Fréttir

ruv.is - Foreldrar leita barna sem hefur verið rænt

Árlega hverfa þúsundir barna í Kína en mörg þeirra eru seld til ólöglegrar ættleiðingar. Flestir gefa aldrei upp vonina um að finna börnin sín. 
 

Foreldrar hinna týndu barna koma reglulega saman til að vekja máls á þessu samfélagsmeini. Þó fjölmennar mótmælasamkomur séu bannaðar í Kína horfa stjórnvöld í gegnum fingur sér þegar foreldrarnir koma saman með myndir af börnum sínum. 

„Ég var að versla í matinn og leyfði syni mínum að leika við tvö önnur börn á meðan. Honum var rænt en hann var fjögurra ára gamall,“ segir móðir.

Vandamálið er sem fyrr segir útbreitt.

„Það er markaður fyrir þetta í Kína. Sumir ræna börnum á meðan aðrir eru til í að gera nánast hvað sem er til að útvega sér barn,“ segir Wang Ming Ging. 

Saga Wang endaði þó vel. Árið 1994 var þriggja ára dóttur hans rænt úti á götu um hábjartan dag. Hann gaf aldrei upp vonina og á endanum bar leitin árangur. Eftir 24 ára leit hafði hann upp á dóttur sinni, sem þá var búsett einungis 20 kílómetrum frá heimili hans. 

En það eru ekki bara foreldrarnir sem leita barna sinna. Sum barnanna leita líka svara, líkt og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. 

ruv.is - Foreldrar leita barna sem hefur verið rænt


Svæði