Fréttir

Samræða við fólk á biðlista

Frá því um áramótin hefur verið viðhöfð sú nýbreytni í starfi Í.Æ. að þeir hópar sem eru á biðlista hjá félaginu hafa komið til samræðu og viðtals með stjórnendum á skrifstofu félagsins.

Þessi þáttur í starfseminni er tekinn upp sem viðbrögð við niðurstöðum rýnihópa um starfsemina sem félagsmönnum gafst kostur á að taka þátt í á haustmánuðum. Í rýnihópunum kom fram sterk þrá þeirra sem eru á biðlistum um aukið upplýsingaflæði og meiri stuðning í biðinni og það var skýr krafa um frumkvæði af hálfu skrifstofu félagsins í þessa veru.

Í desember var það með fyrstu verkum Kristins Ingvarssonar framkvæmdastjóra að hafa símasamband við alla umsækjendur á biðlista og lauk því mikla verki fyrir áramót.

Frá áramótum hafa verið fundir með biðlistahópum. Fundirnir fara fram á skrifstofu félagsins að kvöldi til og standa í u.þ.b. tvo klukkutíma eftir efnum og ástæðum hverju sinni. Kristinn hefur boðað til samræðufundanna en með honum, auk biðlistahópanna, hafa meðlimir í stjórn Í.Æ. skipst á að sitja fundina.

Nú þegar hafa hópar 18 og 19 til Kína komið til funda, einnig hafa þeir sem eru á biðlista til Kólumbíu átt fund og það sama er að segja um alla sem eru á biðlista eftir barni frá Indlandi. Í næstu viku verð fundir með þeim sem eru í hópum 20, 21, 22, og 23 til Kína og svo koll af kolli. En einnig er á döfinni að funda sérstaklega með þeim sem eru að færast nálægt leyfilegu aldurshámarki þeirra sem hafa forsamþykki til ættleiðingar.

Viðbrögð þeirra sem eru á biðlistum við þessum samræðukvöldum er með þeim hætti að ljóst er að þessi þáttur í starfsemi félagsins er kominn til að vera. Gagnlegar upplýsingar hafa verið veittar á báða bóga og fólk hefur haft á orði að gott sé að koma saman og tala um sín mál.

Að frumkvæði félagsráðgjafa sem starfaði hjá Íslenskri ættleiðingu fyrri hluta árs 2007 voru stofnaðir stuðningshópar fyrir fólk á biðlista, en þeir voru aðra hverja viku í sex vikur. Þóttu þeir takast vel en lögðust af þegar staða félagsráðgjafa var lögð niður hjá félaginu. Stjórnendur Í.Æ. munu halda áfram að hitta umsækendur en hafa einnig áform um að kanna meðal umsækjenda hvort þeir hafi áhuga á að skrá sig í reglulega stuðningshópa undir umsjón félagsráðgjafa.


Svæði