Fréttir

Einhleypir ættleiða að nýju - Hliðarlistar liðin tíð

Til skamms tíma áttu einhleypir ekki kost á að ættleiða erlendis frá.

Fyrr á þessu ári ættleiddi einhleyp kona barn frá Tékklandi og önnur kona ættleiddi barn frá Tógó. Innan skamms mun þriðja einhleypa konan ættleiða barn en upplýsingar um barnið eru þegar komnar í hennar hendur.

Eftir að reglur breyttust í Kína í ársbyrjun 2007 var talið að ÍÆ gæti ekki sent umsóknir frá einhleypum til nokkurs lands og var umsóknum þeirra því raðað á svokallaðan hliðarlista, þrátt fyrir að í íslenskum reglum sé tekið fram heimilt sé að veita einhleypum heimild til að ættleiða ef talið er ótvírætt það sé barni til hagsbóta og sá sem ættleiðir sé talin sérstaklega hæfur umfram aðra vegna eiginleika sinna eða reynslu.

Hliðarlistarnir voru viðhafðir í fjögur ár eða fram á mitt ár 2010. Á þessu tímabili söfnuðust upp nöfn um 30 einhleypra einstaklinga sem höfðu áhuga á að ættleiða barn en fengu ekki tækifæri til að hefja ættleiðingarferlið.

Við nánari skoðun á reglum upprunaríkja og heimsókn til Kólumbíu var ákveðið leggja hliðarlistann niður. Fyrsta umsóknin frá einhleypri konu fór til Tékklands í fyrra en þá hafði ÍÆ ekki annast slíka milligöngu síðan 2007. Nú vitum við að öll löndin sem ÍÆ er í samskiptum við, Tógó, Tékklandi, Kína og Kólumbía, taka við umsóknum frá einhleypum en með mismunandi skilyrðum. Nokkrar umsóknir frá einhleypum eru nú erlendis eða á leiðinni þangað.

Það eru auðvitað dásamlegar fréttir fyrir einhleypa að fá vitneskju um það að ef þeir eru taldir sérstaklega hæfir eigi þeir möguleika á að ættleiða barn. Þetta eru ekki síður góðar fréttir fyrir þá sem vinna við ættleiðingarferlið því þeim ber að hafa alltaf hagsmuni barnanna í fyrirrúmi og miklu máli skiptir að hæfustu einstaklingarnir séu ætíð valdir sem foreldrar fyrir börnin.


Svæði