Fréttir

visir.is - Fordómar eru að verða áþreifanlegri

Mynd: VÍSIR/ANTON BRINK
Mynd: VÍSIR/ANTON BRINK

Guðný Hrönn skrifar  7. október 2017 08:30

Leikararnir Jónmundur Grétarsson, Tinna Björt Guðjónsdóttir og Hafsteinn Vilhelmsson fara með hlutverk í leikritinu Smán. Leikritið fjallar um fordóma af ýmsu tagi og það viðfangsefni snertir við þeim persónulega þar sem þau eru dökkir Íslendingar og hafa reglulega í gegnum tíðina rekið sig á hindranir vegna húðlitar, ekki síst í heimi leiklistarinnar.


Jónmundur, Tinna og Hafsteinn eru sammála um að markmiðið með að setja leikverkið Smán upp á Íslandi sé meðal annars að vekja fólk til umhugsunar um fordóma sem fela sig gjarnan í undirmeðvitundinni.

Það var Jónmundur sem fékk hugmyndina að því að setja Smán, sem á ensku heitir Disgraced, upp í íslensku leikhúsi. „Verkið sat svo í mér eftir fyrsta lestur og ég var kominn með nóg af öllu sem var að gerast í samfélaginu. Sem listamönnum ber okkur einfaldlega skylda til þess að setja upp verk eins og Smán. Maður vill bara leggja sitt af mörkum,“ segir Jónmundur, alltaf kallaður Jonni. „Ég sá strax að þetta er verk sem getur haft áhrif. Það lætur fólk hugsa um ástandið í heiminum og sömuleiðis líta inn á við og kannski opna augun fyrir leyndum fordómum.“

„Það hefur verið gaman að taka þátt í þessu ferli í kringum verkið. Líka pínu persónulegt fyrir okkur sem erum dökk og höfum fengið að kynnast fordómum, meðal annars í formi þess að vera svo oft „type-cöstuð“ í hlutverk,“ segir Tinna sem notar orðið „type-cast“ til að vísa í þegar leikari er endurtekið ráðinn í hlutverk af sömu tegund vegna einhverrar sérstöðu, í þeirra tilfelli vegna húðlitar.

Spurð nánar út í hvernig sé að vera dökkur leikari á Íslandi hafa þau frá mörgu að segja.

„Það er gaman að fá að taka þátt í þessari sýningu með Þjóleikhúsinu því þau eru að fara nýja leið. Ég veit ekki um aðra sýningu þar sem eru eins margir dökkir leikarar á sviði,“ segir Tinna.
Jonni tekur undir. „Það er líka gaman að karakterarnir sem við leikum eru vel stætt fólk. Það er svolítið ólíkt því sem við erum vön. Þegar við fáum hlutverk þá erum við yfirleitt „type-cöstuð“ og einhverra hluta vegna þá eru þau hlutverk oft fórnalömb, glæpamenn, dópistar, útlendingar og svo framvegis. En í Smán erum við að leika fólk sem hefur náð langt og hefur barist fyrir sínu.“

„Við erum sjö eða átta leikarar á Íslandi sem erum af öðrum kynþætti og við erum vanalega „type-cöstuð“. Við erum bara svolítið á eftir hérna á Íslandi hvað þetta varðar, miðað við til dæmis önnur Norðurlönd,“ útskýrir Jonni. Hann segist vera búinn að átta sig á að það sé enginn að fara að berjast fyrir því að koma fjölbreyttari leikarahóp að í íslensku leikhúslífi, nema þau sjálf. „Það er enginn að fara að gera þetta fyrir okkur. En þetta er það sem við erum að vinna að. Við ætlum að sýna að við getum leikið venjulegt fólk. Hlutirnir þurfa ekki alltaf að snúast um dökk hlutverk og hvít hlutverk. Annars staðar í Evrópu eru hlutirnir komnir lengra. Dökkir leikarar eru að leika Hamlet eða hvað sem er. Við erum íslensk og þetta á ekki að skipta máli.“

Tinna tekur í sama streng. „Algjörlega. Eins og í Bretlandi, þegar það var verið að setja upp Harry Potter, þá var Hermione orðin dökk. Þó við séum komin svona stutt Íslandi þá er samt gaman að vera partur af leiksýningu þar sem verið er að taka þessi fyrstu skref.“

