Fréttir

Eyjan/Pressan - Heimilt að ættleiða frá Rússlandi. Samningur í undirbúningi eftir fund utanríkisráðherra í Moskvu

Össur og Lavrov áttu fund í Moskvu í dag.
Össur og Lavrov áttu fund í Moskvu í dag.

Á fundi utanríkisráðherra Íslands og Rússlands í Moskvu í gær sammæltust þeir um að gera samning milli ríkjanna um ættleiðingar rússneskra barna til Íslands.

Össur Skarphéðinsson sagði í samtali við Eyjuna að hann hefði fyrst ámálgað þetta við Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, á fundi þeirra í Osló á síðasta ári og oft við rússneska sendifulltrúa síðan. Hann væri ráðherranum þakklátur fyrir undirtektirnar enda væru miklar tafir á ættleiðingum til Íslands.

Nú væri málið komið á það stig að Rússar hefðu „galopnað dyrnar“ og væru reiðubúnir til að gera samning. Það yrði fyrst og fremst verkefni innanríkisráðuneytisins, en Lavrov hefði lofað að setja sitt besta fólk í að klára samninginn og flýta honum sem mest. Össur sagði að Rússar hefðu nýlega gert samkomulag um að hefja gerð formlegs samnings við Frakka um ættleiðingar, og myndu Íslendingar örugglega geta sætt sig við sama form og þeir.

„Ég er ákaflega glaður yfir þessu. Við höfum ekki haft samkomulag við Rússa, en ég hef átt þátt í því sem utanríkisráðherra, og raunar fyrr, í að greiða fyrir nokkrum ættleiðingum frá Rússlandi sem hafa tekist ákaflega vel. Sömuleiðis hef ég sagt Íslenskri ættleiðingu að sendiráðið í Moskvu sé boðið og búið til að aðstoða á alla lund, og ég hef líka séð til þess að af ráðstöfunarfé ráðuneytisins hefur fjármagni verið veitt til þess að styrkja félagið í að ganga frá sínum enda í Rússlandi.

Rússar eru með harðari kröfur en margar þjóðir, orða það til dæmis við bæði okkur og Frakka að börn sem ættleidd eru eigi kost á því að hafa tvöfalt ríkisfang. Ég veit ekki hvaða máli það skiptir í samanburði við þá hamingju barnlausra að eignast loksins barn. Ég þekki af eigin raun hvað það yfirgnæfir allt annað. Svo ég er giska glaður í dag,“ sagði Össur í samtali frá Moskvu.


Svæði