Fréttir

Kynning á frambjóðendum í stjórn Íslenskrar ættleiðingar

Aðalfundur félagsins verður haldinn þriðjudaginn 6. mars kl. 20:00 á Hótel Hilton.  

Á fundinum mun Elísabet Hrund Salvarsdóttir formaður félagsins fara yfir það helsta sem hefur drifið á daga félagsins á síðasta ári.  

Undanfarin ár hefur verið sjálfkjörið í stjórn félagsins og því ekki þurft að kjósa á milli frambjóðenda. Nú eru þrjú sæti til kjörs í stjórn félagsins og frambjóðendurnir fjórir. Það mun því þurfa að kjósa á milli frambjóðenda sem bjóða sig fram að þessu sinni.  

Kynning á frambjóðendum:

Ég heiti Ari Þór Guðmannsson og bíð mig fram í stjórn Íslenskrar ættleiðingar í annað sinn. Ég hef verið stjórnarmaður Íslenskar ættleiðingar síðastliðið eitt og hálft ár. Einnig er ég aðalfulltrúi Íslands í Eurodopt og varafulltrúi í Nordic adoption council (NAC). Sem fulltrúi í alþjóða samstarfi lærir maður mikið um ættleiðingar og reyni ég að deila þeirra reynslu til starfsfólks, félagsmanna og annarra. Ég sæki ráðstefnur og fundi reglulega á vegum Eurodopt og NAC til að öðlast frekari hæfni á málaflokknum. Ég hef mjög mikinn áhuga á ættleiðingarmálum og reyni að vera mjög virkur tengdum þeim. Einnig sinni ég nokkurri vinnu fyrir félagið svo sem aðstoða við tæknimál og annað sem þarf til. Ég á einn ættleiddan strák frá Tékklandi og er hann 5 ára. Ég mun berjast fyrir því að halda áfram með það góða starf sem unnið hefur verið hjá Íslenskri ættleiðingu. 

 

Ingibjörg Valgeirsdóttir heiti ég og býð mig fram í stjórn Íslenskrar ættleiðingar. Ég er bæði lánsöm og þakklát móðir hennar Hrafnhildar Kríu sem er fædd árið 2004 í Yangjiang í Guangdong-héraði í Suður-Kína. Við Jónas Gylfason eiginmaður minn ættleiddum Hrafnhildi Kríu árið 2006, en fyrir áttum við einn son, Sölva Þór Jónasson sem er fæddur árið 1990. Unnusta Sölva Þórs er Martha María Einarsdóttir og eiga þau eina litla dóttur sem fæddist 10. febrúar s.l.  

Ég er uppeldis- og menntunarfræðingur að mennt með fjölmiðlafræði sem aukagrein og MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Í MBA-náminu tók ég skiptinám í Shanghai, sem var einstakt tækifæri til að flytja með fjölskyldunni til Kína, kynnast upprunalandi dóttur okkar betur og skapa þar dýrmætar minningar með henni.  Ég starfa sem framkvæmdastjóri öldrunar- og heimaþjónustu Garðabæjar og hef allan minn starfsferil unnið að samfélagslegum verkefnum og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum.  

Mig langar til að leggja mitt af mörkum í starfi fyrir félagið sem breytti lífi mínu og fjölskyldu minnar og hefur haft afgerandi áhrif á líf svo margra. Því hef ég tekið ákvörðun um að bjóða mig nú fram í stjórn Íslenskrar ættleiðingar.  

Ég heiti Sigrún Eva Grétarsdóttir er 36 ára gömul. Ég er með BA próf í félagsráðgjöf, diplómu í leikskólakennarafræðum og stunda núna MA nám í náms- og starfsráðgjöf. Ég er gift Bjarna Magnúsi Jóhannessyni hagfræðingi og sonur okkar er Veigar Lei fæddur í Kína árið 2013 en við ættleiddum hann sumarið 2014. Ég hef starfað við kennslu bæði í leik- og grunnskóla. Verið deildarstjóri og aðstoðarleikskólastjóri á leikskóla og sinnt umsjónarkennslu á unglingastigi í grunnskóla. Þá hef ég sinnt formennsku í slysavarnardeild og setið í stjórn í Félagi stjórnenda í leikskólum á austurlandi auk þess að vera í ráði hjá íþróttafélagi. Í vetur hef ég verið í skemmtinefnd ÍÆ. Málefni ættleiddra barna brenna sérstaklega á mér en bæði er ég móðir ættleidds barns og svo á ég líka tvö lítil frændsystkin sem eru ættleidd frá Tékklandi. Mig langar mikið að taka þátt og leggja mitt af mörkum í það góða starf sem unnið er hjá Íslenskri ættleiðingu og þess vegna býð ég mig fram til stjórnar. 

Ég heiti Sigurður Halldór Jesson og er fæddur 10. mars árið 1970 og verð því 48 ára þessu ári. Ég útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands með B.ed próf árið 1993 og hef starfað sem grunnskólakennari í 25 ár. 
Ég er kvæntur Guðbjörgu Grímsdóttur og eigum við tvo stráka ættleidda frá Kína. Þeir komu til okkar 2010 og 2011. Sá eldri er að verða 8 ára og sá yngri að verða 6 ára. Við höfum búið á Selfossi frá árinu 2004. 
Ég hef talsverða reynslu af stjórnarstörfum í öðrum félögum, m.a. Félagi grunnskólakennara þar sem ég er stjórnarmaður kjörin til ársins 2018. 
Undanfarin tvö ár hef ég setið í stjórn ÍÆ og hefur mér líkað það vel. Vil bjóða fram krafta mína áfram fyrir félagið mitt og sinna málefnum félagsins okkar. 


Svæði