Fréttir

Mbl - Kólumbísku stúlkurnar leika sér á íslensku

Hjón sem ættleiddu systur frá Kólumbíu bíða þess enn að málið fari fyrir dómstóla svo þau komist heim. Stúlkurnar eru farnar að tala íslensku og hafa myndað sterk tengsl við fjölskylduna. Önnur íslensk hjón eru nú í Kólumbíu vegna ættleiðingar en ekki er búist við öðru en að þau komist fljótt heim.

„Það eru allir í liði með þessari fjölskyldu svo ég er algjörlega sannfærður um að þetta fari vel, en það er auðvitað meira en að segja það að vera í burtu allan þennan tíma," segir Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri félagsins Íslensk ættleiðing.  

Stelpurnar teknar ef málið fer fyrir hæstarétt

Eins og áður hefur verið sagt frá á mbl.is fóru hjónin Friðrik Kristinsson og Bjarnhildur Hrönn Níelsdóttir út hinn 16. desember í fyrra og væntu þess að geta farið heim með ættleiddar dætur sínar að 6 viknum liðnum eins og vaninn er. Í millitíðinni snerist kólumbískum yfirvöldum hugur og meinuðu þeim að yfirgefa landið með börnin. Fjölskyldan hefur því beðið í pattstöðu í hátt í 9 mánuði en næsta skref er að málið fari fyrir æðra dómstig af tveimur innan héraðsins.

„Dómstigin í Kólumbíu eru mörg og það var ekki sjálfgefið að þessi réttur tæki málið. Þegar það var samþykkt klöppuðum við saman lófum, því það skiptir máli að halda þessu innan héraðsins því á meðan þetta fer ekki fyrir hæstarétt landsins þá fá þau að hafa stelpurnar hjá sér. Stelpurnar eru náttúrlega búnar að læra að treysta þeim og að klippa á þau tengsl, jafnvel þótt það væri ekki nema í stuttan tíma, gæti haft ófyrirséðar afleiðingar,“ segir Kristinn.

Sterk fjölskyldutengsl hafa myndast

Bæði íslenskum og kólumbískum reglum um ættleiðingar var að sögn Kristins fylgt í hvívetna í ferli þeirra hjóna, sem hafa beðið í 5 ár eftir að ættleiða börn. „Það er ekkert óeðlilegt í ferlinu, þau hafa ekki gert neitt rangt og það sem skiptir auðvitað mestu er að kólumbíska ættleiðingamiðstöðin, ISBF, hefur lýst því yfir að hún vilji að niðurstaða þessa máls sé jákvæð fyrir þau. Enda er þessi fjölskylda mjög frambærileg. Við þekkjum það alveg í þessum ættleiðingaheimi að fólk sem lendir í óöruggum aðstæðum heldur oft aftur af sér við að mynda tengsl við barnið, því ef þetta myndi enda illa er það auðvitað bara eins og að missa barn, en þau halda ekkert aftur af sér."


Svæði