Jonni bendir líka á að þegar fólk sér dökka leikara endurtekið í hlutverkum glæpamanna og ógæfufólks þá geti villandi hugmyndir læðst inn í undirmeðvitund fólks.
„Fólk gleymir gjarnan að þessir miðlar eru svo gríðarlega sterkir og öflugir. Þeir hafa mikil áhrif á hvernig menningin mótast og fólk gerir sér kannski ekki grein fyrir því.“
Hafsteinn kannast við að hafa fengið nokkuð einsleit hlutverk vegna útlitsins. „Sammála. Og þess vegna er alltaf svo gaman að sjá verk þar sem það skiptir ekki máli hvernig leikararnir eru á litinn. Ég man bara eftir að þegar ég var í Kvikmyndaskólanum var ég oft látinn leika ofbeldismann, fíkniefnasala eða eitthvað álíka. En einu sinni sagði ég: „Hey, núna vil ég leika eitthvað annað er vondan gaur.“ Þá var sagt við mig: „Já, já, Haffi minn. Þú leikur kassastarfsmann í Bónus,““ segir hann og hlær og tekur fram að honum þyki samt sem áður mjög gaman að leika glæpamenn og annað í þeim dúr.

„Ég fékk líka símhringingu um daginn og var boðið hlutverk gaurs sem er að smygla. Ég komst ekki í það verkefni en sagði að það mætti hringja í mig aftur. Skömmu síðar var mér boðið annað hlutverk og þá átti ég að vera að stinga lögguna af,“ segir Hafsteinn og skellir upp úr. „Ég meina, vantaði ekki einhvern í hlutverk bankastjóra eða?…?“

Spurð út í hvort þau hafi fengið hlutverk sem snúast ekki um að þau séu dökk svara þau játandi. „Já, já, þetta er alveg að breytast. Núna var ég til dæmis að leika í mynd sem heitir Pity the Lovers og þar leik ég bara einn félagann. En það er bara ótrúlega oft að maður er „type-castaður“.“

 


Í íslensku leikhúsumhverfi eru dökkir leikarar oftar en ekki „type-castaðir“ að sögn Hafsteins, Tinnu og Jonna.VÍSIR/ANTON BRINK
 

Jonni bendir á að þó að þau séu að ræða það sem betur mætti fara þá sé líka mikilvægt að taka fram að öll hafi þau fengið góð hlutverk á ferlinum. „Ég hef til dæmis leikið í tveimur sýningum á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu svo dæmi sé tekið.“

„Þetta er alveg að breytast og það er gaman að sjá breytinguna gerast, hún er hæg en þetta er allt að fara í rétta átt. Ég trúi því innilega að við þrjú gætum einhvern tímann verið í uppsetningu á Njálu til dæmis. Það væri sjúklega gaman,“ segir Tinna.

 

Alvarlegri fordómar
Jonni, Tinna og Hafsteinn hafa síðan þau voru lítil börn fundið fyrir fordómum að einhverju leyti en þau eru sammála um að fordómar séu smátt og smátt að verða áþreifanlegri og alvarlegri. Þess vegna er Smán unnið í samtarfi við Rauða krossinn.

Spurð út í hvernig samstarfið við Rauða krossinn kom til segir Jonni: „Ég ákvað að hafa samband við þau vegna þess að þetta snýst um meira en bara leikritið fyrir mér. Og teymið hjá Rauða krossinum stakk upp á að þetta gæti verið góður vinkill inn í Vertu næs-verkefnið sem þau standa fyrir.“ Þess má geta að það verkefni er áskorun til fólks að koma fram hvert við annað af virðingu óháð uppruna, litarafti og trúarbrögðum.

„Í dag verður maður var við mun áþreifanlegri fordóma,“ segir Tinna. „Fyrir mitt leyti, jú, auðvitað varð maður fyrir einhverjum fordómum sem krakki, því það voru ekki margir dökkir krakkar á Íslandi þegar við vorum að alast upp. En það var samt æðislegt að alast hérna upp,“ útskýrir hún. Hafsteinn og Jonni taka undir með henni.

„En maður var samt oft kallaður „Haffi svarti“ og maður heyrði af „Jonna svarta“,“ segir Hafsteinn sem getur ekki annað en skellt upp úr þegar hann rifjar upp atvik úr æsku. „Maður var bara farinn að trúa því að maður væri einhver körfuboltamaður frá Chicago sko. Maður var alltaf í Jordan-treyju. Dökkur strákur á Íslandi var alltaf bara „from the hood“. Svo sagði maður krökkunum að maður væri frá Sri Lanka og þá spurðu þau hvar það væri í Bandaríkjunum.“

Hafsteinn, Jonni og Tinna hafa mikinn húmor fyrir þessum hugmyndum sem börn þá höfðu gjarnan um dökkt fólk. En þegar talið berst að fordómum fullorðins fólks núna, árið 2017, þá breytist stemningin í hópnum.

