Fréttir

Mbl - Ættleiddum börnum fækkar milli ára

Þeim börnum sem ættleidd eru til Íslands hefur fækkað til muna sl. ár miðað við það sem áður var. Þannig voru samtals 34 börn ættleidd til Íslands árið 2005 í gegnum Íslenska ættleiðingu, árið 2006 voru þau aðeins 8 og í fyrra samtals 13. Íslensk ættleiðing er, enn sem komið er, eina félagið sem hefur löggildingu dómsmálaráðuneytis til þess að annast alþjóðlegar ættleiðingar. Nýverið var sótt um löggildingu fyrir félagið Alþjóðlega ættleiðingu og er sú beiðni til meðferðar í ráðuneytinu.

Að sögn Ingibjargar Jónsdóttur, formanns Íslenskrar ættleiðingar, hafa alls verið ættleidd til Íslands um 500 börn fædd erlendis. Íslensk ættleiðing, sem hefur starfað síðan 1978, er með samstarfssamninga við Indland, Kína, Kólumbíu, Tékkland og Taíland, en flest barnanna hafa síðustu ár komið frá Kína og Indlandi. Að sögn Ingibjargar hefur biðtíminn eftir börnum því miður verið að lengjast á sl. árum. Þannig hafi biðtíminn farið úr því að vera 1½-3 ár í að vera 4½ ár. Aðspurð segir Ingibjörg það reynast mörgum erfitt að þurfa að bíða svo lengi því það skapi eðlilega nokkurn kvíða.

Alls eru nú um 120 fjölskyldur á biðlista hérlendis sem hlotið hafa forsamþykki sýslumannsins í Búðardal, sem veitir leyfi til ættleiðinga að fenginni umsögn barnaverndarnefndar. Meðal helstu krafna stjórnvalda, sem sýslumaðurinn sér um að staðreyna, eru að umsækjendur séu á aldrinum 25-45 ára, andlega og líkamlega hraustir, hafi ekki sakaferil og geti framfleytt fjölskyldu með góðu móti.

Nánar er fjallað um málið í Mogunblaðinu í dag,


Svæði