Fréttir

Í.Æ. í Kólumbíu

Kristinn Ingvarsson framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar er lentur heilu og höldnu í Kólumbíu eftir langt og strangt ferðalag þar sem flogið var í krókaleiðum fram og til baka yfir Ísland sökum eldgossins í Eyjafjallajökli.

Ferðalagið var langt en móttökurnar magnaðar sagði Kristinn við okkur í skypesamtali seint í gærkvöldi. Olga, tengiliður okkar í Kólumbíu, fjölskylda hennar og starfslið tók honum með miklum sóma og skipulagðri dagskrá.

Hann fagnaði mæðradeginum með Olgu og fjölskyldu hennar á sunnudag en í gær dvaldi hann á skrifstofu Olgu og fylgdist þá meðal annars með fyrsta fundi enskra hjóna sem komin eru til landsins til að ættleiða barna. Þetta var virkilega dýrmæt reynsla sem ég öðlaðist á þessum fundi sagði Kristinn sem gerir okkur auðveldara að leiðbeina okkar fólki sem hyggur á ættleiðingar frá landinu.

Kristinn segist einnig hafa fengið nýjar upplýsingar um ættleiðingakosti í landinu og það sé að sjálfsögðu mikils virði.

Í dag fundar Kristinn með ICBF, kólumbísku ættleiðingaryfirvöldunum og í ráði er að á morgun fylgi hann hjónunum ensku heim í hérað og fylgist með ferlinu þeirra þar til þau hafa fengið barnið sitt.

Spurður að því hvað standi upp úr segir Kristinn að það sé fjölmargt. “Svona ferðir eru greinilega gríðarlega mikils virði til að styrkja sambandið og mjög lærdómsríkar þó kostnaðurinn se töluverður fyrir okkar litla félag. Það hefur greinilega verið umhugsunarefni fyrir Olgu og hennar fólk afhverju enginn frá Í.Æ. hefur áður komið til Kólumbíu í þessum erindagjörðum því öll spyrja þau; Af hverju hafið þið aldrei komið áður?”

 


Svæði