Fréttir

Hjálpa ber fjölskyldunni í Kólumbíu

Undanfarnar vikur hafa fjölmiðlar á íslandi fjallað töluvert um aðstæður íslenskrar fjölskyldu, sem er fyrir milligöngu Íslenskrar ættleiðingar í Kólumbíu til að ættleiða tvær ungar stúlkur.

Hjónin Bjarnhildur og Friðrik fóru í desember síðastliðnum til Kólumbíu en hafa ekki ennþá komist heim með börnin vegna þess að mál þeirra hefur þæfst hjá þarlendum dómstól.

Mál þessarar fjölskyldu er einstakt og á sér ekki hliðstæðu í Kólumbíu eða í reynslubanka Íslenskrar ættleiðingar. Mikilvægt er að það sé upplýst að hjónin hafa gert allt rétt og farið að öllum reglum bæði hér heima og erlendis og eru metin mjög vel hæf sem foreldrar af stjórnvaldinu hér. Meðferð á máli þeirra verður því ekki skýrð með því þau eða aðrir sem að ferlinu koma hafi eitthvað óhreint mjöl í pokahorninu.

Augljóst er að óvænt átta mánaða dvöl í öðru landi hefur haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir fjölskylduna og þá ekki síst á fjárhag hennar. En samkvæmt fréttum stendur kostnaður þeirra nú í um 12 milljónum króna vegna þessarar útiveru.

Eins og kunnugt er gengur nú Íslensk ættleiðing á varasjóð sinn og kostar daglegan rekstur með þeim fjármunum, en vel þekkt er að tekjur félagsins standa ekki undir lögboðnum verkefnum þess. Á stjórnarfundi ÍÆ í apríl var fjölskyldunni úthlutað litlu framlagi úr sjóðum okkar en svigrúm félagsins sem slíks er ekki meira.

ÍÆ hefur upplýst stjórnvöld eins og kostur er um stöðu fjölskyldunnar og hvatt til þess að stjórnvöld styðji fjölskylduna í aðstæðum sínum sem eru einstakar og fordæmalausar.

Íslensk ættleiðing skorar á ríkisstjórn Íslands að leggja fjölskyldunni lið svo sem kostur er.


Svæði