Íslands (gamla Sjómannaskólanum), Háteigsvegi, fimmtudaginn 21. mars 2013, kl. 20:00.

Samkvæmt samþykktum félagsins er dagskrá fundarins sem hér segir:
1. Skýrsla stjórnar.
2. Ársreikningur félagsins fyrir liðið starfsár lagður fram til samþykktar.
3. Kjör stjórnar.
4. Ákvörðun árgjalds.
5. Lagabreytingar.
6. Önnur mál.

Um stjórnarkjör:
Kosið verður um fjögur sæti stjórnarmanna að þessu sinni Hafa sitjandi stjórnarmenn þau Ágúst Guðmundsson, Árni Sigurgeirsson, Anna Katrín Eiríksdóttir og Vigdís Ósk Sveinsdóttir öll tilkynnt að þau gefi kost á sér til stjórnarsetu áfram.

Samkvæmt núgildandi samþykktum skal kjósa um eitt sæti varamanns á þessu ári en bent er á að síðar á dagskrá fundarins, undir liðnum lagabreytingar, er lagt til að ákvæði um að varamenn í stjórn falli út úr samþykktum félagsins.

Vakin er athygli á að framboðsfrestur til stjórnarkjörs er samkvæmt samþykktum félagsins til klukkan 20 þann 7. mars og skal senda framboð til skrifstofu félagsins á netfangið isadopt@isadopt.is.

Um lagabreytingar:
Starfshópur um lagabreytingar starfaði frá því í desember en til hans var stofnað eftir kynningu á aðalfundi og á heimasíðu félagsins. Tillögur hópsins bárust stjórn félagsins innan frests sem tilskilinn er í samþykktum félagsins og verða þær bornar upp á aðalfundinum.
Lagðar eru til fjórar meginbreytingar en þær felast í eftirfarandi atriðum:

Lagt er til að fellt sé út ákvæði sem gerir ráð fyrir að einstök barnaheimili erlendis séu styrkt af félaginu en það samræmist ekki framkvæmd ættleiðinga samkvæmt Haagsamningnum og er einnig á skjön við ættleiðingarlög sumra ríkja sem félagið er í samskiptum við.

Lagt er til að kjörnefnd kanni þekkingu þeirra sem bjóða sem fram til stjórnarsetu á málaflokknum til samræmis við reglugerð um ættleiðingarfélög.

Lagt er til að einstaklingar séu félagsmenn en ekki heilar fjölskyldur og verði félagsgjald lækkað til samræmis við það.

Lagt er til að ákvæði um varamenn í stjórn falli út. Önnur ákvæði eru að mestu orðalagsbreytingar til skýringar eða einföldunar.


Svæði