Fréttir

Fræðsla fyrir barnaverndarnefndir

Þegar umsækjendur um forsamþykki hafa skilað inn umsókn sinni til Íslenskrar ættleiðingar er hún yfirfarin af sérfræðingum félagsins og áframsend til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Þar er umsóknin yfirfarin á ný og kallað eftir sakavottorðum og fæðingarvottorðum umsækjenda.

Þegar öll gögn liggja fyrir er beiðni send til barnaverndar sveitafélagsins þar sem umsækjendurnir búa, um að kanna hagi umsækjendendanna og hæfi þeirra til að ættleiða erlent barn. Sýslumannsembættið óskar eftir því að barnaverndarnefndin kanni hagi umsækjenda og meti hæfni þeirra til að taka að sér erlent barn.

Á Íslandi eru 27 barnaverndarnefndir og eru þær á forræði sveitarfélaga. Sveitarstjórn kýs barnaverndarnefnd og fundar nefndin reglulega. Nefndin styðst við umsögn félagasráðgjafa sem hefur hitt umsækjendur og kynnt sér hagi þeirra í þaula.

Umsögn félagsráðgjafans er eitt af því mikilvægasta sem fylgir umsókn til upprunalandsins, þar sem ættleiðingarnefnd kynnir sér umsækjendur áður en þeir eru paraðir var barn. Talsverður munur hefur verið á umsögnunum þar sem sumar barnaverndarnefndir fá fáar umsagnir til meðferðar hjá sér. Árið 2015 voru umsækjendur frá fimm sveitarfélögum og bættust þrjú sveitarfélög við á þessu ári.

Íslensk ættleiðing hafði frumkvæði að því að óska eftir því við innanríkisráðuneytið og sýslumannsembættið að bjóða starfsmönnum barnaverndar fræðslu um málaflokkinn áður en að þeir heimsækja umsækjendur. Starfsmenn barnaverndar hafa allir tekið fræðslunni mjög vel og hefur þekking þeirra á ættleiðingarmálaflokknum aukist.

Starfsmenn félagsins hafa samband við barnavernd þegar tilkynning berst félaginu um að borist hefur beiðni frá sýslumannsembættinu til barnaverndar. Sá starfsmaður sem fær málinu úthlutað fær þá boð um fræðslu. Hyggst félagið fylgja þessu eftir á meðan barnavernd sinnir umsögnum fyrir sýslumannsembættið.


Svæði