Fréttir

Morgunblaðið - Finna foreldra fyrir börnin

Matthildur og Karólína Ágústdætur
Matthildur og Karólína Ágústdætur

HAGSMUNIR BARNSINS HAFÐIR AÐ LEIÐARLJÓSI

Finna foreldra fyrir börnin

ÞAÐ ERU BÆÐI FJÖLMARGAR OG MJÖG SVO ÓLÍKAR ÁSTÆÐUR FYRIR ÞVÍ AÐ FÓLK TEKUR ÞÁ ÁKVÖRÐUN AÐ ÆTTLEIÐA BARN. ÞEIR ÍSLENDINGAR SEM SÆKJAST EFTIR ÞVÍ AÐ ÆTTLEIÐA BÖRN UTAN ÚR HEIMI GERA ÞAÐ MEÐ MILLIGÖNGU ÍSLENSKRAR ÆTTLEIÐINGAR. Í ÞESSU FERLI ERU HAGSMUNIR BARNSINS HAFÐIR AÐ LEIÐARLJÓSI OG MARKMIÐIÐ ALLTAF AÐ FINNA BARNINU GOTT OG ÁSTRÍKT HEIMILI.
Signý Gunnarsdóttir
signy@mbl.is

Hlutverk okkar er ekki að finna börn fyrir foreldra heldur að finna foreldra fyrir börn. Þeir sem koma til okkar í viðtal eru yfirleitt fólk sem vill ættleiða barn sem fyrst. Maður verður samt að gæta þess að það eru alltaf réttindi barnsins að eignast fjölskyldu en það eru ekki mannréttindi að eignast barn“ segir Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar. Íslensku lögin eru ágæt og þau gera ekki greinarmun á stöðu fólks. Jafnt giftir, sambúðarfólk, einhleypir og samkynhneigðir á aldrinum 25-45 ára geta sótt um að ættleiða barn og er tekið á móti öllum umsóknum. Umsækjendur þurfa að átta sig á að regluverkið er tvískipt, annars vegar eru íslenskar reglur og hins vegar reglur í upprunaríkjum barnanna og þessar reglur geta stangast á. Þó að umsækjendur séu komnir með leyfi íslenskra stjórnvalda til að ættleiða er ekki sjálfgefið að upprunaríki barnanna taki á móti umsóknunum eins og á við í tilfellum samkynhneigðra. „Ekkert okkar samstarfslanda tekur á móti umsóknum samkynhneigðra og þekkjum við ekki neitt land sem gerir það. Við erum samt sem áður með samkynhneigða félagsmenn sem óska eftir að fá að ættleiða barn og við spyrjumst reglulega fyrir um umsóknir samkynhneigðra í samstarfslöndum okkar,“ segir Kristinn þegar hann er spurður út jafnan rétt félagsmanna. Aldurstakmörkunin á Íslandi er 25-45 ár en liggi forsamþykki fyrir þá getur það gilt til fimmtugs. Oftast er miðað við þann sem yngri er þegar pör eða hjón sækja um ættleiðingu.

Nýlega afgreiddar umsóknir sem bárust 2006
Undafarin ár hefur dregið mjög úr ættleiðingum frá Kína til Íslands sem er þó enn það land sem flestir ættleiða frá. Kristinn segir að margt spili þar inn í eins og það að fjárhagur almennings í Kína er að vænkast og því fleiri Kínverjar sem eiga kost á því að eiga fleiri en eitt barn, ættleiðingar innan Kína hafa aukist og fjöldi umsókna í Kína frá öðrum löndum hefur að sama skapi aukist síðustu ár. Biðlistinn eftir að ættleiða barn frá Kína hefur því lengst verulega. Þegar sú ákvörðun hefur verið tekin að ættleiða barn getur biðin verið löng og ströng. Nú nýlega voru afgreiddar umsóknir í Kína sem voru mótteknar í október 2006. Það má samt geta þess að sólarhringur er stysti biðtími hjá Íslenskri ættleiðingu. Í því tilfelli var fjölskylda að sækja um að ættleiða barn með skilgreindar þarfir. Sólarhring eftir að umsóknin barst til Kína var barninu úthlutað íslenskum foreldrum og þremur mánuðum eftir að foreldarnir fengu tilkynningu um að barnið væri þeirra lögðu þau í ferð til Kína til að ná í barnið.
  Hægt er að flýta örlítið fyrir biðinni með því að samþykkja að ættleiða barn með skilgreindar þarfir. „Fólk tekur þá yfirleitt meðvitaða ákvörðun um að það ætli að ættleiða barn með skilgreindar þarfir. Börn hafa vissulega ólíkar þarfir og fylla foreldrarnir út ákveðinn lista og merkja við hvað þeir treysta sér í að takast á við. Þetta er afar mikilvægt af því að þetta snýst alltaf um að fjölskyldan sé tilbúin í þetta verkefni sem hún er að ráðast í. Það vilja allir að fjölskyldan taki upplýsta afstöðu af því að það skiptir svo miklu máli að barnið sé velkomið og samþykkt eins og það er. Þegar möguleiki er að ættleiða barn með skilgreindar þarfir getur fólk fengið viðtal hjá Gesti Pálssyni barnalækni. Sá maður er eiginlega í guðatölu hjá okkur í félaginu en hann hefur tekið á móti öllum ættleiddum börnum sem hafa komið til landsins frá árinu 1981. Mikið af hans starfi fyrir okkur gerir hann í sjálfboðavinnu og ef einhver ætti að fá fálkaorðuna þá er það hann. Gestur er félaginu til ráðgjafar um hvort ráðlegt sé að halda áfram með tiltekna ættleiðingu, en sú ákvörðun er ávallt tekin með hag barnsins að leiðarljósi,“ segir Kristinn.

Fallegur málaflokkur sem á sína skuggahlið
Fyrir ekki svo mörgum árum gat fólk valið á milli þess að leita á eigin forsendum út fyrir landsteinana til þess að ættleiða barn eða að gera það í gegnum milligöngu Íslenskrar ættleiðingar. Það hefur nú verið tekið fyrir sjálfstæðar ættleiðingar og eingöngu hægt að fara í gegnum viðurkennt félag, en hvers vegna? „Í ættleiðingarferlinu er hagur barnsins alltaf í fyrirrúmi og þess vegna var tekið fyrir sjálfstæðar ættleiðingar. Í þeim tilfellum var erfiðara að fylgjast með ferlinu og barninu og þeirri skilmerkilegu reglu að peningar eigi ekki að spila neina rullu. Með því að ættleiða í gegnum félög er verið að reyna eins og mögulegt er að koma í veg fyrir sölu á börnum. Þessi málaflokkur er óskaplega fallegur, það er verið að finna fjölskyldur fyrir munaðarlaus börn. Það er samt skuggahlið á þessum málaflokki sem má ekki gleyma því hún er eins hræðileg og mögulega getur orðið,“ svarar Kristinn.

Morgunblaðið - Finna foreldra fyrir börnin


Svæði