Fréttir

VÍSIR - Ættleiðingarnámskeið verða haldin að nýju

nordicphotos/getty
nordicphotos/getty

Íslensk ættleiðing hyggst hefja undirbúningsnámskeið fyrir verðandi kjörforeldra á nýjan leik í þessum mánuði. Námskeiðin hafa legið niðri síðan í apríl vegna fjárskorts. Seta á undirbúningsnámskeiði er forsenda fyrir því að hægt sé að gefa út forsamþykki fyrir ættleiðingu og senda umsóknir fólks úr landi. 

Fulltrúar Íslenskrar ættleiðingar og innanríkisráðuneytisins skrifuðu á fimmtudag undir samkomulag þess efnis að ættleiðingarfélagið haldi undirbúningsnámskeið næstu fimm árin. „Sem er frábært, við erum þá komin með það fast í hendi. En þetta helst auðvitað í hendur við fjárlögin, þetta þýðir í raun og veru ekkert nema í samhengi við þau. Þetta er svona milliskref, mjög ánægjulegt," segir Kristinn Ingvarsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar. 

Félagið fær samkvæmt fjárlagafrumvarpinu 9,1 milljón til að starfa á næsta ári, en forsvarsmenn þess hafa sagt að um fjörutíu milljónir til viðbótar þyrfti til að það geti starfað eðlilega. Kristinn bindur vonir við það að fjárframlög til félagsins verði hækkuð í meðförum þingsins á fjárlagafrumvarpinu.

Undirbúningsnámskeiðunum var hætt í apríl sökum fjárskorts og innanríkisráðuneytinu var tilkynnt um þetta. Ráðuneytið og félagið hafa átt í viðræðum um breytingar á fjárframlögum frá árinu 2009. 

Kristinn gerir ráð fyrir því að fyrsta námskeiðið verði haldið í seinni hluta nóvember. Sálfræðingur sem sér um námskeiðið mun um helgina hefja undirbúning með kennurum á námskeiðinu. 

Rúmlega þrjátíu hafa beðið þess að komast á undirbúningsnámskeið síðustu mánuði, en Kristinn segir að margt hafi getað breyst í lífi fólksins á þessum tíma. Þá hafi fólk ekki verið að leggja inn umsóknir til félagsins á meðan það vissi af biðstöðunni og því gæti verið að fjöldinn breyttist.

thorunn@frettabladid.is

http://visir.is/aettleidingarnamskeid-verda-haldin-ad-nyju/article/2012711059977


Svæði