Fréttir

MBL - Samkynhneigðir geta ekki ættleitt frá útlöndum

Anna Pála Sverrisdóttir er formaður Samtakanna 78.
Anna Pála Sverrisdóttir er formaður Samtakanna 78.

Samkynhneigðir geta ekki ættleitt börn sem fædd eru erlendis þar sem engir samningar eru við önnur ríki þess efnis. Formaður Samtakanna '78 kallar eftir því að stjórnvöld sýni vilja í verki og leiti samninga við önnur ríki. Öðrum kosti sé samkynhneigðum mismunað þegar kemur að þessum málaflokki.

Eins og fram hefur komið voru sjónvarpsmaðurinn Sindri Sindrason og eiginmaður hans fyrsta samkynhneigða parið til þess að ættleiða barn á Íslandi. Ættleiðingin gekk í gegn sex árum eftir að lög sem heimiluðu ættleiðingar samkynhneigðra fegnu samþykki.

Sindri og eiginmaður hans höfðu sótt um að fá fósturbarn hjá barnaverndaryfirvöldum haustið 2011 og fengu samþykki eftir mikla og nákvæma skoðun á högum þeirra ári síðar. 

Ættleiðingar erlendis frá ekki mögulegar

Lög sem heimila samkynhneigðum að ættleiða börn voru samþykkt á Íslandi árið 2006 og því liðu sex ár áður en fyrsta ættleiðingin gekk í gegn.

Anna Pála Sverrisdóttir formaður Samtakanna 78 segir að möguleikar samkynhneigðra til ættleiðinga séu færri en gagnkynhneigðra. „Við búum við mismunun varðandi það að ættleiðingar erlendis frá eru ekki mögulegar. Það er reyndar ekki vegna vegna þess að einhver bein fyrirstaða sé hérlendis, heldur þarf að gera ættleiðingarsamning við erlend ríki sem heimila ættleiðingar á milli landa,“ segir Anna Pála.

 

 Hún bendir á að ættleiðingar innanlands séu fáar og því séu möguleikar samkynhneigðra til ættleiðinga minni en gagnkynhneigðra. Íslensk ættleiðing er eina ættleiðingarfélagið hérlendis og Anna Pála telur að stjórnvöld þurfi að styðja betur við það varðandi ættleiðingar hinsegin fólks. „Stjórnvöld þurfa að styðja félagið með því að gera samninga við önnur ríki og heimila með því ættleiðingar á milli landa. Framkvæmd löggjafarinnar er í höndum ættleiðingarfélagsins, en ríkið þarf að hafa milligöngu. Jákvæðni ríkir í garð þessa málaflokks en það er mikilvægt að pólitískur vilji sé sýndur í verki t.a.m. með því að nægir starfskraftar séu í þessum málum,“ segir Anna Pála.

Fólk þarf að láta vita

Að sögn Önnu geta samkynhneigðir hvergi í heiminum ættleitt börn frá öðru landi. „Ég held að það sé tímaspursmál hvenær svo verður og mér finnst að Íslendingar eigi að sýna frumkvæði í þessum málum,“ segir Anna Pála.

Hún segir að margir samkynhneigðir hafi sent fyrirspurnir vegna ættleiðinga en færri hafi formlega sóst eftir því vegna þess langa tíma og þunga ferlis sem fólk þarf að ganga í gegnum. „Það sem þarf að gerast er að fólk láti vita af því að það hafi áhuga því nú eru tækifærin vondandi að opnast,“ segir Anna.      

Sjá einnig: Fyrstir til að ættleiða barn

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/06/27/geta_ekki_aettleitt_fra_utlondum/


Svæði