Fréttir

Rúv.is - Ættleiddir Írar fá að leita uppruna síns

James Reilly  Mynd: EPA
James Reilly Mynd: EPA
Tugum þúsunda ættleiddra Íra verður heimilt að leita uppruna síns samkvæmt lagafrumvarp sem lagt verður fyrir írska þingið á næstunni. Fari frumvarpið í gegn fær fólkið aðgang að fæðingarvottorðum sínum.
 

Samkvæmt alþjóðalögum eiga öll börn rétt á að leita uppruna síns en ættleiddum Írum, sem margir hverjir voru ættleiddir í leyni af kaþólskum stofnunum, hefur ekki verið gefinn kostur á því hingað til. Úrskurður hæstaréttar á Írlandi frá 1998 um friðhelgi einkalífs mæðra er ástæða þess að síðustu ríkisstjórnir hafa ekki viljað aflétta leynd um ættleiðingar í landinu. James Reilly, ráðherra velferðarmála barna, sagði að allir ættleiddir Írar hafi lögbundinn rétt til þess að sjá fæðingarvottorð sitt, þegar hann kynnti frumvarpið í gær.

Blóðforeldrar verða að samþykkja að fæðingarvottorðin verði afhent hinum ættleiddu. Liggi samþykki ekki fyrir verður hinn ættleiddi að skrifa undir lögbundna yfirlýsingu um að hann muni ekki hafa samband við foreldrana.

Ekki er þó víst að allir geti fundið blóðforeldra sína. Réttindasamtök ættleiddra á Írlandi segja að röng nöfn og heimilisföng séu á mörgum fæðingavottorðum og engar upplýsingar seú um föður. Susan Lohan, einn stofnenda samtaka um réttindi ættleiddra á Írlandi, segir þó ekkert sérstakt tilefni vera til þess að fagna á þessari stundu. Sérstaklega ef litið sé til þess hversu margar mæður séu á dánarbeði og margir hinna ættleiddu séu einnig ornir hrumir og gamlir.

Rúv.is - Ættleiddir Írar fá að leita uppruna síns


Svæði