Fréttir

Rúv.is - Búlgörsk börn ganga kaupum og sölum

Mynd: flickr.com
Mynd: flickr.com

Svört verslun með börn blómstrar á Balkanskaga. Búlgarskt barn kostar á bilinu frá 150 þúsund krónum og upp í sex milljónir, drengir eru dýrari en stúlkur. Eftirspurnin meðal grískra para sem ekki hefur orðið barna auðið er mikil. Talið er að hundruð barna séu seld mansali á ári hverju. Þetta kemur fram í viðamikilli úttekt vefmiðilsins Balkan Insight.

Lítið fer fyrir versluninni

Búlgörsk börn, alin upp í Grikklandi hafa lítið ratað í heimspressuna, þó er ein ódæmigerð undantekning. Margir muna eftir Maríu litlu, fjögurra ára gamalli stúlku, sem fékk viðurnefnið ljóshærði engillinn. Hún fannst meðal Rómafólks í Grikklandi haustið 2013 og þótti stinga í stúf, ljóshærð og bláeygð. Parið sem hún bjó hjá var ákært fyrir mannrán, saksóknarinn lýsti því yfir að María liti ekki út fyrir að vera skyld þeim. Lýst var eftir foreldrum hennar í sjónvarpinu. Sasha Ruseva, búlgörsk rómakona, gaf sig fram. Hún kvaðst hafa eignast Maríu þegar hún starfaði við ólífutínslu í Grikklandi og falið parinu að sjá um hana, hún tók að eigin sögn ekki greiðslu fyrir. DNA-próf staðfestu frásögn Rusevu. María var rómabarn. Hún fékk þó hvorki að hverfa heim til uppeldisforeldra sinna né blóðforeldra, góðgerðarsamtökin Bros barnsins fengu fullt forræði.

 

Búa við mikla mismunun
Rómafólk eða sígaunar er stærsti minnihlutahópurinn í Búlgaríu, 5-10 % þjóðarinnar. Hlutfall Rómafólks er hvergi hærra í Evrópu. Rómafólkið talar eigið tungumál og hefur sérstæða menningu. Það kom til Evrópu frá Norður-Indlandi fyrir um þúsund árum. Oft hefur það verið tengt farandlífi en í dag hefur flest Rómafólk fast aðsetur. Óalgengt er að Rómar og Búlgarir gangi í hjónaband og meirihluti Búlgara lítur niður á þá. Stór hluti Rómafólks býr við mikla fátækt, atvinnuleysi er algengt, glæpatíðni mun hærri en meðal íbúa landsins almennt og menntunarstig lágt. Rómafólk býr oft í ólöglegum hreysaþyrpingum í útjaðri borga. Það hefur hvorki vatnsveitu né aðgang að rafmagni og deilir oft húsakosti með búfénaði. Óöruggir pólitíkusar eru hrifnir af því að nota Rómafólk sem blóraböggla. Þorpum Rómafólks er reglulega rutt burt og Rómafólk verður ítrekað fyrir árásum af hálfu etnískra Búlgara.

Til að eiga fyrir húsi eða partíhaldi
Við þurftum að sjá fyrir hinum börnunum, þetta var eina leiðin. Þetta er viðkvæðið hjá mörgum íbúum í þorpinu Ekzarh Antimovo í Burgas-héraði í suðausturhluta Búlgaríu. Aðrir íbúar hafa selt börn til þess eins að eiga fyrir áfengi og partíhaldi. Þegar peningarnir klárast selja þeir næsta barn. Þetta kemur fram í úttekt vefmiðilsins Balkan Insight á barnamansali milli Búlgaríu og Grikklands.

Fólk bankaði upp á í sífellu
Stanka, þrítug kona, seldi barnið sitt fyrir nokkrum árum síðan. Féð sem hún fékk nýtti hún til þess að festa kaup á litlu húsi. Hún hefur verið ákærð fyrir brotið og málaferli standa yfir. Hún segist vera full eftirsjár, hún hafi verið ung og vitlaus og fólk hafi í sífellu bankað upp á hjá henni og boðið henni að selja fyrir hana barnið sem var á leiðinni. Fordæmin voru allt í kringum hana og hún sá enga aðra leið færa til að sjá fyrir sér og hinum börnunum tveimur. Árlega grípa fjölmargar búlgarskar Rómakonur til sama ráðs og Stanka. Athæfið er að sögn viðmælenda Balkan Insight félagslega viðurkennt meðal Rómafólks á svæðinu og það ræðir opinskátt um reynslu sína af því að selja börn sín.

