Fréttir

Passtarf batnar

Í Haagsamningnum um alþjóðlegar ættleiðingar er lögð áhersla á að veitt sé þjónusta eftir ættleiðingar og gengur sá hluti ættleiðingarstarfsins almennt undir heitinu Pasþjónusta sem stendur fyrir útlenskuna Post-Adoption-Service.

Ákveðinn bragur komst á þessa þjónustu hjá Íslenskri ættleiðingu þegar Gerður Guðrmundsdóttir lét af setu í stjórn félagsins árið 2006 til að geta einbeitt sér að þjónustu eftir ættleiðingu. Til varð vinnuhópur sem starfaði með Gerði og gekk hópurinn undir nafninu Pasnefnd.

Að hausti 2011 fóru allir þáverandi Pasnefndarmenn í frí frá nefndarstörfum vegna anna flestra við nám. Nefndin hefur ekki hafið störf að nýju og er ekki ráðgert að hún starfi aftur með sama sniði.

Við starfshlé nefndarinnar færðust verkefni pasþjónustunnar sjálfkrafa yfir á skrifstofu félagsins og var starfið blómlegt á árinu sem er að líða. Haldnar voru sjö kynningar og fyrirlestrar á vegum félagsins og voru þátttakendur stundum taldir í tugum. einnig var boðið upp á viðtöl sálfræðings og félagsráðgjafa en sú þjónusta var verulega niðurgreidd af hálfu félagsins. Nokkur ásókn var í þessa viðtalsþjónustu og ákveðið hefur verið að hún verði í boði áfram.

Þó að við séum stolt af að hafa rekið pasþjónustu með þessum sóma þegar sérlega hart var í ári rekstrarlega hjá félaginu er ljóst að efla þarf þetta starf til muna. Upprunaríki barnanna leggja mikla áherslu á að vel sé staðið að þessari þjónustu og spyrja alltaf sérstaklega hvernig staðið sé að þessum málum þegar þau meta hvort hægt sé að treysta viðkomandi þjóð til að taka við börnunum þeirra.


Svæði