Fréttir

MBL - Segja barnið fá brenglaða sýn á lífið

Rússar hyggjast nú þrengja lög um ættleiðingar í landinu enn frekar. Með lagabreytingunni verður einstaklingum frá löndum þar sem hjónabönd samkynhneigðra eru leyfð samkvæmt lögum ekki heimilað að ættleiða rússnesk börn. 

Ef frumvarpið verður að lögum gæti það komið í veg fyrir að einstaklingar í fjölda landa fái að ættleiða munaðarlaus rússnesk börn, jafnvel þó fólkið sé ekki gift. 
Talið er líklegt að frumvarpið fari hratt og örugglega í gegnum þriðju umræðu á þinginu og hefur forseti Rússlands, Vladimir Pútín, þegar heitið að skrifa undir lögin. 
Frumvarpið fylgir í kjölfar lagabreytingar á síðasta ári þar sem bandarískum ríkisborgurum bannað að ættleiða börn frá Rússlandi. Lagabreytingunni var mótmælt víða um heim.

Gagnkynhneigð hjón mega þó enn ættleiða börn, jafnvel þó að þau búi í landi sem heimilar hjónabönd samkynhneigðra. Einhleypt fólk fellur aftur á móti undir bannið, óháð því hvort það er samkynhneigt eða gagnkynhneigt. „Barn á að hafa bæði móður og föður,“ segir þingmaðurinn Sergei Zheleznyak. „Ef barn endar hjá samkynhneigðu pari gæti það að sjálfsögðu valdið alvarlegum skaða og barnið gæti endað með brenglaða sýn á lífið.“

Hjónabönd samkynhneigðra eru í dag leyfð í fjórtán löndum, þar á meðal á Íslandi, í Kanada, í Belgíu, Noregi og Svíþjóð.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2013/06/18/segja_barnid_fa_brenglada_syn_a_lifid/


Svæði