„Hlutirnir hafa verið að breytast og fordómar eru að verða öðruvísi,“ segir Jonni. „Það eru nýnasistahópar að spretta upp og það er rosalega ógnvekjandi. Þegar maður var lítill þá var lífið bara geggjað og maður upplifði ekki beint fordóma, frekar fáfræði. En margt af því sem er að gerast núna eru hreinir fordómar. Og það er þess vegna sem leikverkið Smán var skrifað. Eftir að ég varð fullorðinn þá hef ég alveg lent í því til dæmis að maður er að fara inn í lyftu með einhverjum ókunnugum en svo lítur einstaklingurinn á mann og fer í burtu. Þannig að við erum búin að lenda í miklu meiri fordómum núna síðustu tuttugu ár heldur en þegar við vorum lítil.“

Jonni tekur svo skotárásina í Las Vegas fyrr í vikunni sem dæmi. „Þessi mannskæða árás sýnir forréttindi hvíta fólksins. Það er ekki búið að stimpla árásarmanninn sem eitt eða neitt. En um leið og þetta hefði verið dökkur einstaklingur þá hefði umræðan strax breyst og heilu hóparnir hefðu orðið fyrir aðkasti.“

„Og eins með árásina á tvíbura­turnana 11. september. Þá breyttust ekki hlutirnir bara í Bandaríkjunum heldur breyttist allt fyrir fólk eins og okkur. Það lá við að maður væri stoppaður nánast í hvert einasta skipti sem maður fór til útlanda. Hvort sem maður var á leiðinni til eða frá Íslandi. Maður var alltaf tekinn í gegn.“

Tinna kannast líka við þetta.

„Þetta er kallað „random-check“ en maður fór stundum á flugvöllinn mjög tímanlega því maður vissi að maður væri að fara í þetta „random-­check“.“
„Og svo hef ég oft verið spurð út í af hverju ég sé með íslenskt vegabréf þar sem fólk telur mig augljóslega ekki íslenska,“ segir hún.

Hafsteinn bætir við: „En við megum ekki gleyma því að það er til hræðsla og fáfræði annars vegar og svo hreinir fordómar hins vegar. Hræðslan er orðin svo ótrúlega mikil og ég held að þegar maður er stoppaður af tollvörðum eða annað þá sé það ekki vegna þess að þeir séu að reyna að vera vondir. Það er meira af því að þeir eru hræddir og eru bara á nálum.“

 

Átakanlegt og eldfimt efni
Leikarahópurinn er sammála um að Smán sé átakanlegt verk enda er umfjöllunarefnið eldfimt, svo sem trúarbrögð, fordómar og mismunun. „Umræðurnar sem verða um verkið sýna að fólk er virkilega að pæla í innihaldi þess. Áhorfendur taka sig í sjálfskoðun. Og sama með mig. Ég hef alltaf talið mig rosalega fordómalausan, sem ég er, en samt þegar ég las handritið þá sá ég hvað það var margt sem ég vissi ekki eða skildi ekki,“ segir Hafsteinn. „Það var ofboðslega hollt fyrir mig að fara í smá sjálfsskoðun. Maður heldur að maður sé með allt á hreinu en ég komst að því að ég vissi rosalega lítið um íslamstrú, múslima og svo framvegis. Það sem maður hefur heyrt í fjölmiðlum og annars staðar í gegnum árin fer í undirmeðvitundina en svo fer maður að kynna sér hlutina sjálfur og þá breytist kannski viðhorfið,“ útskýrir Hafsteinn.


Jonni er sammála og hvetur fólk til að láta sjónvarpsefni og fjölmiðla ekki mata sig.

„Margir trúa bara því sem þeir sjá og heyra án þess að leita dýpra og kynna sér hlutina betur. Þaðan kemur þessi hræðsla.“
Jonni segir það hafa verið afar krefjandi að takast á við svona eldfimt viðfangsefni. „Þetta var mikil vinna og gríðarlega langt ferli. Við Þorsteinn Bachmann leikstjóri höfum verið að vinna að þessu síðan í byrjun 2015. Þetta var erfitt og ég þurfti reglulega að minna mig á að leikritið snýst ekki um okkur sem einstaklinga. Ég var oft ekki sammála því sem karakterinn minn var að segja og þá þurfti ég að minna mig á að þetta er ekki Jonni sem er að tala, þetta er karakterinn minn. Ég persónulega hefði aldrei getað þetta án Þorsteins. Við tókumst oft mikið á eins og gerist í svona ferli en á bak við það var alltaf ást og virðing. Í ferlinu áttaði ég mig á hversu góður og yndislegur maður hann er og þar að auki stórkostlegur listamaður. Og svo er ekki til betri staður til að setja upp verk eins og Smán heldur en Þjóðleikhúsið. Og við eigum Baltasar Kormáki og Ara Matthíassyni þjóðleikhússtjóra mikið að þakka, sem og Rannís.“

