Fréttir

Hvers vegna eru lög og regla - #Adoptionawareness

Lög um ættleiðingar nr. 130/1999 með síðari breytingum, tóku gildi hér á landi þann 11. júlí 2000. 

Lögin voru sett í kjölfarið af heildarendurskoðun á eldri ættleiðingarlögum nr. 15/1978 og víðækri athugun á framkvæmd þágilandi laga um ættleiðingar. Þá var ný lagasetning jafnframt mikilvægur þáttur í því að skapa grundvöll fyrir fullgildingu Haag-samningsins frá  29. maí 1993 um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingu á milli landa. 

Við endurskoðun á ættleiðingarlögum var litið til þróunar ættleiðingarlöggjafar á Norðurlöndum og öðrum Evrópulöndum. Er það sameiginlegt með ættleiðingarlöggjöf víða í Evrópu að lögfest er sú grunnregla að við ættleiðingu skuli hagsmuni barnsins hafðir að leiðarljósi, þ.e. það sem barni fyrir bestu. Við endurskoðun á lögunum þótti jafnframt mikilvægt að samræma ættleiðingarlög ákvæðum  nýrra laga m.a. á sviði sifjaréttar, s.s. barnalaga og laga um vernd barna- og ungmenna. 

Í I. kafla laga um ættleiðingar er fjallað um ættleiðingu og skilyrði ættleiðingar, m.a. hverjir veita leyfi til ættleiðingar, hverjir geta verið ættleiðendur og hverja megi ættleiða. Þá er lögfest  í 4. gr. kaflans það skilyrði að eigi megi veita leyfi til ættleiðingar nema ættleiðing teljist barni fyrir bestu. 

Í II. kafla laganna eru ákvæði er snerta meðferð og úrlausn ættleiðingarmála. Með þeim kafla voru lögfestar ákveðnar grunnreglur sem áður höfðu mótast af stjórnsýsluvenjum og verklagsreglum. Er ákvæðum kaflans ætlað að veita heildarmynd yfir það ferli sem liggur að baki útgáfu ættleiðingarleyfis og tryggja að undirbúningur að úrlausn ættleiðingarmála sé eins og best verður á kosið. Í því samhengi var það nýmæli við setningu laganna að komið var á stofn ættleiðingarnefnd sem veitir faglega umsókn þegar  viðbótar umsögn barnaverndarnefndar ef þörf krefur. 

Í III. kafla laganna eru ákvæði er fjalla um dómsmál og í IV. kafla laganna er fjallað um réttaráhrif ættleiðinga. Í lögunum er lögfest svokölluð “sterk ættleiðing”, og í því felst að við ættleiðingu öðlast kjörbarn sömu réttarstöðu gagnvart kjörforeldum sínum og það vær eigið barn foreldra sinna og samhliða rofna öll lagatengls barns við kynforeldri. Samkvæmt lögunum felur ættleiðing í sér algjör fjölskylduskipti er það eina lögformlega ættleiðingargerðin í ættleiðingarlöggjöf á Norðurlöndum. 

Í V. kafla laganna eru ákvæði sem annars vegar skylda foreldrum til að skýra barni frá því að það sé ættleitt, er tilgangur ákvæðisins m.a. að árétta ábyrgð foreldra, og hins vegar ákvæði sem mælir fyrir um rétt kjörbarns til aðgangs að upplýsingum um uppruna sinn, þ.á.m. hverjir eru kynforeldrar þessu. Voru framangreind ákvæði nýmæli við setningu laganna. 

Í VI. kafla laganna er kveðið á um ættleiðingar barna erlendis frá. Þrátt fyrir að almenn ákvæði ættleiðingarlaga eigi jafnframt við um ættleiðingar á börnum erlendis frá getur reynt á ýmis vandamál þegar um ræðir ættleiðingu á milli landa. Voru ákvæði kaflans m.a. sett með það að markmiði að lögfesta ákvæði sem fælu í sér grundvöll fyrir fullgildingu Haag-samninginn frá 29 maí 1993 og framkvæmd hans hér á landi. Megintilgangur Haag-samningsins er að tryggja að hagsmunir barns séu hafðir að leiðarljósi við ættleiðingu á milli landa. Þá er samningnum jafnframt ætlað að koma í veg fyrir brottnám og sölu barna. Í honum kemur fram að aðildarríki skuli stuðla að því að gerðir séu  samningar varðandi ættleiðingar milli landa, m.a. til að tryggja að það séu þar til bær stjórnvöld og stofnanir sem sjái um að koma barni fyrir í öðru landi. Samkvæmt ættleiðingarlögum gegnir  dómsmálaráðherra hlutverki miðstjórnarvalds sem ber ábyrgð á framkvæmd samningins. Þá skal hann jafnframt ákvarða um umsókn um útgáfu forsamþykkis. Í IV. kafla voru því lögfest ýmis nýmæli til samræmis við ákvæði Haag- samningsins. Má þar nefna heimild dómsmálaráðherra til að setja reglugerð þess efnis um að umsækjendum um forsamþykki sé skylt að sækja undirbúningsnámskeið um ættleiðingu erlendra barna.  Auk þess sem dómsmálaráðherra skal löggilda félög til að hafa milligöngu um ættleiðingar barna erlendis og mega slík félög ein hafa milligöngu um ættleiðingar. 

Íslensk ættleiðing er eina löggilda ættleiðingarfélagið hér á landi og hefur það heimild til að annars milligöngu um ættleiðingar frá Kína, Kólumbíu, Tékklandi og Tógó. 

#Adoptionawareness


Svæði