Fréttir

Morgunblaðið - Ný lög um styrki vegna kostnaðar við ættleiðingu barna erlendis frá hjálpar nýjum fjölskyldum

Björg Kjartansdóttir
Björg Kjartansdóttir

Fjölskyldan |
Ný lög um styrki vegna kostnaðar við ættleiðingu barna erlendis frá
Hjálpar nýjum fjölskyldum 

Alþingi samþykkti á dögunum frumvarp félagsmálaráðherra um lög um ættleiðingarstyrki. Björg Kjartansdóttir er deildarsérfræðingur í Félagsmálaráðuneytinu: „Með lögunum eiga þeir sem ættleiða börn erlendis frá þess kost að fá styrk frá hinu opinbera til að mæta kostnaði við ættleiðingarferlið,“ segir Björg.
  Það er mjög kostnaðarsamt að ættleiða börn erlendis frá: „Bæði þarf að standa straum af ýmsum opinberum gjöldum í hinu erlenda ríki og sömuleiðis af kostnaðarsömum ferðalögum,“ segir Björg. „Samkvæmt upplýsingum frá Félagi íslenskrar ættleiðingar, sem er eina löggilta ættleiðingarfélagið á Íslandi, er kostnaður við ættleiðingu að jafnaði frá 1,3 til 1,5 milljónum króna. Þá má ætla að stór hluti þeirra sem ættleiða barn erlendis frá hafi áður borið kostnað af tæknifrjóvgunum. Er því ljóst að um töluverðan kostnað er að ræða fyrir fjölskylduna.“
  Styrkurinn sem um ræðir nemur 480 þúsund krónum og skal fjárhæð styrksins endurskoðuð í tengslum við afgreiðslu fjárlaga á tveggja ára fresti. Styrkurinn er óháður tekjum og sömuleiðis óháður því hvort ættleiðendur eru par eða einstaklingar. „Styrkurinn er veittur í formi eingreiðslu þegar erlend ættleiðing hefur verið staðfest hér á landi og er styrkurinn greiddur með greiðslu úr fæðingarorlofssjóði,“ segir Björg. „Starfshópurinn hafði það að markmiði við samningu frumvarpsins að lágmarka kostnað stjórnkerfisins við alla umsýslu tengda ættleiðingarstyrkjum, og var því meðal annars farin sú leið að fela Vinnumálastofnun umsjón með greiðslu styrkjanna, en stofnunin annast einnig greiðslur úr fæðingarorlofssjóði.“
  Ættleiðingarstyrkir eru þegar í boði á öllum hinum Norðurlöndunum: „Sá styrkur sem veittur er á Íslandi er þó í hærri kantinum miðað við nágrannalönd okkar. Í Finnlandi eru styrkirnir á milli 167 og 396 þúsund krónur, reiknað á gengi septembermánaðar, á meðan Færeyjar veita hæstan styrk sem nemur um 590 þúsund krónum. Danir, hins vegar, eru nær okkur og veita styrk að upphæð tæplega 475 þúsundum.“
  Undanfarin ár hafa að jafnaði um 25 börn verið ættleidd til Íslands erlendis frá: „Gert er ráð fyrir að með lögunum verði fleirum gert kleift að ættleiða börn en hingað til hefur verið,“ segir Björg. „Evrópskar rannsóknir hafa sýnt fram á að ættleið- ingum erlendra barna fjölgar í löndum þar sem styrkir af þessu tagi hafa verið teknir upp og því ljóst að fjárhagsleg byrði vegna ættleiðingarferlisins hefur veruleg áhrif.“
  Nýju lögin taka gildi 1. janúar og ná lögin til allra ættleiðinga sem lýkur eftir þann tíma en ekki til ættleið- inga sem þegar er lokið. Þannig eiga rétt til styrks, samkvæmt lögunum, kjörforeldrar barna sem ættleidd eru eftir gildistöku laganna. Nýju lögin má finna á www.felagsmalaraduneyti.is.

Morgunblaðið - Ný lög um styrki vegna kostnaðar við ættleiðingu barna erlendis frá hjálpar nýjum fjölskyldum 

Björg Kjartansdóttir fæddist í Reykjavík 1967. Hún lauk stúdentsprófi frá MS 1988, B.A gráðu í sálfræði frá HÍ 1999 og hlaut sama ár starfsréttindi í félagsráðgjöf frá sama skóla. Árið 2000 lauk Björg mastersnámi í evrópusamanburðarfélagsfræði frá Maastrichtháskóla og diplómanámi í frönsku frá Strassborgarháskóla 2001. Björg starfaði við rannsóknir hjá Evrópuráðinu í Strassborg, síð- ar hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar og hóf árið 2002 störf sem deildarsérfr. hjá Félagsmálaráðun. Björg er gift Benedikt Stefánssyni.


Svæði