Lifa í vellystingum í vírgirtum húsum
Konurnar sem selja börn sín eru flestar undir tvítugu og hafa ekki notið menntunar. Oft verða þær fyrir þrýstingi frá smyglurum og útsendurum þeirra. Stærstur hluti ágóðans af sölunni ratar líka í vasa þeirra. Í Kameno-þorpi, nærri hafnarborginni Burgas, lifa mansalskóngar og drottningar í vellystingum. Þau reisa sér margra hæða hús og koma upp vírgirðingum umhverfis þau. Handan smyglarahverfisins tekur við breiða hrörlegra hrófatildra. Þar finna glæpamennirnir ungar, ófrískar konur í bágri stöðu og gera þeim gylliboð. Flestir hafa smyglararnir áður búið í Grikklandi og komið sér upp góðu tengslaneti. 

Snuða konurnar um greiðslur
Konurnar sem samþykkja þátttöku eru keyrðar yfir til Grikklands, þeim er komið fyrir í húsnæði sem þær mega ekki yfirgefa fyrr en komið er að fæðingunni. Eftir að barnið fæðist er þeim fylgt aftur til vistarveranna og þar er gengið frá viðskiptunum. Rannsóknarlögreglumaður sem Balkan Insight ræddi við heldur því fram að oft snuði smyglararnir konurnar um greiðslur, féð sem þær fái nægi stundum einungis fyrir lestarmiða aftur heim.

Kunnugir læknunum
Stanka segir smyglarana hafa komið vel fram við sig fram að fæðingunni. Þegar hríðirnar hófust fóru þeir með hana á sjúkrahús og hún segir að þeir hafi verið kunnugir læknunum þar. Þegar þeir sneru aftur í íbúðina urður þeir að hennar sögn óblíðari á manninn, hrifsuðu frá henni barnið, létu hana undirrita skjöl sem hún skildi ekki og fleygðu í hana peningum, helmingnum af því sem þeir höfðu lofað að borga henni. Aðrar mæður sögðu rannsóknarteymi Balkan Insight svipaða sögu. Gríska lögreglan hefur grun um að heilbrigðisstarfsmenn taki þátt í skipulagðri glæpastarfsemi; án þátttöku lækna, lögfræðinga og saksóknara væri aldrei hægt að reka svo umfangsmikinn glæpahring. Saksóknarar eru sagðir semja við smyglarana, heita þeim vægum dómum gegn játningu, skilorðsbundnu fangelsi í þrjú ár. Þetta er ástæðan fyrir því að einungis þrír sitja nú inni í búlgörskum fangelsum fyrir aðkomu að barnaverslun.

Borgað undir borðið
Rannsakendurnir segja smyglara beita tvenns konar aðferðum. Karlmaður sem hyggst ættleiða barnið getur lýst því yfir að hann sé faðir þess og móðirin skrifar svo undir pappíra sem veita honum fullt forræði. Algengast er að ættleiðingin fari fram með hefðbundnum hætti. Lögfræðingur aðstoðar par við að finna konu sem vill gefa barn sitt til ættleiðingar og þau skrifa undir samning. Dómari fullgildir samninginn, síðan er borgað undir borðið.

Tíðkast frá falli kommúnismans
Lögregluyfirvöld í Búlgaríu og Grikklandi grunar að mansalið hafi tíðkast í um aldarfjórðung. Fall kommúnismans auðveldaði för fólks yfir landamæri og eftir að Búlgaría fékk aðild að Evrópusambandinu árið 2007 hurfu í raun landamærin á milli Búlgaríu og Grikklands. Lögregluyfirvöld í bæði Grikklandi og Búlgaríu halda því fram að einungis komist upp um brotabrot þeirra sem selji börn til Grikklands. Rannsóknir eru tímafrekar og leiða sjaldan til niðurstöðu. Hvatinn hjá lögreglunni er því lítill. Þá er samvinnan milli ríkjanna ekki með besta móti. Helsta fyrirstaðan er að sanna að greitt hafi verið fyrir barnið, það sé oft ógjörningur og peningarnir séu það sem geri ættleiðingu milli einstaklinga ólöglega. Þá eru dómar tiltölulega vægir þrátt fyrir að refsiramminn hafi verið hækkaður í 15 ár.

Starfsemin kann að færast í aukana
Helst þarf að grípa hringina glóðvolga. Það nægir ekki að banka upp á í fínu villunum í Kameno sem augljóslega eru byggðar fyrir mansalsfé. Áhættan er lítil og ágóðinn mikill, því er útlit fyrir að starfsemin haldi áfram og færist jafnvel í aukana.

