Fréttir

Eitt og annað - árið hálfnað

Nú þegar árið er u.þ.b. hálfnað er fróðlegt að skoða stöðuna í ættleiðingarmálunum.  Á þessu ári hafa komið 6 stúlkubörn frá Kína auk einnar stúlku sem á íslenska foreldra sem búsettir eru í Kína.  Fyrsta barnið sem ættleitt er frá Tékklandi kom í vor, 19 mánaða drengur og gekk þessi fyrsta ættleiðing mjög vel.

 Íslenskar fjölskyldur eiga nú 5 börn í Kína sem bíða þess að vera sótt og að auki vonumst við eftir að fá fljótlega upplýsingar um 8 önnur börn frá Kína. Upplýsingar um fleiri börn eru væntanlegar fyrir árslok þannig að árið verður mun betra en síðasta ár.

Biðtíminn hefur lengst í öllum löndum, nú bíða umsækjendur til Kína í 19-20 mánuði frá innskráningu umsóknar, þangað til að upplýsingar um barn koma, biðtíminn hefur lengst jafnt og þétt síðasta árið og verður að öllum líkindum orðinn 2 ár um næstu áramót og getur haldið áfram að lengjast. Kínversk stjórnvöld vilja engu spá um þróunina en staðfesta þó að biðin verður stöðugt lengri.
 
Biðtími í Kólumbíu er allt að 3 ár og á Indlandi um 3 ár, í Tékklandi var biðtíminn heldur styttri eða u.þ.b. 2 ár. Að auki er ferlið hér heima um 6 mánuðir áður en hægt er að senda umsókn til erlendra stjórnvalda.
Sama þróun er í nágrannalöndum okkar, biðtíminn lengist alls staðar sem er afleiðing mikillar fjölgunar umsækjenda. Á sama tíma hefur þeim börnum sem eru laus til ættleiðingar fækkað.
 
Vegna þess að biðtíminn hefur lengst mikið þurfa flestir umsækjendur að fá forsamþykkið framlengt.  Send er skrifleg beiðni til sýslumannsins í Búðardal og tekur um mánuð að fá framlenginguna sem gildir í eitt ár.
Ekki þarf að leggja fram ný vottorð né tala við félagsráðgjafa, að því gefnu að aðstæður umsækjenda hafi ekki breyst.
 
Nýjar reglur frá Kína sem tóku gildi 1. maí s.l. hafa nokkur áhrif á íslenska umsækjendur:
1.      Umsækjendur þurfa að hafa verið giftir í að lágmarki 2 ár þegar umsókn er send til Kína.
2.      Ef um er að ræða skilnað í fyrri hjúskap þarf lengd hjúskapar að vera orðin 5 ár.  
3.      Einhleypir geta ekki lengur sent umsókn til Kína. 
4.      Krafa er um lágmark 12 ára menntun.
Nú tveim mánuðum eftir gildistöku nýju reglanna sjáum við að umsóknum til Kína hefur fækkað umtalsvert og fleiri umsækjendur stefna til hinna ættleiðingarlandanna.  
Önnur atriði sem snúa að heilsufari, þyngd og sakavottorði, þarf að skoða nákvæmlega áður en ákvörðun er tekin um ættleiðingarland, reglurnar má lesa í upplýsingum um löndin hér á síðunni. 

Svæði