 


Jónmundur, Tinna og Hafsteinn hafa fengið jákvæð viðbrögð við Smán.VÍSIR/ANTON BRINK

„Eftir fyrstu þrjár, fjórar sýningarnar var ég svo búinn á því andlega og líkamlega að ég fór bara að gráta, maður brotnaði bara niður. Þetta er svo „heavy“ efni sem við erum að tala um. Ég hef sjaldan verið jafn þreyttur,“ útskýrir Jonni. „En ég meina, leikhúsið er frábær vettvangur til að takast á við viðfangsefni án þess að vera með svörin við vandamálunum. Á sviði getum við leyft okkur að ögra og vekja spurningar.“

„Og það sem er áhugavert við þetta tiltekna verk er að það vekur fleiri spurningar heldur en það svarar,“ bætir Tinna við.
Að sögn Hafsteins, Tinnu og Jonna hafa þau fengið jákvæð viðbrögð við Smán og góða dóma. Miðasala hefur gengið vonum framar þannig að áhugi fólks leynir sér ekki. Þau hafa orðið vör við að verkið fær fólk til að tala saman. Eins taka þau fram að þau fái mikil viðbrögð úr salnum á meðan á leiksýningu stendur. Það er því ljóst að innihald verksins snertir við áhorfendum. „Maður heyrir fólk svara persónunum og taka andköf,“ segir Tinna.

Hafsteinn bætir við að þá sé gaman þegar fólk gefur sér tíma til að koma til þeirra og tala um verkið. „Það er líka ótrúlega gaman þegar fólk kemur sérstaklega til manns til að þakka fyrir sig.“

„Já, það eru þær stundir sem gera það að verkum að öll vinnan verður þess virði. Þetta er alveg búið að vera erfitt. Maður þarf að fara í smá sálartékk. Þannig að þegar maður fær jákvæð viðbrögð þá er það svo mikill sigur,“ segir Tinna.

 

Viðeigandi umræða alls staðar
Smán er skrifað í Bandaríkjunum og yfir verkinu er amerískur blær að vissu leyti. „Þó svo að þetta sé skrifað í Bandaríkjunum þá á umfjöllunarefnið samt vel við á Íslandi í dag, og bara alls staðar í heiminum,“ segir Tinna. Hún er þeirrar skoðunar að samtöl leikverksins megi yfirfæra á önnur umdeild málefni nútímans.

Jonni tekur þá flóttamanna­umræðuna á Íslandi sem dæmi. Hann telur að fólk sem er á móti komu flóttamanna til Íslands sé gjarnan með einhverjar fyrirfram mótaðar hugmyndir í höfðinu. „Fyrir mig persónulega þá er nóg að sjá myndir af fólki sem er raunverulega að reyna að komast í eitthvert öryggi, litla krakka. Og ef það er ekki nóg til að fikta í hjartanu á þér þá er eitthvað að. Viljum við í alvöru vera þjóð sem lokar augunum og segir bara „nei“?“

Tinna tekur undir með Jonna.

„Þegar við horfum til baka, eftir 50 eða 100 ár, hvað viljum við þá að sagan segi? Viljum við að sagan segi að Ísland hafi sagt nei við þeim sem eru í neyð? Eða viljum við vera stolt og líta til baka og sjá að við hjálpuðum til?“
Hafsteinn er sömu skoðunar og á erfitt með að skilja illskuna sem einkennir ástandið víða í heiminum, nær og fjær. „Ég á ótrúlega erfitt með að skilja hversu vond við getum verið, mannfólkið. Hvort sem það er í formi þess að ráðast á fólk, rakka einhvern niður í athugasemdakerfum á netinu eða loka augunum fyrir hópi fólks sem þarf á hjálp að halda.“

Tinna bætir við: „Við erum bara ákveðinn tíma á jörðinni, og svo tekur næsta kynslóð við. Og ef hún er opin og skilningsrík þá erum við á réttri leið. Og þess vegna eru umræður svo mikilvægar.“ Hún minnir á að því sé mikilvægt að fólk passi hvaða upplýsingar það lætur yngri kynslóðir fá. „Já, ég ætla að segja það enn og aftur, það fæðist enginn með fordóma, fordómar eru kenndir.“
 

Svæði