Búlgörsk yfirvöld fá, að sögn Balkan Insight, litlar upplýsingar frá grískum stjórnvöldum, mansalsteymið búlgarska fær alltaf sömu svörin, það eru engin búlgörsk börn í Grikklandi og við veitum engar upplýsingar um gríska ríkisborgara.

Lamia-hringurinn upprættur
Lögreglunni hefur þó tekist að gera rassíu. Umsvifamikil rannsókn grísku og búlgörsku lögreglunnar á barnasmygli milli Búlgaríu og Grikklands leiddi í byrjun árs 2011 til handtöku 12 manna, sjö í grísku borginni Lamia og fimm í Varna, búlgarskri hafnarborg við Svartahafið. Lamia-hringurinn hafði starfað óhindrað í heilan áratug. Það var iðrunarfull móðir, Snejinova, sem kom lögreglunni á sporið. Hún seldi barn sitt en sá eftir ákvörðun sinni og óskaði því eftir aðstoð lögreglunnar í Búlgaríu við að endurheimta það.

Einungis búlgarskar konur „gáfu“ til ættleiðingar
Rannsóknir gríska blaðamannsins Dimitris Konstantopoulos, sýndu seinna fram á að 274 börn fæddust búlgörskum mæðrum á fæðingardeild sjúkrahússins í Lamia árunum 2007 til 2012. Að minnsta kosti 107 þeirra voru ættleidd. Engin grísk börn voru á sama tíma gefin til ættleiðingar. Árið 2010, skömmu áður en afskipti lögreglunnar af Lamia-hringnum hófust var ellefta hver kona sem fæddi á spítalanum búlgarskur ríkisborgari.

Móðir fær tveggja ára skilorðsbundinn dóm
Mæður eru stundum ákærðar. Lögregluyfirvöld og saksóknarar segja óalgengt að þær iðrist gjörða sinna, sýnilega. Þá sé sjaldgæft að þær nýti féð til að fjárfesta í fasteignum, líkt og Stanka. Velichka, þriggja barna móðir sem Balkan Insight ræddi við fékk 1500 evrur í sinn hlut fyrir að selja barn til Grikklands, einungis helminginn af því sem henni hafði verið lofað. Féð er uppurið, Velichka varði því til þess að kaupa gullskart og flatskjá. Hún býr í foreldrahúsum og sér fyrir sér með vændi. Hún hafði áður selt úr sér nýra í Grikklandi. Þar kynntist hún glæpamönnum sem síðar aðstoðuðu hana við að selja barn sitt. Lögreglan komst á snoðir um glæpinn og hlaut hún tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm.

Löng bið eftir ættleiðingum
En hvernig dettur grískum pörum í hug að kaupa börn á svörtum markaði? Hvers vegna ættleiða þau ekki með löglegum hætti? Í úttekt Balkan Insight kemur fram að ástæðan sé einkum löng bið eftir ættleiðingu á vegum ríkisins. Grikkir ættleiða árlega um 500 börn, ríkið kemur þar af að ættleiðingu um 35. Ættleiðingar milli einkaaðila er leyfðar og eftirlit lítið sem ekkert. Kjöraðstæður til að dulbúa ólöglega gróðastarfsemi í löglegan búning.

Smyglari lagði barnið í kjöltu hennar
Elena, grísk kona sem um árabil hafði verið á biðlista hjá ættleiðingarstofnun gríska ríkisins, keypti dóttur sína fyrir áratug síðan. Hún og eiginmaður hennar höfðu samband við lögfræðing í Aþenu sem kvaðst geta útvegað þeim búlgarskt barn. Hjónin greiddu lögfræðingnum 25 þúsund evrur og skömmu síðar bað hann þau að hitta sig fyrir utan sjúkrahús nokkurt í Aþenu. Þau biðu í bílnum, einn smyglaranna kom út, opnaði bíldyrnar og lagði barnið í kjöltu Elenu. Litlu síðar hittu þau lögmanninn aftur og skrifuðu undir alla nauðsynlega pappíra. Enginn frá ríkinu hefur síðan haft afskipti af fjölskyldunni eða barninu, þrátt fyrir að félagsþjónustan eigi að fylgja ættleiðingum eftir.

Vilja heimila greiðslur
Sumir telja lausnina felast í því að hafa allt uppi á borðinu, eins og tíðkast í Bandaríkjunum og leyfa peningagreiðslur vegna kostnaðar móður á meðgöngu. Þannig mætti koma starfseminni upp úr undirheiminum og koma í veg fyrir að smyglarar og aðrir miðjumenn geti hagnast á bágri stöðu Rómakvenna í Búlgaríu.


Svæði