Fréttir

Fréttablaðið - Mikilvægast er að sameina fjölskyldur

„Mikilvægast er að sameina fjölskyldur. Ég skil vel að fólk hugsi til þess möguleika að ættleiða börn frá Sýrlandi en það er ekki endilega besti kosturinn,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni á setningu Alþingis að það þyrfti að meta hvort hægt væri að einfalda ættleiðingar barna frá Sýrlandi þar sem þúsundir sýrlenskra barna eru munaðarlaus og búa við erfiðar aðstæður. Einnig hafa margir lýst yfir vilja til að ættleiða sýrlensk börn í umræðunni síðustu vikurnar.

Bergsteinn segir aftur á móti staðreyndina vera þá að langflest munaðarlausu barnanna eigi fjölskyldu og í Mið-Austurlöndum sé mikil hefð fyrir að ættingjar taki að sér munaðarlaus börn.

„Flest hjálparsamtök sem vinna í þessum geira leggja áherslu á að ættleiðingar milli landa séu síðasta lausnin, þegar sameining við fjölskyldu er þaulreynd. Svo sjáum við ef til vill fyrir okkur annan veruleika. Þetta eru ekki ungabörn á vergangi heldur eru þetta oftast 14-17 ára drengir sem ferðast um í hópum og þeir líta ekki á sig sem börn.“

Bergsteinn hvetur þó til að tekið verði á móti fylgdarlausum börnum á flótta. „En reynum að finna fjölskyldur þeirra og tökum einnig á móti þeim. Þannig sameinum við fjölskyldur.“

Fréttablaðið - Mikilvægast er að sameina fjölskyldur


Svæði